Jason Vukovich er tæplega fimmtugur Bandaríkjamaður sem afplánar nú þungan dóm fyrir ítrekaðar og alvarlegar líkamsárásir. Engu að síður hafa margir kallað eftir því að hann fái sakauppgjöf, enda beindust brot hans gegn einum hataðasta hóp samfélagsins – barnaníðingum. Jason fékk í kjölfarið viðurnefnið „Refsivaldur Alaska“ eða Alaskan avenger.
Jason er fæddur árið 1975. Móðir hans var einstæð en hóf síðar sambúð með manni að nafni Larry Lee Fulton sem á endanum ættleiddi Jason.
„Foreldrar mínir voru bæði sannkristnir og fóru með okkur í allar messur sem voru í boði, sem var um tvisvar til þrisvar í viku,“ skrifaði Jason í bréfi til Anchorage Daily News eftir að hann var fangelsaður. „Svo þið getið rétt ímyndað ykkur hryllinginn og örvæntinguna sem ég upplifði þegar þessi maður, sem hafði ættleitt mig, byrjaði að nota kvöldbænatímann til að misnota mig.“
Fulton beitti drenginn einnig líkamlegu ofbeldi. Hann barði hann með prikum og hýddi hann með beltum. Árið 1989 var Fulton dæmdur fyrir ofbeldi gegn barni en dómurinn var skilorðsbundinn. Fulton fékk því að fara aftur heim og enginn á vegum hins opinbera fylgdist með því hvort hann væri enn að beita börn sín ofbeldi. Ofbeldið hélt því áfram þar til Jason varð 16 ára gamall og strauk að heiman ásamt bróður sínum.
Bræðurnir flúðu til Washington. Jason var ekki með persónuskilríki og enga peninga. Hann endaði því á götunni og þurfti að stunda smáglæpi til að lifa af. „Ég hafði lært að ég var einskis virði, rusl. Þessi grunnur sem var lagður í æsku minni var enn til staðar.“
Árið 2008 flutti hann aftur til Alaska og var þá kominn með skrautlegan sakaferil. Áföllin úr æsku leituðu enn á hann og árið 2016 fékk hann nóg og ákvað að gera eitthvað í því – en í staðinn fyrir að leita í áfallameðferð ákvað hann að láta barnaníðinga kenna á því.
Það var auðvelt fyrir hann að finna barnaníðinga í Alaska enda þurfa allir menn sem hafa verið dæmdir fyrir kynferðisbrot að skrá sig á sérstakan lista sem er opinber.
Hann lýsti því síðar að það hefði skipt hann sjálfan sköpum, þegar hann var varnarlaust barn sem var verið að misnota – hefði húðflúraður maður ruðst inn á heimilið og barið pabba hans. Því sem barn hélt hann hreinlega að öllum væri sama.
Hann ruddist því sjálfur inn á heimili þriggja barnaníðinga. Þann fyrsta tugtaði hann aðeins til og rændi. Þeim næsta hótaði hann með hamri, kýldi í andlitið og rændi svo. Þegar kom að þeim þriðja varð árásin ofbeldisfyllri. Þá beitti Jason hamrinum og sagði: „Ég er hefniengill. Ég er kominn til ná fram réttlætinu fyrir þá sem þú hefur skaðað.“
Eftir síðustu árásina var Jason handtekinn og svo ákærður fyrir líkamsárás, rán, innbrot og þjófnað. Hann lýsti fyrst yfir sakleysi en játaði svo sök í skiptum fyrir vægari dóm. Hann var dæmdur í 28 ára fangelsi, þar af 10 ár skilorðsbundin.
Árið 2017 ritaði hann bréf til Anchorage Daily News til að útskýra hvað vakti fyrir honum. „Ég hugsaði um mína eigin reynslu sem barn. Ég tók lögin í eigin hendur og réðst á þrjá barnaníðinga. Ef þú hefur þegar tapað æskunni, eins og ég, út af barnaníðingi – ekki rústa lífi þínu og framtíð með ofbeldi.“
Margir litu þó á Jason sem hetju. Hann áfrýjaði refsingu sinni árið 2020 og bar því við að áfallastreita hans ætti að leiða til refsilækkunar. Hann tapaði málinu og dómari tók sérstaklega fram að Alaska umberi það ekki að fólk taki lögin í eigin hendur.
Níðingurinn sem Jason réðst á með hamri glímir við alvarlegan heilaskaða eftir árásina. Hann segist feginn að vita af Jason á bak við lás og slá og þætti best ef hann fengi aldrei aftur um frjálst höfuð að strjúka. Þetta varð til þess að einn íbúi í Alaska skrifaði opinbera grein þar sem hann velti því fyrir sér hvort þolendur barnaníðingsins hugsuðu ekki eins.