Þann 17. desember var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Suðurlands yfir manni sem ákærður var fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot.
Ákært var vegna atviks sem átti sér stað 29. maí árið 2022. Maðurinn var sakaður um að hafa ekið bíl þegar hann var óhæfur til þess vegna áfengisvímu og svefnleysis. Ók hann of hratt miðað við aðstæður og án nægjanlegrar aðgæslu. Hann sofnaði á meðan akstri stóð og keyrði á tvær manneskjur sem hlutu eftirfarandi meiðsli samkvæmt ákæru:
„…A hlaut brot á vinstra herðablaði, tvíbrot á sperrilegg vinstri fótar, úlnliðsbrot á hægri hendi, mar á heila og yfirborðsáverka á höfði og hnjám og B hlaut brot á hálshryggjarlið, rifbrot, lendarlið, kliftarbeini, [sic] brot í spjaldbeini, brot í mjaðmabeini hægra megin, vinstri mjaðmarskál, margúl í mjaðmagrind, brot í kjálka og augntóft, brot á dálkbeini og ökla hægri fótar og yfirborðsáverka í andliti.“
Hann var ennfremur sakaður um að hafa ekki sinnt lögboðnum skyldum sínum með því að koma hinum slösuðu til hjálpar heldur ók hann burtu af vettvangi.
Þrátt fyrir þessa ófyrirleitnu framkomu fékk hinn ákærði vægan dóm. Spilar þar inn í að hann játaði sekt sína og sýndi iðrun.
Var hann dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 80 þúsund króna sektar í ríkissjóð. Einnig þarf hann að greiða rúmlega 1,1 milljón í sakarkostnað.
Dóminn má lesa hér.