fbpx
Miðvikudagur 18.desember 2024
Fréttir

Nágrannadeilur í Laugardal – Sakaði nágrannann um að reisa hættulega girðingu

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 18. desember 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Talsverðar deilur hafa geisað milli eigenda tveggja húsa í Laugardal vegna girðingar á lóðamörkum húsanna. Fullyrða eigendur annars hússins, sem höfðu frumkvæði að því að girðingin var reist, að það hafi verið gert í góðri sátt og raunar að hluta til í sameiningu en síðan hafi nágrannanum snúist hugur og þá hafi allt farið í háa loft. Fullyrti ósátti nágranninn meðal annars að hættu stafaði af girðingunni. Kom málið inn á borð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem staðfesti þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að leggja ekki dagsektir á þá eigendur  sem stóðu upphaflega fyrir því að girðingin yrði reist.

Í febrúar á þessu ári sendi byggingarfulltrúi borgarinnar bréf til eigendanna sem áttu frumkvæðið að girðingunni þar sem þeim var gert að leggja fram umsókn um byggingarleyfi og skriflegt samþykki nágranna síns. Var í bréfinu hótað dagsektum yrði kröfum byggingarfulltrúans ekki sinnt. Var því svarað hálfum mánuði síðar með því að gerð yrði lokatilraun til að semja við ósátta nágrannann. Myndi það ekki nást yrði girðingin færð eða fjarlægð. Slíkt samkomulag barst hins vegar aldrei og í apríl var veittur 14 daga frestur til að fjarlægja girðinguna annars yrðu lagðar á dagsektir, 25.000 krónur fyrir hvern dag sem það myndi dragast.

Þessi ákvörðun var kærð til nefndarinnar sem staðfesti ákvörðun byggingarfulltrúans um að girðingin skyldi fjarlægð en vísaði frá ákvörðuninni um dagsektir þar sem talið var að lokaákvörðun um þær hefði ekki legið fyrir.

Snerist hugur

Í september síðastliðnum var eigendunum sem höfðu frumkvæði að girðingunni hins vegar tilkynnt að byggingarfulltrúinn fengi ekki séð að hin umdeilda girðing ylli hættu eða væri skaðleg heilsu nágranna og af því leiddi að öryggis- eða almannahagsmunum væri ekki raskað. Þar af leiðandi myndi embættið ekki beita sér fyrir því að girðingin yrði fjarlægð, með beitingu þvingunarúrræða.

Við þetta sætti hinn ósátti nágranni sig ekki við og kærði ákvörðunina. Vísaði hann einkum til þess að í ákvörðun byggingarfulltrúa hefði skort allan rökstuðning. Sagði hann ákvörðun um að fjarlægja girðinguna haldlausa án þvingunarúrræða og að hann hafi átt væntingar til þess að fyrri ákvörðun um beitingu dagsekta yrði ekki breytt eftir geðþótta án haldbærra raka.

Reykjavíkurborg vildi meina að kærandinn ætti ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu. Ákvörðun um beitingu dagsekta hafi í raun aldrei verið afturkölluð þar sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi komist að þeirri niðurstöðu að lokaákvörðun um það hafi aldrei verið tekin. Fyrir liggi ákvörðun um að girðingin skuli fjarlægð og það hafi ekkert breyst.

Borgin sagði að samkvæmt lögum sé ákvörðun byggingarfulltrúa um beitingu þvingunarúrræða háð mati hans hverju sinni. Ákvörðun um að beita ekki dagsektum sé vel ígrunduð og hafi meðal annars byggt á heimsóknum starfsmanna byggingarfulltrúa á vettvang en niðurstaða þeirra hafi verið sú að fullyrðingar nágrannans ósátta um að eld- og útleiðnihættu stafaði frá girðingunni stæðust ekki skoðun.

Samvinnan sem súrnaði

Eigendurnir sem stóðu upphaflega fyrir því að reisa girðinguna sögðu í sínum andsvörum fyrir nefndinni að girðingin hefði staðið í um það bil 4 ár, hafi verið reist í góðu samkomulagi og að hluta til í samstarfi eigenda lóðanna. Aldrei hafi verið óskað stöðvunar framkvæmda á meðan unnið hafi verið að því að reisa girðinguna. Þegar girðingin hafi staðið í rúm 2 ár hafi verið reynt að afla skriflegs samþykkis en kærandinn hafi þá dregið lappirnar og svo afturkallað munnlegt samþykki sitt með skilaboðum í júní 2023 án nokkurra skýringa.

Ítrekuðu eigendurnir að nágranni þeirra hefði fullyrt ranglega að girðingin væri ógn við öryggi. Reynt hafi verið margsinnis að ná sáttum en hann hafi sýnt algjört sinnuleysi gagnvart því. Nágranninn eigi ekki lögvarinn rétt til að knýja byggingarfulltrúann til að beita þvingunarúrræðum. Eigendurnir höfnuðu því enn fremur að hafa heitið því að fjarlægja girðinguna en yfirlýsing þeirra um það hafi verið háð því að samkomulag næðist við nágrannann um skiptingu kostnaðar en hann hafi vísað öllum sáttaumleitununum þeirra á bug.

Þurfi ekki að þvinga

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er vísað til ákvæða laga um mannvirki um að byggingarfulltrúa sé heimilt en ekki skylt að beita þvingunarúrræðum. Það verði því ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunar­­úrræða vegna einstaklingshagsmuna enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína.

Ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur um að leggja ekki á dagsektir hafi verið studd þeim rökum að girðingin ógni ekki öryggis- og almannahagsmunum. Undir það tekur nefndin og staðfestir ákvörðun byggingarfulltrúans um að leggja ekki á dagsektir vegna girðingarinnar umdeildu.

Ljóst er því að eigendurnir sem höfðu frumkvæði að því að girðingin var reist þurfa ekki að greiða dagsektir. Eftir stendur þó ákvörðun byggingarfulltrúa um að girðingin skuli fjarlægð en hvenær má vænta þess að það verði gert kemur ekki fram í þessum úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Pútín niðurlægður

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Gengur laus eftir kynferðisbrot gegn barni á jólanótt

Gengur laus eftir kynferðisbrot gegn barni á jólanótt
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Ógnarástand á heimili: Misþyrmdi 13 ára dóttur sinni og pakkaði fötum hennar í poka

Ógnarástand á heimili: Misþyrmdi 13 ára dóttur sinni og pakkaði fötum hennar í poka
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Dæmdur til dauða: „Þú verður alltaf heigull“

Dæmdur til dauða: „Þú verður alltaf heigull“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Pútín niðurlægður

Pútín niðurlægður
Fréttir
Í gær

Félaginu Genesis Mining á Íslandi slitið – Um tíma ein stærsta rafmyntanáma heims

Félaginu Genesis Mining á Íslandi slitið – Um tíma ein stærsta rafmyntanáma heims
Fréttir
Í gær

Davíð segir það tóma þvælu að kennarar séu í fríi fjóra mánuði á ári

Davíð segir það tóma þvælu að kennarar séu í fríi fjóra mánuði á ári