Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og þekktur álitsgjafi um alþjóðamál, fer yfir stöðu Evrópu og breytta heimsmynd í aðsendri grein á Vísir.is í dag.
Hilmar bendir á að á ófriðartímum setji ríki öryggishagsmuni framar viðskiptahagsmunum. Evrópa sé hins vegar í veikri stöðu hvað varðar efnahagsmál og öryggismál. Hagvöxtur sé mun meiri í Kína og Bandaríkjunum en í Evrópu.
Hilmar fer yfir möguleg átakasvæði í Evrópu og bendir á að Íslendingar virðist hafa minni áhyggjur af öryggismálum en nágrannaþjóðirnar:
„Mín tilfinning er að Íslendingar hafi mun minni áhyggjur að öryggismálum en maður verður var við á hinum Norðurlöndunum, að ekki sé talað um Eystrasaltsríkin. Staða Íslands er líka betri en margra annarra Evrópuríka vegna fjarlægðar við flest líkleg átakasvæði. Samt getur dregið til tíðinda á norðurslóðum hvenær sem er.
Þau NATO ríki sem eru næst Rússlandi eins og Eystrasaltsríkin, Finnland og Pólland eru líkleg að auka sín útgjöld til varnarmála mest. Sögulega séð hefur Ísland aldrei átt í átökum við Rússland eða Sovétríkin eins og mörg lönd á meginlangi Evrópu. Ísland er stofnaðili að NATO frá 1949 og með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin síðan 1951. Samskipti Íslands við Bandaríkin hafa verið góð allan tímann þó ólíkar skoðanir hafi verið um framkvæmd varnarsamningsins t.d. hvort á Íslandi eigi að vera fastur flugher eins og áður var.“
Hilmar segir mikilvægt að efla Landhelgisgæsluna, enda sé hún það sem komist næst því að vera her á Íslandi. Auk þess sé óæskilegt að Landhelgisgæslan heyri undir annað ráðuneyti en það sem fer með varnarmál:
„Landhelgisgæslan kemur næst því að geta talist eitthvað í líkingu við Íslenskan her og sérsveit ríkislögreglustjóra er einnig mikilvæg. Landhelgisgæslan hefur verið fjársvelt og lykilinnviðir eins og sæstrengir til Íslands eru illa varðir fyrir vikið. Utanríkisráðuneytið fer með varnarmál fyrir Ísland en bæði Landhelgisgæslan og sérsveit ríkislögreglustjóra heyra undir dómsmálaráðuneytið. Þetta er ákveðinn galli í stjórnskipulagi Íslands ef vinna á markvisst að því að efla varnir landsins.
Best væri að það ráðuneyti sem fer með varnarmál fari líka með málefni Landhelgisgæslunnar og að hún verði efld til muna, líka til geta gengt auknu hlutverki á ófriðartímum. Þetta hlýtur að vera meðal umræðuefna í núverandi stjórnarmyndunarviðræðum. Ísland hefur líka beina hagsmuni að auka eftirlit og öryggi á Norður Atlandshafi og verja landhelgina sem var færð út í áföngum í 200 mílur, barátta sem stóð 74 ár (frá 1901 til 1975). Öflugri Landhelgisgæsla væri líka mikilvægt framlag til NATO sem þarf að styrkja stöðu sína á norðurslóðum.“
Hilmar segir að framundan sé harðnandi viðskiptastríð milli stórveldanna Bandaríkjanna, Kína og Rússlands. Núverandi heimsskipan sé í uppnámi og hann vonar að ný heimskipan taki á sig mynd án heimstyrjaldar.
Grein Hilmars má lesa hér.