Manchester United mun funda með umboðsmanni Joshua Zirkzee á næstunni um framtíð leikmannsins. Þetta herma fréttir á Ítalíu og er hann orðaður við endurkomu þangað.
Zirkzee hefur lítið getað frá því hann fór til United frá Bologna í sumar á 36,5 milljónir punda. Þá hefur hann aðeins byrjað einn leik undir stjórn nýja stjórans, Ruben Amorim og er Rasmus Hojlund framar í goggunarröðinni.
Ítalski miðillinn Tuttosport segir að Zirkzee gæti farið frá United strax í janúar og hefur Juventus áhuga. Þar er einmitt Thiago Motta við stjórnvölinn, en hann náði því besta úr hollenska sóknarmanninum er þeir unnu saman hjá Bologna.
Það á eftir að koma í ljós hvað kemur út úr fundi Amorim, United og umboðsmanns Zirkzee en svo gæti farið að United ætli að sækja annan sóknarmann í janúar og þá eru dagar Zirkzee á Old Trafford líklega senn taldir.