433.is greindi fyrst frá málinu í dag, en rætt var við Davíð Þór Viðarsson, yfirmann knattspyrnumála hjá FH, í kvöldfréttum RÚV í kvöld.
„Fjárhagsstaðan hefur náttúrulega verði erfið í ljósi þess að fjármagnskostnaður hefur verið að sliga félagið í lengri tíma,“ sagði Davíð þar.
Hafnarfjarðarbær fékk Deloitte til að skoða bókhald aðalstjórnar FH vegna kostnaðar við byggingu á Skessunni og misræmis í ársreikningum félagsins. Tengist það viðræðum um kaup bæjarins á knatthúsinu.
Meira
Hafnarfjarðarbær sendir langt erindi til FH og krefst svara – „Þessi ákvörðun er tekin án samþykkis“
Viðar Halldórsson, formaður aðalstjórnar FH, fékk til að mynda 61 milljón króna fyrir að stýra byggingarframkvæmdum á Skessunni, sem ekki var gert ráð fyrir í samkomulagi við bæinn. Þá hefur félag í eigu bróður hans, Jóns Rúnars Halldórssonar, Best Hýs, fengið nærri 400 milljónir króna greiddar frá FH undanfarin ár. Samkvæmt ársreikningum þess félags námu tekjurnar þó aðeins 99 milljónum króna á árunum 2018-2022.
„Ég skil alveg að það vakni spurningar. Við reynum að útskýra það eins vel og við getum og svo er það mat fólks að dæma um það. En í mínum bókum hafa þessir tveir menn unnið ótrúlegt starf fyrir þetta félag undanfarna áratugi. Það er ekkert sem mun breyta því,“ sagði Davíð í kvöld.
„Þetta er auðvitað erfið umræða. Það er aldrei gaman að vera í skotlínunni. Umræðan eins og hún hefur birst í dag, okkur finnst kannski ansi harkalega að okkur vegið.“
Valdimar Víðisson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar og verðandi bæjarstjóri, ræddi einnig við RÚV.
„Það var eitt og annað í skýrslunni sem við töldum mikilvægt að fá frekari svör við áður en við gengum til samninga við félagið. Það fengust einhver svör en við erum áfram í samtali við félagið, svo það er ekki allt komið til skila,“ sagði hann.
Valdimar kveðst þá skilja ólgu á meðal bæjarbúa. „Hér er verið að tala um meðhöndlun opinberra fjármuna. Við höfum fullan skilning á að það vekji upp reiði og ólgu“