Framsóknarflokkurinn fékk sinn skerf af því afhroði sem fráfarandi ríkisstjórn galt í alþingiskosningunum þann 30. nóvember sl. Framsókn slapp þó betur úr vistinni hjá Sjálfstæðisflokknum en félagar þeirra í Vinstri grænum sem þurrkuðust út af þingi og hafa jafnvel kvatt íslensk stjórnmál endanlega. Framsókn náði einungis 7,8 prósent fylgi og missti 9,5 prósentustig frá prýðilegri kosningu fyrir þremur árum. Hér er um að ræða verstu niðurstöðu sem Framsóknarflokkurinn hefur fengið í rúmlega hundrað ára sögu sinni. Flokkurinn hefur nú einungis 5 þingmenn í stað 13 eftir kosningarnar árið 2021. Einungis 16.578 kjósendur af rúmlega 215 þúsund völdu flokkinn að þessu sinni. Það sem verra er; flokkurinn missti þrjá af fjórum sitjandi ráðherrum fyrir borð. Einmitt yngra fólkið sem hafði burði til að taka við formennsku í flokknum.
Orðið á götunni er að Framsókn sé flokkur sem hafi burði til að rétta úr kútnum. Flokkurinn hefur áður upplifað sveiflur. Ekki er lengra síðan er árið 2013 að fjórðungur kjósenda valdi Framsókn og flokkurinn myndaði þá ríkisstjórn undir forsæti þáverandi formanns, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Á sama tíma og Vinstri græn fengu rauða spjaldið, og eru þar með úr leik, má orða það þannig að Framsókn hafi fengið gula spjaldið. Það þýðir viðvörun sem verður að taka alvarlega. Tími Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns flokksins, er greinilega liðinn. Sigurður hefur átt ágætan feril á löngum köflum en hann virtist þreyttur, daufur, lúinn og búinn í kosningabaráttunni. Það vantaði neistann.
Orðið á götunni er að megin vandi Framsóknarflokksins á þeim tímamótum sem hann virðist standa á núna sé sá að yngra fólkið í forystunni féll af þingi. Ráðherrarnir Ásmundur Einar Daðason, Lilja Alfreðsdóttir og Willum Þór Þórsson féllu öll af þingi. Trúlega er það einsdæmi að þrír ráðherrar úr sama flokki nái ekki endurkjöri í alþingiskosningum. En það gerðist núna hjá Framsókn. Sigurður Ingi Jóhannsson náði inn sem jöfnunarþingmaður í kjördæmi sínu þegar allra síðustu tölur úr kosningunum voru birtar í hádeginu, sunnudaginn 1. desember. Hætt er við því að Ásmundur, Lilja og Willum snúi sér að öðru en stjórnmálum enda eru þau öll á góðum aldri og hæf, hvert á sínu sviði.
Vandi flokksins fram undan er mjög mikill. Hann mun nú sitja valdalaus í stjórnarandstöðu með fátæklegan fimm manna þingflokk. Fjárhagur flokksins er ekki beysinn. Eftir þessi úrslit mun ríkissjóður einungis leggja flokknum til 50 milljónir króna á ári í stað 115 milljóna á síðasta kjörtímabili. Það munar um minna en 65 milljónir króna á ári í peningabasli stjórnmálaflokka.
Orðið á götunni er að innan úr Framsóknarflokknum ómi þær raddir að endurreisnarstarf flokksins geti ekki hafist að ráði fyrr en núverandi formaður víkur. Það gæti gerst ef flokkurinn heldur landsfund á komandi ári. Sigurður Ingi hefur hafnað fréttum um að hann sé á leið í vænlegt starf erlendis og vísað fullyrðingum um slíkt á bug sem fyrr. En er það svo víst?
Orðið á götunni er að á þessari stundu beinist athyglin einkum að tveimur hugsanlegum formannsefnum sem eiga það sammerkt að hafa nýlega gengið í Framsóknarflokkinn. Annars vega er um að ræða Höllu Hrund Logadóttur, nú þingmann flokksins í Suðurkjördæmi, og Einar Þorsteinsson borgarstjóra. Einar var ungur sjálfstæðismaður í Kópavogi en færði sig til Reykjavíkur, leiddi lista Framsóknar í síðustu borgarstjórnarkosningum og er nú borgarstjóri.
Nýlega kynnti Einar þær góðu fréttir að borgin verði rekin með tekjuafgangi á þessu ári og væntanlega vaxandi tekjuafgangi næstu árin. Það er meira en unnt er að segja um fjármálastjórn Sjálfstæðisflokksins á ríkissjóði hin síðari ár þar sem fjárlagahallinn er viðvarandi og skelfilega mikill. Vandi Einars er sá að hann þarf að fást við erfið mál vegna þeirra íbúa sem sætta sig ekki við þéttingu byggðar, ef hún er nærri þeim sjálfum, og önnur erfið úrlausnardæmi. En borgarstjóri verður að hafa burði til að takast á við slík mál. Það tókst Degi B. Eggertssyni og víst er að hann hélt Sjálfstæðisflokknum frá völdum í Reykjavík í 14 ár. Geri aðrir betur.
Halla Hrund Logadóttir er óskrifað blað í stjórnmálum. Sigurður Ingi Jóhannsson vék sæti í Suðurkjördæmi til að fá hana í framboð og tók þá áhættu að falla sjálfur af þingi. Hann „skreið“ samt inn. Orðið á götunni er að Halla Hrund sé svo sem ekki meiri framsóknarmaður en gengur og gerist. Hún mun hafa sýnt bæði Samfylkingu og Viðreisn áhuga fyrir kosningarnar en hvorugur flokkanna vildi bjóða henni vænleg þingsæti á listum sínum. Úr varð að hún gekk í Framsókn og lýsti yfir miklum heilindum við flokkinn.
Orðið á götunni er að óráðið sé hvort Halla Hrund, Einar Þorsteinsson eða einhver annar tekur við formennsku í Framsókn. Flestir telja hins vegar að endurreisn flokksins geti ekki hafist fyrr en formaðurinn Sigurður Ingi víkur sæti og leggur land undir fót. Hvort hann horfir þá til útlanda eins og haldið hefur verið fram eða kemur sér bara notalega fyrir í sveitinni skal ósagt látið.