fbpx
Miðvikudagur 12.mars 2025
433Sport

Hafnarfjarðarbær sendir langt erindi til FH og krefst svara – „Þessi ákvörðun er tekin án samþykkis“

Helgi Fannar Sigurðsson
Þriðjudaginn 17. desember 2024 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hafnarfjarðarbær sendi nýverið erindi til FH, þar sem óskað er eftir svörum við 18 spurningaliðum er tengjast fjármálum félagsins og byggingu knatthússins Skessunnar. 433.is hefur erindið undir höndum.

Erindið er stílað á FH, knattspyrnudeild FH, aðalstjórn FH, Viðar Halldórsson formann aðalstjórnar og Best Hús ehf. Óskar Hafnarfjarðarbær til að mynda eftir svörum vegna leiðréttingar sem gerðar voru á ársreikningum FH aftur í tímann fyrir árin 2019 til 2022.

Þá setur bærinn spurningamerki við greiðslur til Viðars upp á rúmar 60 milljónir króna sem hann fékk fyrir „stjórnun byggingarframkvæmda,“ en ekki var gert ráð fyrir stjórnunarkostnaði í upphaflegri áætlun vegna bygginarinnar.

Einnig áætlaði FH 8 milljónir króna sem áttu að fara í laun byggingarstjóra, en ekki er að sjá í bókhaldinu að hann hafi fengið greitt.

Segir bærinn þá að byggingarkostnaðaráætlun við Skessuna hafi upphaflega verið 790 milljónir en raunkostnaður hafi farið vel yfir 1,1 milljarð. Ákvörðun hafi verið tekin um að viðbyggingu vegna búningsklefa og fleira árið 2018 og því ljóst að kostnaðurinn yrði töluvert meiri en áætlað var. Hafnarfjarðbær kveðst í erindi sínu ekki hafa veitt samþykki fyrir þessari áætlun.

Þá er minnst á það að Best Hús, í eigu Jóns Rúnars Halldórssonar, bróður Viðars, hafi samkvæmt samningum átt að fá um 314 milljónir króna frá FH vegna byggingarinnar, en burðarvirki Skessunnar var flutt inn í gegnum Best Hús og er það stærsti einstaki þjónustuaðilinn við framkvæmd hennar.

„Um 350 m.kr. eru eignfærðar á Skessuna tengdar félaginu. Þessu til viðbótar eru rúmar 43 m. kr. færðar til skuldar við eignfærðar á Skessuna tengdar félaginu. Þessu til viðbótar eru rúmar 43. m. kr. færðar til skuldar við Best Hús á móti til lækkunar á skuld við KFH. Samkvæmt því hefur Best Hús fengið um 393 m.kr. greiddar frá FH. Samkvæmt ársreikningum Best Húsa fyrir árin 2018 til 2022 námu tekjur félagsins um 99 m. kr., sem er töluvert lægra en þær greiðslur sem félagið fékk frá FH,“ segir meðal annars um málið í erindi Hafnarfjarðarbæjar.

Bærinn óskar einnig eftir upplýsingum frá FH um lán sem tekið var frá Viðari sjálfum, svo eitthvað sé nefnt.

Erindi Hafnarfjarðarbæjar í heild:

1. Eftir að Deloitte hóf skoðun á bókhaldi aðalstjórnar FH kom m.a. í ljós mismunur milli bókhaldslykla sem tilheyrðu byggingarkostnaði Skessunnar og upplýsinga í ársreikningi FH. Eftir að Deloitte óskaði eftir upplýsingum um þennan mismun voru gerðar leiðréttingar/lokafærslur í bókhaldinu í tvö skipti, 27. júní og 8. júlí, en þesar færslur eru gerðar inn á fyrri ár, þ.e. árin 2019, 2020, 2021 og 2022.

  • Hver er ástæða þess að leiðréttingar/lokafærslur eru gerðar svona mörg ár aftur í tímann?
  • Var aðalstjórn upplýst um þessar leiðréttingar sem voru gerðar með afturvirkum hætti?
  • Voru leiðréttir ársreikningar fyrri ára samþykktir sérstaklega eða kynntir í aðalstjórn eftir leiðréttingu.

2. Hluti bókfærðs byggingarkostnaðar, sem gera má ráð fyrir að sé a.m.k. um 120-130 m. kr., er áætlaðir styrkir, afslættir og gjafir í formi vinnu eða efnis, færst til skuldar við KFH, en þar hefur Deloitte greint tæpar 128 m. kr.

  • Hvað eru hreinir og beinir afslættir eða gjafir og hvað er „vara á móti vöru“ s.s. eins og auglýsing á knattspyrnuvellinum eða eitthvað annað.
  • Á hvaða grundvelli/heimild voru umræddar færslur gerðar?
  • Samþykkti aðalstjórn umræddar færslur?

3. Ekki var gert ráð fyrir stjórnunarkostnaði í upphaflegri áætlun, sem endaði í um 73,5 m. kr. Formaður aðalstjórnar, Viðar Halldórsson, fékk greiddar kr. 61.350.000 – fyrir „stjórnun byggingarframkvæmda.“ Ekki var gert ráð fyrir umræddum greiðslum í áætlun eða í samkomulagi við sveitarfélagið.

  • Samþykkti aðalstjórn umræddar greiðslur til Viðars?
  • Ef svo er, þá er óskað eftir fundargerð þess fundar sem umræddar greiðslur voru samþykktar ásamt samningi aðalstjórnar við Viðar um þessar greiðslur.
  • Ef aðalstjórn samþykkti umræddar greiðslur á hvaða grundvelli/heimild var það samþykkt?
  • Eru umræddar greiðslur enn greiddar?
  • Óskað er eftir afriti af öllum samningum sem aðalstjórn eða framkvæmdastjóri hefur gert við Viðar vegna byggingar Skessunnar.

4. Hluti af bókfærðum stjórnunarkostnaði eru 8 m.kr sem eru færðar til skuldar við KFH en skv. upplýsingum frá FH er um að ræða áætluð laun byggingarstjóra. Ekki er sjáanlegt í bókhaldinu að skráður byggingarstjóri, Bjarni Bjarnason, hafi fengið greidd laun.

  • Samþykkti aðalstjórn að umræddur kostnaður yrði færður til skuldar við KFH?
  • Ef svo er þá er óskað eftir fundargerð þess fundar sem það var samþykkt.
  • Einnig er óskað eftir samkomulagi við Bjarna Bjarnason um byggingarstjórn á verkinu.

5. Á árinu 2023 nam byggingarkostnaður alls um 131 m.kr., 83 m. kr. vegna Skessunnar og 48 m. kr. vegna viðbyggingarinnar. Stærstur hluti bókfærðs kostnaðar vegna Skessunnar, eða um 80 m. kr., eru áætlaðir styrkir, afslættir og gjafir í formi vinnu eða efnis en fjárhæðin er öll færð til skuldar við KFH.

  • Samþykkti aðalstjórn umrædda tilhögun?
  • Ef svo er, þá er óskað eftir fundargerð þess fundar sem umrædd tilhögun var samþykkt.
  • Ef aðalstjórn samþykkti umræddar greiðslur á hvaða grundvelli/heimild var það samþykkt?
  • Einnig er óskað eftir afriti af samningum/reikningum/kvittunum vegna umræddra færslna.

6. Samkvæmt upplýsingum frá FH var kostnaður sem tlheyrir framkvæmdinni byrjaður að falla til árið 2015 vegna viðbyggingarinnar í september 2019. Framkvæmdir hófust formlega eftir samning FH við HFJ 13. ágúst 2018. Fyrir þann tíma hafði verið eignfærður byggingarkostnaður á Skessuna, samtals a.m.k.  um 33, 2 m. kr.

  • Lá fyrir samþykki aðalstjórnar fyrir því að stofnað yrði til ofangreinds kostnaðar?
  • Ef svo er, þá er óskað eftir fundargerð þess fundar sem umrædd tilhögun var samþykkt.
  • Hvernig ætlaði FH að fara með þann kostnað hefði bærinn ákveðið að láta byggja knatthúsið skv. alútboðinu?

7. Upphafleg byggingarkostnaðaráætlun sem miðað er við nam 790 m. kr. en raunkostnaður er um 1.132. Eftir að framkvæmd var formlega hafin í ágúst 2018, var tekin ákvörðun um viðbyggingu vegna búningsklefa og fleira sem hófst í september 2019. Þá hefði mátt vera ljóst að byggingarkostnaður myndi fara í a.m.k 1000 m. kr. Þessi ákvörðun er tekin án samþykkis HFJ.

  • Á hvað grundvelli tók FH ofangreinda ákvörðun?
  • Samþykkti aðalstjórn að skuldbinda FH vegna viðbyggingar?
  • Ef svo er, þá er óskað eftir fundargerð þess fundar sem umrædd tilhögun var samþykkt.

8. Hluti af bókfærðum kostnaði vegna jarðvinnu eru um 15. m. kr. sem eru færðar til skuldar við KFH en skv. upplýsingum frá FH er um að ræða áætlaðan styrk, afslátt og gjafir frá Fjarðargrjóti.

  • Samþykkti aðalstjórn umrædda tilhögun?
  • Ef svo er, þá er óskað eftir fundargerð þess fundar sem umrædd tilhögun var samþykkt.
  • Ef aðalstjórn samþykkti umræddar greiðslur á hvaða grundvelli/heimild var það samþykkt?
  • Einnig er óskað eftir samningum/reikningum/kvittunum vegna umræddra færslna við Fjarðargrjót.

9. Hluti af bókfærðum kostnaði vegna burðarvirkis eru 45 m. kr. sem eru færðar til skuldar við KFH en skv. upplýsingum frá FH er um að ræða áætlaðan styrk, afslátt og gjafir frá Best Hús um 35 m. kr., Byggingarfélaginu Hamri um 7 m. kr. og Byko og Húsasmiðjunni um 3. m. kr.

  • Samþykkti aðalstjórn umrædda tilhögun?
  • Ef svo er, þá er óskað eftir fundargerð þess fundar sem umrædd tilhögun var samþykkt.
  • Ef aðalstjórn samþykkti umræddar greiðslur á hvaða grundvelli/heimild var það samþykkt?
  • Einnig er óskað eftir samningum/reikningum/kvittunum vegna umræddra færslna við ofangreinda aðila.
  • Var einhver „vara“ frá KFH afhent á móti umræddum færslum?

10. Hluti af bókfærðum kostnaði vegna rafkerfis og lýsingar er 12. m. kr. kostnaður sem er færður til skuldar við KFH en skv. upplýsingum frá FH er um að ræða áætlaðan styrk, afslátt og gjafir frá Rafmagns- og byggingarmiðstöðinni (RBM)

  • Samþykkti aðalstjórn umrædda tilhögun?
  • Ef svo er, þá er óskað eftir fundargerð þess fundar sem umrædd tilhögun var samþykkt.
  • Ef aðalstjórn samþykkti umræddar greiðslur á hvaða grundvelli/heimild var það samþykkt?
  • Einnig er óskað eftir samningum/reikningum/kvittunum vegna umræddra færslna við ofangreinda aðila.
  • Var „vara“ frá KFH afhent á móti umræddri færslu?

11. Á bls. 28 í skýrslu eru tvær töflur hægra megin annars vegar „Aðrar eignarfærslur, færðar til skuldar við KFH“ og hins vegar „Fært af/á FH knatthús og til skuldar við KFH“.

  • Óskað er eftir skýringum á þeim færslum sem þarna eru tilgreindar ásamt þeim gögnum sem liggja til grundvallar hverri færslu.
  • Voru umræddar færslur gerðar með samþykki aðalstjórnar?

12. Stærsti hluti bókfærðst kostnaðar á árinu 2023 vegna Skessunnar, eða 80 m.kr., eru áætlaðir styrkir, afslættir og gjafir í formi vinnu eða efnis en fjárhæðin er öll færð til skuldar við knattsyrnudeild FH. Skv. töflu á bls. 28 í skýrslunni má sjá þessa færslu en þar er hún merkt Best Hús Skv. ársreikningi Bet Hús fyrir árið 2023 er umrædd upphæð ekki tilgreind.

  • Óskað er eftir nákvæmum skýringum á umræddri færslu.
  • Er umrædd færsla gerð með samþykki aðalstjórnar?

13. Best Hús er í eigu Jóns Rúnars Halldórssonar, formanns KFH til 2019 og bróður formanns aðalstjórnar. Burðarvirki Skessunnar o. fl. var flutt inn í gegnum Best Hús, skv. samningi milli þess félags og aðalstjórnar FH. Samkvæmt samningum átti Best Hús að fá rúmar 314. m.kr. greiddar frá FH. Best Hús er stærsti einstaki þjónustuaðilinn við framkævmd Skessunnar en um 350 m.kr. eru eignfærðar á Skessuna tengdar félaginu. Þessu til viðbótar eru rúmar 43 m. kr. færðar til skuldar við eignfærðar á Skessuna tengdar félaginu. Þessu til viðbótar eru rúmar 43. m. kr. færðar til skuldar við Best Hús á móti til lækkunar á skuld við KFH. Samkvæmt því hefur Best Hús fengið um 393 m.kr. greiddar frá FH. Samkvæmt ársreikningum Best Húsa fyrir árin 2018 til 2022 námu tekjur félagsins um 99 m. kr., sem er töluvert lægra en þær greiðslur sem félagið fékk frá FH.

  • Óskað er eftir afriti af samningi FH við Best Hús.
  • Var samningur við Best Hús samþykktur í aðalstjórn?
  • Ef svo er, þár er óskað eftir fundargerð þess fundar sem umrædd tilhögun var samþykkt.
  • Óskað er eftir skýringum á því hvernig standi á því að tekjur Best Húsa séu svona miklu lægri en greiðslur til þeirra skv. bókhaldi FH.
  • Óskað er eftir afritum sem sýna hvert þessar greiðslur voru greiddar.

14. Stærstur hluti skulda við lánadrottna árið 2024 er við Best Hús um 42,1 m.kr., knattspyrnudeild FH um 25, 2 m.kr., Steypustöðina-námur um 24,5 m.kr. og Viðar um 9,7 m.kr. Skuldin við Best Hús kom til í árslok 2023 með mótbókun á knattspyrnudeild FH.

  • Óskað er eftir skýringum á því af hverju skuldin við Best Hús kemru ekki inn í bókhald FH fyrr en á árinu 2023.

15. Aðalstjórn greiddi í reiðufé um 251 m.kr. til KFH á árunum 2018 2023. Flestar greiðslur eru millifærslur í heilum tölum, þúsundum eða milljónum króna, en ekki er hægt að sjá út frá bókhaldinu hvað er nákvæmlega verið að greiða, þ.e. tiltekna reikninga eða slíkt.

  • Óskað er eftir nákvæmum skýringum á hverri færslu.
  • Voru umræddar færslur gerðar með samþykki aðalstjórnar?
  • Ef svo er, þár er óskað eftir fundargerð þess fundar sem umrædd tilhögun var samþykkt.

16. Nokkrar stærri færslur FH á KFH, um 78,6 m.kr., eru færðar sem greiðslur og þannig til lækkunar á skuld við KFH. Þessar færslur eru færðar til skuldar við Best Hús, Salta ehf., Jón Rúnar Halldórsson og Viðar. Félögin Best Hús og Salti ehf. eru bæði í eigu Jóns Rúnars.

  • Óskað er eftir nákvæmum skýringum á ofangreindum færslum.
  • Voru umræddar færslur gerðar með samþykki aðalstjórnar?
  • Ef svo er, þár er óskað eftir fundargerð þess fundar sem umrædd tilhögun var samþykkt.

17. Skuld FH við Viðar

  • Óskað er eftir gögnum/skjölum sem staðfesta umrædda skuld og grundvöll hennar.
  • Hefur aðalstjórn samþykkt að taka lán frá Viðari?
  • Ef svo er, þá er óskað eftir fundargerð þess fundar sem umrædd tilhögun var samþykkt.

18. Hlutverk og ábyrgð aðalstjórnar

  • Hefur aðalstjórn tryggt að gerð séu ársfjórðungsuppgjöf aðalstjórnar og allra deilda innan mánaðar frá lokum hvers ársfjórðungs, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga félagsins?
  • Hefur aðalstjórn gert og yfirfarið rekstraráætlun stjórnar og deilda í desmeber ár hvert frá 2018-2023, sbr. 4. mgr. 11. gr. laga féalgsins?
  • Óskað er eftir fundargerðum til að staðfesta svör við lið a og b.
  • Hefur aðalstjórn samþykkt lántökur FH frá 2018 til og með 15. nóvember 2024? Ef svo er hvaða lántökur hafa verið samþykktar?
  • Hefur aðalstjórn lagt mat á stöðu FH út frá 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991? Ef svo er þá er óskað eftir fundargerð frá fundi aðalstjórnar þar sem það var rætt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Greint frá andláti og dánarorsök opinberuð – Móðirin segir frá hinstu orðum drengsins

Greint frá andláti og dánarorsök opinberuð – Móðirin segir frá hinstu orðum drengsins
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Verður þetta nían sem Arsenal sækir?

Verður þetta nían sem Arsenal sækir?
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Hollenskur miðvörður sagður á óskalista Arne Slot

Hollenskur miðvörður sagður á óskalista Arne Slot
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Landsliðið tapaði gegn Spáni

Landsliðið tapaði gegn Spáni
433Sport
Í gær

Rúrik Gísla vann sér inn rúmar 15 milljónir á þremur klukkutímum – „Geðveikt að mæta í viðtal og tala bara um peninga“

Rúrik Gísla vann sér inn rúmar 15 milljónir á þremur klukkutímum – „Geðveikt að mæta í viðtal og tala bara um peninga“
433Sport
Í gær

United borgar 89 milljónir punda í sumar fyrir leikmenn sem eru hjá félaginu – Ratcliffe tekur Sancho sem dæmi

United borgar 89 milljónir punda í sumar fyrir leikmenn sem eru hjá félaginu – Ratcliffe tekur Sancho sem dæmi