Sagan geymir nokkur athyglisverð dæmi um slík tilfelli, þar sem einstaklingar voru afmáðir af spjöldum sögunnar ef svo má segja.
Nýlegasta dæmið er sennilega frá Norður-Kóreu þegar Jang Song-thaek, frændi Kim Jong Un, einræðisherra landsins, var tekinn af lífi í desember 2013. Jang var náinn ráðgjafi frænda síns en eftir að það kastaðist í kekki á milli þeirra var öllum upplýsingum um Jang eytt og hann afmáður af myndum sem teknar höfðu verið.
Sagan geymir fleiri dæmi eins og sést hér að neðan og vefritið Business Insider tók saman.
Yezhov hlaut viðurnefnið „herstjórinn sem hvarf“ hjá sagnfræðingum en hann var yfirmaður sovésku leynilögreglunnar. Yezhov, sem þótti tryggur stalínisti í eina tíð, var tekinn af lífi árið 1940 þegar Jósef Stalín skar upp herör gegn opinberum starfsmönnum sem álitnir voru óvinir ríkisins. Á vinstri myndinni hér að ofan sést Yezhov á vinstri hönd Stalíns en á myndinni til hægri er hann horfinn.
Goebbels var einn nánasti samstarfsmaður Adolfs Hitlers á tímum þriðja ríkisins en hann gegndi sem kunnugt er starfi áróðursmálaráðherra. Goebbels var einn af fáum einstaklingum í innsta hring Hitlers og sá hann til dæmis um að brenna lík Hitlers eftir að hann svipti sig lífi. Hann var þó fjarlægður af myndinni hér að ofan sem tekin var á heimili kvikmyndagerðarkonunnar Leni Riefenstahl árið 1937. Ekki er vitað hvers vegna hann var fjarlægður af myndinni.
Bolsévíkinn og byltingarmaðurinn Lev Trotskíj var áhrifamikill stjórnmálamaður á fyrstu árum Sovétríkjanna. Hann og Vladimír Lenín voru samverkamenn í byltingunni sem leiddi til stofnunar Sovétríkjanna en stundum höfðu þeir mismunandi skoðanir og stefnu eins og gengur. Á meðfylgjandi mynd sést Trotskíj sitja við hlið Leníns yfir ræðu sem hann hélt. Á myndinni til hægri er hann hins vegar týndur og tröllum gefinn. Talið er að Jósef Stalín hafi látið fjarlægja myndina af Trotskíj eftir að hann tók við sem leiðtogi Sovétríkjanna.
Qin Bangxian, betur þekktur sem Bo Gu, var hátt settur í kínverska kommúnistaflokknum og náinn bandamaður Maó Zedong formanns flokksins til rúmlega 30 ára. Bo Gu var settur af sem ritari flokksins árið 1935 eftir harðvítugar deilur innan flokksins. Eins og meðfylgjandi mynd ber með sér virðast deilurnar hafa rist djúpt því hann var fjarlægður af myndinni hér að ofan. Bo Gu lést í flugslysi árið 1946, 38 ára að aldri.
Nelyubov var þekktur sovéskur geimfari og að sögn einhverra í hópi þeirra allra fyrstu til að komast út í geiminn. Aðrir segja þó að hann hafi aldrei farið út í geim. Hvað sem því líður var Nelyubov rekinn úr sovésku geimferðaráætluninni fyrir drykkjuskap og óreglu. Varð það til þess að upplýsingum um hann var eytt, þar á meðal myndum. Nelyubov lést árið 1966, 31 árs að aldri, eftir að hann varð fyrir járnbrautarlest skammt frá Vladivostok.