fbpx
Þriðjudagur 17.desember 2024
Fréttir

Kerfið ráðalaust vegna skapofsakasta unglings – „Við höfum þurft að læsa herbergjunum til að vera viss um að lifa af nóttina“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 16. desember 2024 21:05

Stuðlar. Mynd: Pjetur Sigurðsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Faðir 16 ára drengs sem tekur yfirþyrmandi skapofsaköst segist upplifa vonleysi vegna ráðaleysis velferðarkerfisins gagnvart vanda sonar hans. Segir hann að lengi vel hafi ekki verið tekið mark á áhyggjum hans og móður drengsins en þau telja að eitthvað miklu meira ami að drengum en ADHD, sem hann hefur verið greindur með. Faðirinn telur að betri sjúkdómsgreining á syninum gæti leitt til markvissari lyfjagjafar og snúið ástandinu til betri vegar.

„Eina greiningin sem hann hefur fengið er ADHD og grunur m málþroskaskerðingu,“ segir faðirinn í viðtali við DV.

„Það hefur mikið gengið á undanfarin ár. Hann hefur umturnað herberginu sínu hérna heima, brotið og bramlað allt í því. Það er enginn aðdragandi að þessum köstum, þetta kemur bara eins og þruma úr heiðskýru lofti. Við erum ekki að tala um einhver eitt, tvö skipti, heldur níu skipti eða fleiri, þar sem við höfum orðið að hringja í lögregluna eftir aðstoð. Eins og við upplifum kerfið þá finnst okkur við bara hafa ekkert. Við höfum grátbeðið um aðstoð en upplifum ítrekað að það er ekki tekið mark á okkur.“

Faðirinn segir þó að vissulega hafi eitt og annað verið reynt til að laga ástandið. „Nýjasta úrræðið var hjá Heilindum en þau gáfust upp fyrir stuttu,“ segir hann.

Heilindi er úrræði fyrir einstaklinga með ákominn heilaskaða, hegðunarvanda og ungmenni með fjölþættan vanda.

„Við höfum ekkert nema gott um Heilindi að segja, þar sem þau gerðu sitt allra besta til að aðstoða hann en voru farin að hafa áhyggjur af öryggi starfsfólks síns. Þetta er ekki öryggisbúseta og hann er í raun með of mikinn vanda til að þau geti tekið við honum. Þau leigðu íbúð undir drenginn og þarna var starfsfólk allan sólarhringinn. Ég veit að þetta hefur kostað bæjarfélagið mikið og ég hef líka fengið að heyra það að þetta sé dýrt. Á þessum vettvangi hefur hann gengið berserksgang trekk í trekk, hann hefur brotið hurðar og húsgögn, hent steinum í bíl, brotið spegil á bíl og kveikt í inni í íbúðinni. Forstöðukonan hefur sent okkur vikulega tölvupóst um hvað sé í gangi, stundum hefur þetta verið í lagi en svo koma stormarnir og þeir geta verið rosalegir. Núna síðast gekk hann í skrokk á starfsmanni sem varð til þess að þau gáfust bara upp.“

Telur að rétt greining gæti skipt sköpum

Sem stendur er drengurinn vistaður á Stuðlum en það er einungis tímabundið úrræði. Þess skal getið að drengurinn á ekki við fíknivanda að stríða heldur eingöngu hegðunarvanda.

„Það sem við sitjum uppi með núna er að það á að leigja íbúð undir hann, sem barnavernd ætlar að borga, en ég á síðan að manna þar vaktir á móti barnavernd, ég eiginlega skil þetta ekki,“ segir hinn örvæntingarfulli faðir.

Hann telur meginvandann liggja í því að sonur hans sé ekki rétt sjúkdómsgreindur. „Ég tel að hann sé vangreindur og hann sé með einhver geðræn vandamáli sem enginn vill greina, það er alltaf verið að bíða eftir því að barnið verði tvítugt, okkur er tjáð að ekki séu gefnar greiningar á geðvandamálum fyrir þann aldur. Það snýst um að það megi ekki setja stimpil á barn í þessari stöðu. Það er það sem ég hef fengið að heyra. En þessi stimpill gæti hugsanlega hjálpað honum mikið,“  segir maðurinn og telur að forsenda þess að drengurinn fái viðeigandi lyf sem laga ástand hans sé að hann fái rétta sjúkdómsgreiningu.

Skelfileg áhrif á yngra systkini

„Ég er búinn að standa í þessu í mörg ár og mér finnst enginn hlusta. Það veldur því að við förum inn í vonleysi. Í gegnum öll þessi ár hefur ekki verið tekið mark á áhyggjum okkar af því að hann sé með eitthvað annað og meira en bara ADHD.“

Maðurinn segir að vandi drengsins í þeirri mynd sem hann er núna hafi byrjað um það leyti sem hann hóf nám í 8. bekk í grunnskóla. Hann hafi þó áður sýnt varhugaverð hegðunareinkenni, t.d. tilhneigingu til að bíta. En taumlaus ofsaköst hafi ekki byrjað fyrr en á unglingsaldri.

„Ég á tvö önnur börn, þriggja og fimm ára. Dóttir mín, sem er fimm ára, hefur upplifað hans ástand mjög hart, hún hefur verið mjög hrædd, hún er myrkfælin og  á tímabili þorði hún ekki að fara ein á klósettið. Þetta ástand hefur skapað mikinn kvíða fyrir okkur öll. Við höfum þurft að læsa herbergjunum til að vera viss um að lifa af nóttina, svo skelfilegt hefur ástandið verið.“

Ósátt við afstöðu barnaverndar

Maðurinn er óánægður með afstöðu barnaverndar í Suðurnesjabæ til málsins. „Þau horfa öðruvísi á þetta en við og á rosalega skrýtinn hátt. Lengi vel hefur þetta verið stimplað sem bara ADHD, við höfum nefnt að okkur gruni að hann sé með geðræn vandamál en það hefur ekki verið tekið mark á þeim áhyggjum.  Við höfum verið með sama barnaverndarfulltrúa í nokkur ár sem við erum ekki ánægð með og hefur ekki sinnt hans málum vel. Þegar við höfum beðið um að fá nýjan fulltrúa þá er okkur sagt að það sé ekki í boði. Hún hefur gert lítið úr áhyggjum okkar af honum. En þetta er eitthvað miklu meira en ADHD sem amar að honum,“ segir faðirinn sem biður um að sonur hans fái ítarlega og rétta sjúkdómsgreiningu. Þangað til það gerist eygir hann ekki von um að vandi sonar hans leysist.

„Þess má geta að hann hefur ekki verið skráður í neinn skóla síðan um miðjan 9. bekk. Hann var rekinn úr skóla í 9. bekk eftir að hann hótaði nemendum og starfsfólki með skærum og lögreglan þurfti að koma í skólann og ná í hann. Hann hefur ekki verið í skóla síðan það kom upp á. Hann ætti að vera í 10. bekk núna. Hann hefur síðastliðinn mánuð verið sóttur í búsetuúrræðið af lögreglu og verið þá vistaður bæði inni á Stuðlum og í fangagemslu því það hefur komið fyrir að ástandið á honum er svo slæmt að Stuðlar hafa ekki getað tekið við honum.“

„Hann er hættulegur sjálfum sér og öðrum og við erum hrædd um að það endi með að hann valdi alvarlegum skaða ef hann fær ekki viðeigandi aðstoð strax,“ segir faðirinn að lokum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Orri taldi 27 lundabúðir á Laugaveginum – Ríkið þurfi að innheimta meiri gjöld af ferðaþjónustunni

Orri taldi 27 lundabúðir á Laugaveginum – Ríkið þurfi að innheimta meiri gjöld af ferðaþjónustunni
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum
Sagt upp á jólunum
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Skiptar skoðanir á Bíladögum á Akureyri – Karlar mun jákvæðari en konur

Skiptar skoðanir á Bíladögum á Akureyri – Karlar mun jákvæðari en konur
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Fékk vægan dóm fyrir að misþyrma leigubílstjóra

Fékk vægan dóm fyrir að misþyrma leigubílstjóra
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Snorri segir ýmislegt benda til þess að samstarfið geti súrnað hratt

Snorri segir ýmislegt benda til þess að samstarfið geti súrnað hratt
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

„Nú virðast formennirnir vera að setja upp leikrit“

„Nú virðast formennirnir vera að setja upp leikrit“