Í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi vestra er varað við nýrri hrinu fjársvika sem einstaklingar sem tali íslensku beri ábyrgð á. Marg sinnis hefur verið varað á undanförnm við alls kyns tilraunum til fjársvika í gegnum netið og síma. Slíkir svikahrappar hafa yfirleitt ekki getað talað neina íslensku en það virðist hafa breyst.
Í tilkynningunni segir að undanfarið hafi embættinu borist mál til rannsóknar sem mörg hver séu keimlík, þar sem umtalsverðum fjárhæðum sé stolið frá grunlausum einstaklingum sem telja sig eiga í viðskiptum í góðri trú.
Brotin virðist fara þannig fram að hringt sé úr íslensku símanúmeri í viðkomandi. Sá sem hringi tali jafnan íslensku og segi að viðkomandi eigi inn umtalsverða upphæð, jafnvel einhverjar milljónir, t.d. í hlutabréfum, skuldabréfum eða rafmynt (e. bitcoin) sem þurfi að leysa út.
Til þess að leysa út peninginn sé iðulega óskað eftir staðfestingu með rafrænum skilríkjum.
Stundum sé sagt að tiltekið kort virki ekki og þá viðkomandi spurður um annað kort, og svo annað, og koll af kolli þar til þjófarnir sé búnir að ná yfirráðum yfir öllum kortum viðkomandi með rafrænum skilríkjum.
Dæmi séu um að tjón vegna þessa hlaupi á miljónum.
Í tilkynningunni segir að gæta skuli varúðar ef eitthvað af eftirtöldu á við:
Þú fær endurtekin óumbeðin símtöl.
Þér er lofað skjótum ágóða og fullvissu um að fjárfestingin sé örugg.
Tilboð gildir eingöngu í takmarkaðan tíma.
Tilboð stendur einungis þér til boða og beðið er um að það sé ekki rætt við aðra.
Í tilkynningunni er að lokum bent á hvernig best sé að bregðast við fái maður símtöl af þessu tagi:
Fáðu alltaf ráðgjöf frá óháðum aðila áður en þú lætur peninga af hendi eða fjárfestir.
Skelltu á óumbeðin símtöl tengdum fjárfestingatækifærum, lokaðu á númerið og ef hægt er þá er gott að merkja númerið sem „false.“
Fyllstu grunsemdum þegar lofað er öruggri fjárfestingu, tryggðri ávöxtun og miklum gróða.
Ef þú hefur þegar fjárfest í svikum er líklegt að svikarar munu reyna að herja á þig aftur eða selja öðrum brotamönnum upplýsingar um þig.
Hafðu samband við lögreglu ef grunur er um svik í síma 112. Miklu máli skiptir að bregðast fljótt við ef reyna á að stöðva færslur. Hægt er að læsa flestum kortum í heimabanka og þá eru bankarnir líka með sérstaka svikavakt og neyðarnúmer utan opnunartíma bankanna.