fbpx
Mánudagur 16.desember 2024
Fréttir

Sagt upp á jólunum

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 16. desember 2024 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Matreiðslumaður hafði betur gegn fyrrum vinnuveitanda sínum fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Stefndi maðurinn vinnuveitandanum vegna vangoldinna launa í uppsagnarfresti. Maðurinn sagðist hafa fengið uppsagnarbréf á jóladag á síðasta ári. Vinnuveitandinn neitaði því og sagði uppsögnina hafa átt sér stað þremur vikum fyrr en héraðsdómur tók undir með manninum um að honum hefði verið sagt upp á jólunum og dæmdi honum í vil.

Málavöxtum er lýst ítarlega í dómnum. Maðurinn hóf, að hans sögn, störf hjá vinnuveitanda sínum, en búið er að afmá nöfn málsaðila úr dómnum, í nóvember 2022 en vinnuveitandinn sagði hann hafa byrjað í desember 2022. Aldrei var gerður skriflegur ráðningarsamningur þeirra á milli.

Maðurinn sagðist hafa 10 ára reynslu sem matreiðslumaður áður en hann hóf störf og hafi frá upphafi lagt sig allan fram í starfi. Þann 30. nóvember 2023 hafi hann verið kallaður á aukavakt en við lok hennar hafi hann óskað eftir að ræða við yfirmann þar sem hann hefði ekki fengið neinn launaseðil. Þá hafi yfirmaðurinn hins vegar sagt við hann að komið gæti til þess að segja yrði honum upp störfum. Hins vegar hafi á þeim tímapunkti ekki neitt uppsagnarbréf verið afhent honum og hann ekki séð neitt slíkt. Hann hafi því haldið áfram að mæta til vinnu í desember.

Vond jólagjöf

Maðurinn sagði að á jóladag 2023 hafi honum borist uppsagnarbréf í tölvupósti sem dagsett hafi verið 30. nóvember 2023. Bréfið hafi borist honum í bréfpósti síðar. Uppgefin ástæða uppsagnarinnar hafi verið skipulagsbreytingar. Hann hafi strax tekið eftir því að dagsetning bréfsins og afhendingardagur hafi ekki passað saman.

Maðurinn sagðist næst hafa átt að vera á vakt 27. desember og hann hafi þá mætt reiðubúinn til að vinna út kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest. Hann hafi þá verið sendur heim og sagt að starfskrafta hans væri ekki lengur óskað. Hann hafi ekki fengið nein laun greidd eftir þetta tímamark.

Fyrrum vinnuveitandi mannsins andmælti því að hann hefði lagt sig allan fram í starfi. Maðurinn hafi átt það til að vera tímunum saman í síma sínum á vinnutíma. Einnig andmælti hann því að 30. nóvember 2023 hafi maðurinn komið því á framfæri að hann hefði ekki fengið launaseðil. Honum hafi þennan dag hins vegar verið tjáð að hann væri ekki að standa sig nógu vel í starfi og verið afhent skriflegt uppsagnarbréf. Maðurinn hafi þá verið beðinn um að undirrita bréfið en hann hafi neitað að gera það. Hann hafi farið inn í eldhús með uppsagnarbréfið og tjáð þremur samstarfsmönnum að honum hefði verið sagt upp. Hann hafi síðan strunsað út með óundirritað uppsagnarbréfið í höndunum.

Maðurinn hafi unnið út desember enda hafi uppsagnarfrestur verið einn mánuður þar sem maðurinn hafi þá verið skemur en eitt ár í starfi. Hann hafi ítrekað verið beðinn um að skila uppsagnarbréfinu undirrituðu sem hann hafi sagst ætla að gera en skyndilega hafi hann ekkert kannast við neina uppsögn. Þá hafi komið í ljós að hann væri að reyna að vinna sér inn tveggja mánaða uppsagnarfrest, samkvæmt ákvæðum kjarasamnings, í janúar og febrúar 2024 og þá hafi verið gripið til þess ráð að senda manninum tölvupóst og ábyrgðarbréf sem hafi borist honum á jóladag 2023.

Tveir mánuðir

Maðurinn höfðaði málið eftir að fyrrum vinnuveitandi hans hafnaði því að greiða honum laun fyrir janúar og febrúar 2024. Krafðist maðurinn einnig uppgjörs á orlofsgreiðslum.

Alls krafðist maðurinn 1,4 milljóna króna auk dráttarvaxta.

Fyrrum vinnuveitandi hans stóð fast við að manninum hefði verið sagt upp í nóvember 2023 og á þeim tímapunkti aðeins átt rétt á eins mánaðar uppsagnarfresti sem hann hafi unnið í desember og fengið greidd laun fyrir. Vísaði vinnuveitandinn einnig til þess að til væru skjáskot af netsamskiptum þar sem maðurinn hefði tjáð öðrum fyrrverandi starfsmanni að honum hefði verið sagt upp en þessi samskipti hafi farið fram í byrjun desember 2023.

Ekki full sönnun

Í niðurstöðuhluta dómsins segir að einn mannana þriggja sem vinnuveitandinn fullyrti að maðurinn hefði tjáð, 30. nóvember 2023, að honum hefði verið sagt upp og verið með uppsagnarbréfið þá í höndunum hafi komið fyrir dóminn. Hafi vitnið sagt að maðurinn hefði sagt að reynt hefði verið að reka hann. Minntist vitnið þess ekki að maðurinn hefði verið með blað í höndunum. Þetta sé ekki fullnægjandi sönnun þess að honum hafi verið sagt upp.

Þegar kemur að netsamskiptunum sem vinnuveitandinn fyrrverandi vísaði til hefði komið þar fram að maðurinn hefði sagt að honum hafi verið tjáð að það væri vilji til þess að segja honum upp. Það væri heldur ekki fullnægjandi sönnun þess að honum hefði verið sagt upp fyrr en hann héldi fram. Orð hans væri ekki hægt að skilja þannig að þegar þessi samskipti fóru fram hafi verið búið að segja honum formlega upp störfum.

Er það niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness að fyrrum vinnuveitandi mannsins hafi ekki sýnt fram á að hafa sagt manninum upp störfum 30. nóvember 2023. Verði vinnuveitandinn að bera hallann af því að hafa ekki gengið frá uppsögninni með tryggilegum hætti fyrr en á jóladag 2023. Maðurinn hafi því átt rétt á tveggja mánaða uppsagnarfresti og greiða eigi honum laun og orlof fyrir janúar og febrúar 2024.

Vinnuveitandinn er því dæmdur til að greiða þessum fyrrum starfsmanni sínum vangoldin laun fyrir þessa tvo mánuði, 1,4 milljónir króna auk dráttarvaxta.

Eftir stendur sú niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness að matreiðslumanninum hafi sannarlega verið sagt upp á jólunum.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Björguðu augum félaga síns með snarræði

Björguðu augum félaga síns með snarræði
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Mummi með umdeilda færslu um IceGuys – „Fullorðnir menn að taka sexapílið á táningsstelpur….?“

Mummi með umdeilda færslu um IceGuys – „Fullorðnir menn að taka sexapílið á táningsstelpur….?“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Snorri segir ýmislegt benda til þess að samstarfið geti súrnað hratt

Snorri segir ýmislegt benda til þess að samstarfið geti súrnað hratt
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Svíar undirbúa sig undir stríð – Undirbúa hálfa milljón grafstæða

Svíar undirbúa sig undir stríð – Undirbúa hálfa milljón grafstæða
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ógnarstór kastali hefur risið í Póllandi og enginn veit hver eigandinn er

Ógnarstór kastali hefur risið í Póllandi og enginn veit hver eigandinn er
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Senur í Suður-Kóreu – Þingið ákvað að ákæra Yoon forseta

Senur í Suður-Kóreu – Þingið ákvað að ákæra Yoon forseta
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hvað er að gerast með flygildin sem sést hafa yfir Bandaríkjunum og Bretlandi – Yfirnáttúruleg fyrirbæri eða yfirvofandi árásir fjandmanna

Hvað er að gerast með flygildin sem sést hafa yfir Bandaríkjunum og Bretlandi – Yfirnáttúruleg fyrirbæri eða yfirvofandi árásir fjandmanna