„Finnst engum nema mér það galið að það er verið að selja pappastjörnur í glugga fyrir allt að 26 þúsund krónur,“ spurði ein kona. Hún segir ekki um hvaða skraut hún er að tala um en er líklegast að tala um pappastjörnu sem fæst í Dimm sem kostar 25.990 krónur. Stjarnan er frá skandinavíska merkinu Watt&Veke. Það þarf að kaupa peru og perustæði aukalega, sem kostar 3.980 krónur, þannig samtals er verðið á öllum pakkanum 29.970 krónur.
Svörin létu ekki á sér standa og hafa yfir hundrað athugasemdir verið ritaðar við færsluna.
Margir tóku undir með konunni um að þetta væri of dýrt fyrir pappaskraut.
„Jú, algjörlega galið og enn meira galið að það sé hægt að selja Íslendingum nánast að því er virðist hvað sem er á hvað sem er,“ sagði ein.
Einn sagði einfaldlega: „Fólk er fífl ef það kaupir það.“
Ein var ekki alveg að trúa verðlagningunni: „Hlýtur að vera misskilningur? Er það kr 2.600.- Eða er þessi póstur bara djók?“
Aðrir voru ekki alveg á sama máli og sögðu að enginn sé að neyða fólk til að kaupa þessar stjörnur.
„Frjáls verðlagning sem betur fer. Fólk hefur val og klárlega markaður fyrir þetta sem er frábært,“ sagði einn.
Nokkrir sögðu að um „merkjavöru“ væri að ræða og það væri hægt að finna ódýrari stjörnur annars staðar.
„Það er eins og fólk reyni að finna það dýrasta sem það getur til að fara í fýlu. Ef þig vantar til dæmis góðan hníf í eldhúsið þá kostar hann 3 þúsund sirka í Ikea. En maður getur líka keypt Zwiling á 20þús. Spurning um smekk og hvað þú átt í veskinu þínu.“
Önnur sagði: . „Jú… Þú getur fengið pappastjörnu í Ikea á tæpar tvö þúsund… En kannski ekki rétta merkið…“