Brúðkaupsmynd tekin í íshelli í Kötlujökli var nýlega valin besta brúðkaupsmynd ársins og ljósmyndarinn Bettina Vass hlaut fyrstu verðlaun sem besti alþjóðlegi brúðkaupsljósmyndarinn í International Wedding Photographer of the Year.
Vass er ungversk, sérhæfð í brúðkaupsljósmyndun og hefur verið búsett á Íslandi síðustu tólf ár. Fyrir myndina hlaut hún einnig verðlaun sem nýliði ársins (e. Emerging Artist of the Year) og fyrir staðsetningu myndatökunnar (e. Epic Location).
Vass deilir tíðindunum á Instagram og segist varla hafa trúað því þegar hún fékk tilkynningu um að hafa unnið aðalverðlaunin. Sagðist hún grátklökk yfir að myndin af Mauli og Christian hefði unnið.
Myndin fékk hæstu heildareinkunn frá dómurum af 2000 myndum sem sendar voru inn frá 65 löndum og meira en 450 ljósmyndurum.
Vass þakkaði teymi sínu fyrir, dómurum og styrktaraðilum, öðrum vinningshöfum.
„Orð fá ekki fyllilega lýst þakklætinu og undruninni sem ég finn fyrir. Sérstakar þakkir til Mauli og Christian, fyrir vináttu ykkar og fyrir að treysta mér fyrir sýn minni á brottfarardegi ykkar. Margrét Gauja, sem gaf þau saman og leiðsögumaður á Kötlujökli, þakka þér fyrir að gera þetta mögulegt. Mínar innilegustu þakkir til allra vina minna, samljósmyndara, fjölskyldu og eiginmanns míns, Baldur Tryggvason, sem eru mínir stærstu stuðningsmenn á öllum tímum. Ég er geðveikt stolt og enn í sjokki! Hjartans þakkir!“
View this post on Instagram
Fjölda mynda frá brúðkaupinu má sjá á vef Vass, en stoppað var við Seljalandsfoss þar sem Vass tók fjölda mynda af parinu, áður en haldið var á leiðarenda, og gengið á jökulinn þar sem parið var gefið saman á toppi hans.
Vass segir á vef verðlaunanna að hún hafi verið gengin tíu vikur á leið þegar myndatakan fór fram og því hafi fimm tíma bílferð á áfangastað ekki verið auðveld, hún hafi ælt alla leiðina og tilvonandi brúðurin líka.
„Ég var gengin 10 vikur, ég var mjög veik og með ógleði. Áhyggjur af næstum fimm tíma hringferð frá Reykjavík til Víkur, þar sem jökullinn er staðsettur, urðu minni þegar Mauli og Christian leyfðu mér að fara í bíl með sér,“ segir Vass, sem hafði meðferðis ælupoka og litla Ikea ruslatunnu sem ælufötu.
„Það endaði með því að ég ældi á hverju baðherbergi á bensínstöðvum milli Reykjavíkur og Víkur og meira að segja á bak við stóran jökuljeppa. Gangan með þungan bakpoka á jökulinn var erfið. Það var krefjandi að ná vinningsmyndinni þar sem ég hélt jafnvægi á ísnum, meðan ég barðist við linnulausa meðgönguógleði. Þegar ég hugsa um daginn, þrátt fyrir áskoranir hans, er hann ein af mínum bestu og skemmtilegustu minningum. Því miður lést barnið okkar nokkrum vikum síðar, en ég mun alltaf muna eftir þessum degi þegar ég horfi á myndina. Ég er innilega þakklát Margréti Gauju, yfirmanni þeirra og leiðsögumanni, fyrir skilning hennar og stuðning á meðan hún stjórnaði tveimur veikum konum í bílnum sínum.“
View this post on Instagram
Á heimasíðu sinni segir Vass söguna á bak við myndatökuna, sem var alls ekki auðveld þó útkoman sé stórfengleg.
„Ferð okkar á jökulinn var ekkert minna en töfrandi. Gangan á toppinn var krefjandi en spennandi og þar sem Mauli og Christian skiptust á heitum sínum á bakgrunni sólarlagsins var þetta augnablik hreinnar gleði og fegurðar.
Að stinga af og gifta sig á Íslandi er sannarlega ævintýraleg og ógleymanleg upplifun og að geta fangað þessar stundir fyrir pör eins og Mauli og Christian eru forréttindi sem mér mun alltaf þykja vænt um. Sambland af hrikalegu landslagi, ísköldum hellum og ævintýraanda gera Ísland að fullkomnum stað fyrir einstaka og nána brúðkaupsathöfn. Sem Íslandsljósmyndari og ævintýrabrúðkaupsljósmyndari er ég fús til að hjálpa fleiri pörum að upplifa töfra landsins.
Þannig að ef þig dreymir um brúðkaup sem er sannarlega óvenjulegt skaltu íhuga Ísland og að segja já á toppi jökuls. Þetta er ákvörðun sem þú munt ekki sjá eftir og minningarnar sem þú býrð til munu endast alla ævi.“