Kjerstin Cook, 46 ára eiginkona og móðir, lá á dánarbeðinu þegar hún ákvað að skrifa bréf til leynisveinka (e. Secret Santa) og biðja hann um gjöf fyrir eiginmann sinn, Dustin Cook. Bréfið var sent inn af vini hennar og nýlega var jólaóskin uppfyllt.
„Kjerstin Cook lést friðsamlega 11. febrúar 2024, eftir harða baráttu við ALS,“ sagði í minningargrein um hana fyrr á árinu. ALS eða Lou Gehrigs-sjúkdómur er annað nafn yfir blandaða hreyfitaugahrörnun (e. amylotrophic lateral sclerosis, ALS) sem er algengasta form hreyfitaugahrörnunar (e. motor neuron disease, MND).
Í bréfi sínu til jólasveinsins viðurkenndi Kjerstin að tímasetning bréfs hennar væri óvenjuleg, „en líklega verð ég ekki á lífi í desember, svo vonandi munuð þið taka beiðnina til greina. Árið 2020 fór ég að veikjast. Undanfarin tæp fjögur ár hefur heilsunni haldið áfram að hraka að því marki að ég þarfnast umönnunar allan sólarhringinn. Ég get ekki borðað venjulegan mat. Loksins eftir margra ára skoðanir hjá hverjum sérfræðingnum á fætur öðrum fékk ég loksins greiningu á ALS,“ skrifaði hún.
„Læknirinn gaf mér þrjá til sex mánuði eftir ólifaða og ég er á fjórða mánuði, svo litlar líkur eru á að ég lifi ein jól enn. Mig langar því að tilnefna eiginmann minn, Dustin Cook, vegna alls þess sem hann hefur gert fyrir mig undanfarin ár,“ sagði hún í bréfinu.
Kjerstin, sem gat ekki lengur talað sökum sjúkdómsins, skrifaði í bréfinu að áður en hún hefði veikst hefðu þau hjónin „sparað smá pening til að gera skemmtilega hluti fyrir okkur í bakgarðinum við húsið okkar. Beiðni mín til jólasveinsins er að Dustin hafi þægilegan stað í skugga til að lesa. Hann er mest gefandi og skilningsríkasta manneskja sem ég hef þekkt.“
Vinur hennar sem sendi inn bréfið bætti því við að bréf Kjerstin „kæmi því ekki nægilega til skila hversu mikla ást og þjónustu Dustin hefði sýnt eiginkonunni“ og að honum hafi einhvern veginn alltaf tekist að hughreysta hana, sérstaklega á síðustu mánuðum hennar.
Dustin, sem starfar sem lögreglumaður, fékk nýlega gjöfina frá eiginkonunni afhenta, landslags-og garðyrkjuþjónustu fyrir allt að 15 þúsund dali.
Dustin hafði ekki hugmynd um að eiginkona hans hefði sent inn jólaóskina og þegar hann fékk gjöfina afhenta brast hann í grát. „Hún var ótrúleg, frábær ótrúleg. Ég er ótrúlega þakklátur. Ég á engin orð til að lýsa neinu af þessu, nema Kjerstin, ég er lánsamur að hafa haft hana í lífi mínu í 30 ár.“
Í minningargrein var Kjerstin lýst sem einstakri móður sonanna þriggja, Dustin, Dylan og Dallas. „Hún hafði risastórt hjarta og snerti líf svo margra með því að hugsa um þá og elska. Kjerstin verður alltaf minnst fyrir fljótfærni sína, húmor, hugulsemi og hæfileika til að gefa gjafir.“