Talið er að Norður-Kóreumenn hafi sent allt að tíu þúsund hermenn til að aðstoða Rússa í stríðinu við Úkraínu og hafa margir þeirra sinnt verkefnum í Kúrsk-héraði sem Úkraínumenn lögðu að hluta undir sig síðsumars. Rússar hafa verið í gagnsókn undanfarnar vikur og hafa harðir bardagar geisað í héraðinu að undanförnu.
Úkraínska herleyniþjónustan sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem greint var frá mannfalli Norður-Kóreumanna um helgina. Áttu bardagarnir sér stað nærri þorpunum Plekhovo, Vorozhba og Martynovka.
Ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu stórt svæðið er í Kúrsk-héraði sem Úkraínumenn stjórna, en í lok nóvember sagði ónafngreindur úkraínskur herforingi við AFP að það væri um 800 ferkílómetrar.