Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins hafa átt í viðræðum frá því skömmu eftir kosningar um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Fyrir helgi var greint frá því að formennirnir myndu hittast um helgina og fara yfir þau ágreiningsmál sem upp hafa komið.
Það var hins vegar ekki gert og þess í stað fóru formennirnir hver í sínu lagi yfir vinnu vinnuhópa flokkanna sem þeir höfðu skilað af sér. Segir Þorgerður Katrín við Morgunblaðið í dag að þær komi saman til fundar fyrir hádegi í dag þar sem viðræðum verður haldið áfram.
Morgunblaðið hefur eftir Þorgerði Katrínu að ekki eigi eftir að ræða mörg ágreiningsmál en þó einhver. Kveðst hún vongóð um að það dragi til tíðinda í þessari viku og enn sé stefnt að því að hefja vinnu við nýjan stjórnarsáttmála í þessari viku.
„Miðað við hvernig þetta hefur gengið fram til þessa þá mun leysast úr mörgu á næstu dögum,“ segir hún við Morgunblaðið.