Hertogaynjan Meghan Markle hefur undanfarið fært út kvíarnar. Hún er farin af stað með nýtt lífsstílsmerki og tilkynnti fyrr á þessu ári að hún hefði fjárfest í tískumerkinu Cesta Collective sem framleiðir lúxusveski sem eru framleidd á siðferðislegan máta. Þegar hún tilkynnti um fjárfestinguna fór hún fögrum orðum um merkið sem hún sagði byggja á mannúð og gæsku. Framleiðslan færi fram í Rúanda og væri því atvinnuskapandi fyrir konur þar í landi sem margar búa við mikla fátækt.
Nú hefur þó komið á daginn að ekki fari mikið fyrir gæskunni við framleiðslu veskjanna. Konurnar í Rúanda fái greitt í klinki fyrir töskurnar sem seljast fyrir tugi þúsunda. Á meðan lifa eigendur fyrirtækisins í vellystingum.
Töskurnar eru seldar á rúmlega 128 þúsund krónur. Konurnar í Rúanda, sem búa töskurnar til, þurfa í mörgum tilvikum sjálfar að kaupa efniviðinn, borga flutningskostnað og leigja sína eigin vinnuaðstöðu. Dæmi séu um að konurnar fái bara borgað um 20 krónur fyrir hverja klukkustund sem þær vinna.
Ef töskur uppfylla gæðaviðmið eigenda fá konurnar ekki borgað fyrir þær. Ein saumakona, Illuminée Bayisabe, greinir frá því í samtali við DailyMail að hún fái um 450 krónur fyrir að sauma litla tösku sem tekur hana þrjá daga að klára. Þessi sama taska er svo seld í Bretlandi fyrir 137 þúsund krónur.
Önnur saumakona, Didacienne Musengimana, fær um 1700 krónur fyrir að sauma stærri tösku sem kallast Taco Tote. Sú taska er seld í Bretlandi á 158 þúsund.
Þær Erin Ryder og Courtney Weinblatt Fasciano stofnuðu tískumerkið saman. Þær eru búsettar í New York og birta gjarnan myndir af sér á samfélagsmiðlum þar sem þær njóta lífsins í botn í glæsilegum skíðaferðum og svo lúxusferðum til Rúanda þar sem þær fylgjast með starfseminni.
Þessi sláandi munur á lífsgæðum eigendanna og kvennanna sem sjá um vinnuna hefur vakið töluverða reiði. Sumir ganga svo langt að kalla starfsemi Cesta Collective fátæktarklám.
Cesta Collective stærði sig af því að borga konum í Rúanda 500-700 prósent hærri laun heldur en þær hefðu annars fengið. Þessi fullyrðing var fjarlægð af vefsíðu fyrirtækisins í ágúst eftir að Meghan Markle tilkynnti um fjárfestingu sína. Talsmaður Cesta Collective hefur komið fyrirtækinu til varna og segir að fréttaflutningur sé nú að grafa undan því góða starfi sem fyrirtækið hefur unnið í Rúanda.
Velta fyrirtækisins jókst mikið eftir að Markle gerðist fjárfestir, enda er hún stórstjarna sem hefur mikil áhrif.
Ein saumakona sagði í samtali við DailyMail að hún sé stolt af vinnu sinni en voni þó innst inni að dag einn muni launin endurspegla virði vinnu hennar.
Cesta Collective er nú harðlega gagnrýnt fyrir að markaðssetja sig sem siðferðislegt merki sem valdeflir konur. Í raun sé fyrirtækið að hagnast á fátækt kvenna.