Draugafaraldur gengur yfir England og einungis börn og unglingar geta kveðið draugana niður. Lockwood, Georg og Lísa vinna saman sem draugabanar og dag einn fá þau magnað verkefni. Tekst þeim að kveða niður svæsinn draugagang á sveitasetrinu Combe Carey og leysa um leið gamalt morðmál? Mjög spennandi og vel skrifaður tryllir sem tekur lesandann með sér í framandi heim. Fyrir lesendur frá 10 ára aldri.
Annan kafla bókarinnar má lesa hér fyrir neðan.
Þegar ráða á niðurlögum illra anda virka einföldu hlutirnir best. Silfraður oddur sverðsins sem leiftrar í myrkrinu; járnflísar dreifðar um gólfið; lokaðir hólkar af Grikkjaeldi, tilbúnir til notkunar sem neyðarúrræði … En tepokar, brúnir og ferskir og hellingur af þeim, framleiddir (smekksatriði) hjá Pitkin-bræðrunum í Bond- stræti eru ef til vill það einfaldasta og langbesta af öllu.
ÓKEI, tepokar bjarga kannski ekki mannslífum eins og sverðsoddur eða hringur járnflísa og þeir hafa ekki sama verndandi kraft og skyndilegur eldveggur. En þeir hafa annan eiginleika sem er allt eins mikilvægur. Þeir hjálpa til við að viðhalda geðheilsunni.
Það er aldrei sérlega þægilegt að sitja og bíða í myrkrinu í húsi þar sem reimt er. Nóttin þrengir sér upp að manni og þögnin pundar á eyrunum og ef maður fer ekki varlega fer maður fljótlega að sjá hluti eða heyra – allt ímyndunaraflinu að kenna. Með öðrum orðum, það er nauðsynlegt að hafa eitthvað til dægrastyttingar. Hvert og eitt okkar á Lockwood- skrifstofunni er með sitt uppáhald. Ég teikna svolítið, Georg les teiknimyndasögur, Lockwood les slúðurblöðin. En okkur þykir öllum gott að fá te og smákökur og þetta kvöld í húsi Hope- hjónanna var engin undantekning.
Eldhúsið var við enda anddyrisins, rétt handan við stigann. Þetta var mjög huggulegt eldhús, snyrtilegt og hvítt og nýtískulegt og þar var mun hlýrra en í anddyrinu. Þar voru engin merki um að eitthvað yfirnáttúrulegt gerðist í húsinu. Allt var kyrrt. Bankið sem ég hafði heyrt barst ekki þangað og þessi leiðinda skellur í stiganum endurtók sig ekki.
Ég setti upp ketilinn og Lockwood kveikti á olíulampa og setti á borðið. Í ljósinu frá honum tókum við af okkur sverðin og vinnubeltin og lögðum þau á borðið. Beltin okkar voru með sjö mismunandi klemmum og pokum og þögul fórum við skipulega yfir þau meðan ketillinn blés og másaði. Við höfðum þegar farið yfir búnaðinn á skrifstofunni en vorum alveg tilbúin í að gera það aftur. Stelpa frá Rotwell-draugabanafyrirtækinu lést í síðustu viku af því að hún hafði gleymt að bæta við magnesíumeldvörpum.
Fyrir utan gluggann var sólin horfin. Þunn ský kæfðu blásvartan himininn og þokuslæðingur lá yfir garðinum. Handan við svart limgerðið skinu ljós frá öðrum húsum. Þau voru nálæg en um leið fjarlæg, eins og skip sem mætast á úthafi.
Við settum beltin aftur á okkur og athuguðum franska rennilásinn sem hélt sverðunum föstum. Ég lagaði teið og setti krúsirnar á borðið. Lockwood fann til smákökur. Við sátum þarna saman og olíulampinn flökti og skuggarnir dönsuðu í öllum krókum og kimum eldhússins.
Loksins togaði Lockwood kragann á þykkum frakkanum hátt upp hálsinn. „Skoðum hvað frú Hope hefur að segja,“ sagði hann. Hann teygði langan, grannan handlegginn eftir möppunni sem lá á borðinu. Bjarmi frá ljósinu lék sér í hárlokknum sem féll fram á enni hans.
Meðan hann las skoðaði ég hitamæli sem var festur á beltið mitt. Fimmtán gráður. Ekki hlýtt, en ekkert óvenjulegt miðað við hús sem ekki er kynt á þessum tíma árs. Ég tók fram stílabókina mína úr öðrum vasa og skráði niður hitastigið og í hvaða herbergi það var tekið. Ég skráði líka niður það sem ég hafði orðið fyrir í anddyrinu.
Lockwood henti möppunni til hliðar. „Jæja, þetta hjálpaði aldeilis.“
„Í alvöru?“
„Nei. Þetta kallast írónía. Eða segir maður gráglettni? Ég man aldrei muninn.“
„Írónían er flóknari, þannig að þú varst líklega að segja þetta í gráglettni. Að hverju komst þú?“
„Algjörlega engu sem er nothæft. Hún hefði eins getað skrifað þetta á latínu, það hefði verið jafn gagnlegt. Ég tók þetta saman. Hope-hjónin höfðu búið hér í tvö ár. Fyrir þann tíma bjuggu þau einhvers staðar í Kent; hún talar mikið um hversu hamingjusöm þau voru, sem er málinu fullkomlega óviðkomandi. Svo segir hún að varla hafi verið um útgöngubann að ræða þar sem þau bjuggu í Kent, nánast aldrei hafi verið kveikt á draugalömpum og það hafi verið hægt að fara í kvöldgöngu seint að kvöldi og hitta nágrannana sem voru á lífi. Eitthvað svoleiðis. Ég trúi ekki einu orði; Kent varð einna verst fyrir barðinu á þessu, fyrir utan London, segir Georg.“
Ég fékk mér sopa af teinu. „Það var þar sem Vandamálið
byrjaði, hélt ég að minnsta kosti.“
„Það er sagt en, sem sagt, þau fluttu svo hingað. Allt í góðu lagi og ekkert að húsinu. Þau urðu ekki vör við neitt. Eiginmaðurinn skipti um vinnu og fór að vinna heiman frá sér. Þetta var fyrir sex mánuðum. Engin undarleg atvik áttu sér stað en svo féll hann niður stigann og dó.“
„Bíddu aðeins,“ sagði ég. „Hvernig datt hann?“
„Hrasaði, að því er virðist.“
„Ég meina, var hann einn?“
„Samkvæmt frú Hope var hann einn, já. Hún var uppi í rúmi. Þetta gerðist um nótt. Hún segir að eiginmaður hennar hafi verið hálfviðutan vikurnar áður en hann dó. Hafði ekki sofið vel. Hún heldur að hann hafi ætlað að fá sér vatnssopa.“
„Eeeinmitt …“ sagði ég full efasemda.
Lockwood leit snöggt á mig. „Ýtti hún honum kannski?“
„Ekki endilega en þá væri komin ástæða fyrir drauga- ganginum. Dauðir eiginmenn ásækja venjulega ekki eiginkonur sínar nema að góð ástæða sé til. Verst að hún vilji ekki hitta okkur. Ég hefði viljað meta hana sjálf.“
„Æ, það er ekki alltaf nóg að sjá manneskjuna,“ sagði Lockwood. Hann yppti grönnum öxlunum. „Hef ég sagt þér frá því þegar ég hitti hinn alræmda Harry Crisp? Hann var með fallegt andlit, blíða rödd og blik í auga. Hann var góður félagi og virtist heiðarlegur, hann lét mig meira að segja lána sér tíu pund. Seinna kom seinna í ljós að hann var hræðilegur morðingi sem vissi ekkert betra en að –“
Ég lyfti hendinni. „Eú varst búinn að segja mér þetta. Svona sirka milljón sinnum.“
„Ó. Ókei, en punkturinn er að herra Hope gæti verið að snúa til baka af svo mörgum öðrum ástæðum, sem hafa ekkert með hefnd að gera. Eitthvað sem hann telur sig eiga eftir að gera, til að mynda erfðaskrá sem hann átti eftir að segja konunni sinni frá eða peningafúlgu falinni undir rúminu …“
„Já, já. Byrjaði óróleikinn stuttu eftir að hann dó?“
„Viku eða hálfum mánuði seinna. Hún var eiginlega ekkert í húsinu þá. Þegar hún kom aftur heim fór hún að taka eftir óvelkominni nærveru.“ Lockwood sló létt á möppuna. „En hvað um það, hún lýsir því ekki hér. Hún segir að hún hafi lýst öllu í smáatriðum fyrir „móttökuritaranum“ okkar.“
Ég brosti. „Móttökuritaranum? Georg verður ekki hrifinn af því. Jæja, ég er með punktana frá honum, ef þig langar að heyra.“
„Já, láttu það koma.“ Lockwood hallaði sér aftur í stólnum og beið spenntur. „Hvað sagðist hún hafa séð?“
Punktarnir frá Georg voru í innri vasa jakkans. Ég tók þá upp og slétti úr þeim á hnénu á mér. Ég leit snöggt yfir þá og ræskti mig. „Ertu tilbúinn?“
„Já.“
„Vera á hreyfingu.“ Ég braut blaðið aftur saman með viðhöfn og setti til baka.
Lockwood deplaði augunum af reiði. „„Vera á hreyfingu“? Ekkert fleira? Engin nánari lýsing? Hættu nú alveg – var hún stór, lítil, dimm eða björt, hvað?“
„Þetta var tilvitnun: „Vera á hreyfingu sem birtist í innra herberginu og fylgdi mér út á stigapallinn.“ Orðrétt eins og hún sagði Georg það.“
Lockwood dýfði vesælli smáköku í tebollann. „Þetta telst með betri lýsingum. Segðu mér eitt, heldurðu að þú treystir þér til að teikna veruna upp?“
„Nei, en frú Hope er fullorðin – við hverju býstu? Lýsingin gæti aldrei verið góð. Tilfinningin sem hún fékk segir meira. Hún sagði að það hefði verið eins og veran væri að leita að henni, eins og hún vissi að hún væri þarna en gæti ekki fundið hana. Tilhugsunin um að veran myndi finna hana var yfirþyrmandi.“
„Nú,“ sagði Lockwood, „þetta er aðeins betra. Hún skynjaði tilgang. Sem segir okkur að þarna sé um tegund tvö að ræða. Hvað sem herra Hope heitinn er að bauka má segja að hann sé ekki sá eini sem er hér í kvöld. Við erum hérna líka. Hvað segirðu …? Eigum við að litast um?“
Ég kláraði úr bollanum og setti hann varlega á borðið. „Mér líst vel á það.“
Við tókum næstum heilan klukkutíma í að skoða okkur um á neðri hæðinni, við beindum ljósgeislunum frá vasaljósunum inn í hvert herbergi til að athuga hvað væri þar, en að öðru leyti unnum við í algjöru myrkri. Olíulampann skildum við eftir logandi í eldhúsinu, ásamt kertum, eldspýtum og auka vasaljósi. Það er góð regla að hafa vel upplýst svæði sem hægt er að leita í ef þörf krefur og margvíslegar tegundir ljósa eru ráðlegar, ef ske kynni að draugurinn hafi hæfileika til að trufla einhverjar þeirra. Allt var í lagi í búrinu og borðstofunni í hinum enda hússins. Loftið þar var þungt og drungalegt, eins og einhver hefði glatað lífi sínu þarna. Dagblöð í snyrtilegum stafla lágu á borðstofuborðinu og voru byrjuð að rúllast upp; í þögninni og myrkrinu í búrinu lá bakki á borði með uppþornuðum, spírandi laukum. En Lockwood sá engin merki um neitt og ég heyrði ekkert óvenjulegt. Daufa bankið sem ég hafði heyrt fyrst eftir að við komum inn í húsið virtist hafa dáið út.
Þegar við gengum aftur í gegnum anddyrið fór skyndilega hrollur um Lockwood og ég fann hárin rísa á handleggjunum. Loftið var orðið miklu kaldara núna. Ég athugaði hitamælinn: níu gráður.
Í framenda hússins voru tvær stofur, sitt hvoru megin við anddyrið. Í annarri var sjónvarp, sófi og tveir notalegir hægindastólar; hér var aðeins hlýrra, svipað hitastig og í eldhúsinu.
Samt svipuðumst við um og hlustuðum en urðum einskis vör. Á hinni hliðinni var borðstofa með tilheyrandi húsgögnum og skápum, sem var raðað upp fyrir framan stóran glugga með gluggatjöldum og þrjá gríðarstóra burkna í brúnum leirpottum.
Það virtist frekar svalt þarna inni. Sjálflýsandi skífan sagði tólf gráður. Kaldara en í eldhúsinu. Gæti svo sem ekki þýtt neitt sérstakt eða verið mjög mikilvægt. Ég lokaði augunum, stillti mig og gerði mig reiðubúna til að hlusta.
„Lísa, sjáðu!“ sagði rám rödd Lockwoods. „Þarna er herra Hope!“
Hjartað tók kipp. Ég sneri mér við með sverðið til hálfs á lofti … en sá bara Lockwood lotinn að skoða ljósmynd á hliðarborði. Hann beindi vasaljósinu að myndinni: hún var kringlótt, römmuð inn í gylltan ramma. „Frú Hope er hérna líka,“ bætti hann við.
„Hálfviti!“ hvæsti ég. „Ég hefði getað stungið þig á hol.“
Hann hló lágt. „Æ, vertu ekki svona fúl. Sjáðu bara. Hvað finnst þér?“
Myndin var af gráhærðu pari sem stóð úti í garði. Konan, frú Hope, var eldri og kátari útgáfa af dóttur sinni sem við höfðum hitt fyrir utan: kringlótt andlit, snyrtilegur klæðnaður, leiftrandi bros. Hún náði manni sínum upp að bringu. Hann var hávaxinn, hárið farið að þynnast, með ávalar axlir og frekar stórgerða framhandleggi og hendur. Hann brosti líka breitt. Þau héldust í hendur.
„Virðast vera bara nokkuð hress!“ sagði Lockwood.
Ég kinkaði kolli til samþykkis, full efasemda. „Það hlýtur samt að vera ástæða fyrir draugategund tvö. Georg segir að tegund tvö þýði alltaf að einhver hafi gert öðrum eitthvað.“
„Já, en Georg er svo illkvittinn og hryllilegur í sér. Sem minnir mig á: við ættum að finna símann og hringja í hann. Ég skildi eftir skilaboð til hans á borðinu en hann fer örugglega að verða áhyggjufullur þrátt fyrir það. Klárum könnunarferðina samt fyrst.“
Hann fann engan dauðabjarma í litlu borðstofunni og ég heyrði ekkert og þar með vorum við búin að afgreiða neðri hæðina. Sem sagði okkur nákvæmlega það sem okkur hafði grunað: það sem við vorum að leita að var á efri hæðinni.
Það var eins og við manninn mælt að um leið og ég steig á fyrsta þrepið byrjaði bankið að heyrast aftur. Í fyrstu var það ekki hærra en það hafði verið áður, þetta var lágvært og holt bank-bank-bank, eins og nögl væri bankað á múrhúð eða nagli negldur í við. Með hverju þrepi jókst bergmálið örlítið og varð áleitnara. Ég minntist á þetta við Lockwood, það fylgdi mér eins og formlaus skuggi.
„Það er líka að verða svalara,“ sagði hann.
Hann hafði rétt fyrir sér. Með hverju þrepi lækkaði hitastigið, frá níu gráðum niður í sjö og svo sex þegar komið var upp í miðjan stigann. Ég staldraði við, renndi upp jakkanum með fálmandi fingrum um leið og ég starði upp og inn í myrkrið. Stigagangurinn var þröngur og nákvæmlega engin lýsing fyrir ofan mig. Efri hluti þessa húss var eins og mökkur af skuggum. Ég fann fyrir sterkri löngun til að kveikja á vasaljósinu en stóðst freistinguna, þar sem það hefði bara gert mig enn blindari. Með aðra hönd á meðalkafla sverðsins hélt ég áfram upp stigann, bankið varð sífellt hærra og kuldinn beit mig í andlitið.
Upp fór ég. Hærra og hærra varð bankið. Nú var það orðið að hamstola krafsi og banki. Neðar og neðar fór nálin á hitamælinum. Frá sex gráðum niður í fimm og svo loks fjórar.
Myrkrið á ganginum myndaði formlaust rými. Til vinstri við mig var hvítt handrið stigans eins og röð af risastórum tönnum.
Ég komst upp í efstu tröppuna og steig út á stigapallinn– Og bankið snarhætti.
Ég athugaði aftur upplýstu skífuna. Fjórar gráður. Ellefu gráðum kaldara en í eldhúsinu. Ég fann hvernig andardráttur minn var eins og reykjarsúla í loftinu.
Við vorum mjög nálægt því.
Lockwood gekk fram hjá mér og kveikti á vasaljósinu eitt augnablik til að átta sig á aðstæðum. Veggfóðraðir veggir, lokaðar dyr, dauðaþögn. Útsaumsstykki í þungum ramma: upplitað, barnalegir stafir: Drottinn blessi heimilið. Saumað fyrir langalöngu, þegar heimili voru blessuð og örugg og enginn hengdi töfragripi úr járni yfir rúm barna sinna. Áður en Vandamálið hófst.
Stigapallurinn var L-laga og frá svæðinu þar sem við vorum tók við langur gangur á bak við okkur, samhliða stiganum. Gólfefnið var lakkaður viður. Frá stigapallinum voru fimm dyr: einar voru
okkur á hægri hönd, önnur beint fram undan og þrjár með reglulegu millibili eftir ganginum. Dyrnar voru allar lokaðar. Við Lockwood stóðum þarna þögul og notuðum augu okkar og eyru.
„Ekkert,“ sagði ég loks. „Um leið og ég kom upp á stigapallinn hætti bankið að heyrast.“
Lockwood tók sér smátíma áður en hann svaraði. „Enginn dauðabjarmi,“ sagði hann. Af þyngslunum í rödd hans að dæma vissi ég að hann fann líka fyrir doðanum – þessum undarlega slappleika og þyngslum í vöðvum sem leggst yfir mann þegar draugur nálgast. Hann andvarpaði lágt.
„Jæja, dömur fyrst. Lísa, veldu dyr.“
„Ekki ég. Ég valdi dyr þegar við vorum með málið í munaðarleysingjahælinu og þú veist hvað gerðist þá.“
„Það endaði allt ágætlega, fannst þér ekki?“
„Bara vegna þess að ég beygði mig hratt niður. Allt í lagi, ég skal velja dyr, en þú ferð inn á undan.“
Ég valdi næstu dyr, þessar til hægri. Í ljós kom að þær opnuðust inn í nýlega uppgert baðherbergi. Nýtísku flísar glitruðu ákaflega þegar ljósgeislanum úr vasaljósinu var beint að þeim. Þarna var stórt, hvítt baðkar, vaskur og klósett og væg lykt af jasmínsápu. Hvorugt okkar fann fyrir neinu sérstöku og hitastigið var það sama og á stigapallinum.
Lockwood prófaði næstu dyr. Bak við þær var stórt svefnherbergi í aftari hluta hússins, sem einhver hafði breytt í líklega þá sóðalegustu heimaskrifstofu sem fyrirfannst í allri London. Geislinn frá vasaljósinu lýsti upp stórt og þunglamalegt skrifborð við glugga sem dregið var fyrir. Borðið sást varla fyrir bunkum af skjölum og fleiri slíkir bunkar, sem voru við það að falla á hliðina, voru á víð og dreif um allt herbergið. Dökkir bókaskápar, afar illa skipulagðir, þöktu þrjá fjórðu af hinum veggnum. Við hlið skrifborðsins voru skápar og gamall leðurstóll og þung lykt lá yfir öllu. Ég fann lykt af rakspíra, viskíi og jafnvel tóbaki.
Kuldinn var farinn að bíta. Skífan í beltinu sýndi tvær gráður.
Ég tiplaði varlega í kringum skjalastaflana og dró frá glugganum. Drungalegt hvítt ljós frá húsunum handan við götuna flökti inn um gluggann á skrifstofunni.
Lockwood var að skoða eldgamla og snjáða mottu á viðargólfinu, hann ýtti henni til og frá með skótánni.
„Gömul för,“ sagði hann. „Það hefur verið rúm hérna áður en herra Hope tók við völdum …“ Hann yppti öxlum og litaðist um í herberginu. „Kannski kom hann til baka til að taka til á skrifstofunni.“
„Þetta er það,“ sagði ég. „Hér er orkulindin. Líttu á hitamælinn. Finnur þú ekki fyrir þyngslunum, ertu ekki næstum því dofinn?“
Lockwood kinkaði kolli. „Þar að auki er það hér sem frú Hope sá sína goðsagnakenndu „veru á hreyfingu“.“
Hurð var skellt hátt einhvers staðar á neðri hæðinni. Við hrukkum bæði við. „Ég held að þetta sé rétt hjá þér,“ sagði Lockwood. „Þetta er staðurinn. Við ættum útbúa hring hérna.“
„Úr járnflísum eða keðjum?“
„Járnflísum. Járnflísarnar ættu að duga.“
„Ertu viss? Klukkan er ekki einu sinni orðin níu og orkan er þegar orðin mjög sterk.“
„Ekki svo sterk. Og þar að auki, varla fer herra Hope allt í einu að verða meinfýsinn, sama hvað það er sem hann vill. Járnflísar ættu að duga.“ Hann hikaði. „Og svo …“
Ég leit á hann. „Og svo hvað?“
„Ég gleymdi keðjunum. Ekki horfa svona á mig. Eú gerir eitthvað undarlegt með augunum.“
„Gleymdirðu keðjunum? Lockwood–“
„Georg fór með þær út til þess að bera olíu á þær og ég athugaði ekki hvort hann hefði gengið frá þeim aftur. Þannig að þetta er allt Georg að kenna. En veistu, það skiptir engu máli. Við þurfum ekki á þeim að halda í svona verkefni, ertu ekki sammála? Leggðu járnflísarnar niður í hring, á meðan fer ég og geng úr skugga um að allt sé í lagi með hin herbergin. Svo einbeitum við okkur að þessu svæði.“
Mig langaði að segja ýmislegt fleira en nú var ekki rétti tíminn. Ég dró djúpt andann. „Allt í lagi, en ekki koma í þér vandræði,“ sagði ég. „Síðast þegar þú fórst einsamall á röltið meðan á verkefni stóð læstirðu þig inni á klósetti.“
„Það var draugur sem læsti mig inni, ég er alltaf að reyna að segja þér það.“
„Þú segir það en það var nákvæmlega ekkert sem studdi frásögn þína–“
Lockwood var þegar farinn.
Ég var ekki lengi að klára verkefnið. Ég dró nokkra bunka af rykugum og gulnuðum pappír upp að veggjunum til þess að búa til autt svæði í miðju herberginu. Svo dró ég mottuna til hliðar og dreifði járnflísunum í hring, frekar lítinn, til þess að spara járnið. Þetta yrði aðalskjólið okkar ef nauðsyn bæri, en við gætum þurft fleiri hringi, það færi eftir því hvað við fyndum.
Ég gekk fram á gang. „Ég ætla að stökkva niður og ná í meira járn.“
Rödd Lockwoods hljómaði frá nálægu herbergi. „Ókei.
Geturðu sett ketilinn yfir?“
„Já.“ Ég fór að stiganum og leit á opnar baðherbergisdyrnar. Þegar ég setti höndina á stigahandriðið fann ég að viðurinn var ískaldur viðkomu. Ég hikaði aðeins efst í stiganum og hlustaði ákaft, en gekk svo niður í átt að grófkorna birtunni í anddyrinu. Nokkrum þrepum neðar fannst mér ég heyra hvissandi hljóð bak við mig, en þegar ég sneri mér við sá ég ekkert. Með aðra höndina á meðalkaflanum á sverðinu hélt ég áfram niður stigann og gekk svo eftir ganginum í áttina að hlýjum bjarmanum sem skein út um hálflokaðar eldhúsdyrnar. Vegna myrkursins var ljósið frá olíulampanum í eldhúsinu nóg til þess að ég þurfti að píra augun þegar ég gekk inn. Ég nældi mér í eina smáköku, hreinsaði krúsirnar og setti ketilinn aftur yfir. Svo tók ég upp pokana tvo og með smá erfiðleikum notaði ég fótinn til að opna dyrnar að ganginum. Ég gekk fram í anddyrið sem virtist dimmara en nokkru sinni fyrr – allt vegna birtunnar í eldhúsinu. Algjör þögn ríkti í húsinu. Ég heyrði ekkert í Lockwood; líklega var hann að klára að skoða herbergin. Ég gekk rólega upp stigann, fór úr svölu hitastigi í kaldara og enn kaldara og hélt pokunum klaufalega í hvorri hendinni.
Ég kom upp á stigapallinn, setti pokana niður og dæsti. Þegar ég leit upp og ætlaði að kalla á Lockwood, sá ég stúlku.