fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið

Eyjan
Sunnudaginn 15. desember 2024 16:00

Frá Landsdómi

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í áramótaprédikun sinni 2012 gerði Karl Sigurbjörnsson biskup landsdómsmálið að umtalsefni. Hann lýsti því með einu orði: Þjóðarskömm! Það var vel viðeigandi og ég las í nýútkomnum endurminningum Geirs H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, að hann gerir einkunn biskups að lokaorðum umfjöllunar sinnar um þá eymdarlegu vegferð sem Alþingi réðst í með saksókninni.

Í endurminningunum kemur fram að Geir telji Steingrím J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, hafa verið pottinn og pönnuna í landsdómsmálinu frá upphafi ásamt með Atla Gíslasyni, öðrum þingmanni Vinstri grænna. Geir vísar meðal annars til erlendra blaðaviðtala við Steingrím þar sem hann hefði komist svo að orði að landsdómsmálið væri leiðin sem „Ísland“ hefði valið til að gera upp bankahrunið. Steingrímur beit svo höfuðið af skömminni með því að flytja skýrslu fyrir landsdómi og var eina vitnið af ríflega fjörutíu sem vitnaði gegn Geir. Andri Árnason, verjandi Geirs, lagði þar fyrir Steingrím gögn sem hröktu fullyrðingar hans um gjaldmiðlaskiptasamninga Seðlabankans. Við því hafði Steingrímur ekkert að segja. Vitnisburður hans fyrir landsdómi leiddi mönnum enn betur fyrir sjónir hversu fráleitur málatilbúnaðurinn var.

Öfgaöflum hafnað

Eftir nýliðnar kosningar sitja aðeins tveir á Alþingi af þeim sem greiddu atkvæði með ákæru Alþingis á hendur Geir; Sigurður Ingi Jóhannsson, sem með naumindum náði kjöri, og Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem skolaði nú inn á þing fyrir Flokk fólksins, en áður var hún um árabil þingmaður Vinstri grænna. Þá féllu út af þingi tveir úr hópi þeirra sem vildu ákæra Geir, þau Ásmundur Einar Daðason og Svandís Svavarsdóttir. Katrín Jakobsdóttir var líka í ákærendaliðinu en hún sagði af sér þingmennsku í vor sem leið svo sem kunnugt er.

Í brotthvarfi Vinstri grænna — og raunar Pírata líka — fólust skýr skilaboð kjósenda: þeir höfnuðu þeirri öfgahyggju sem umræddir flokkar hafa staðið fyrir og birst hefur í stóru og smáu. Í aðdraganda kosninganna var Svandís Svavarsdóttir, nýkjörinn formaður VG, innt að afstöðu sinni til þess að hér á landi dveldist arabískur maður með tengsl við hryðjuverkasamtök. Hún vék sér undan spurningunni og fór þess í stað að tala um hættu á kynþáttahatri og skort á því sem hún kallaði „inngildingu“. Það var ekki síst vegna skeytingarleysis af þessu tagi sem kjósendur höfnuðu VG og Pírötum, flokkum sem höfðu engan vilja til að gæta að því hverjir kæmu til landsins og brigsluðu grandvörum borgurum óhikað um kynþáttahatur.

Fleira mætti tína til. Þó svo að siðferðismál séu lítt uppi á borðum í pólitískri umræðu hér í norðanverðri álfunni blasir við að umræddir flokkar hafa viðhaft skoðanir í þeim efnum sem þorra fólks blöskrar. Skemmst er að minnast þess að í aðdraganda forsetakosninganna áréttaði Katrín Jakobsdóttir þá skoðun sína að heimila ætti fóstureyðingar allt fram að fæðingu. Og fyrir fáeinum misserum lagði Björn Leví Gunnarsson, fyrrv. þingmaður Pírata, til að fjölkvæni yrði heimilað. Ýmislegt fleira mætti nefna af þessu tagi, til að mynda lög um hina frjálslegu kynjaskráningu og námskeiðin í pólitískri rétthugsun sem VG vildi skikka alla opinbera starfsmenn til að sitja. Það yrði gustukaverk nýrrar ríkisstjórnar að leggja niður mannréttindastofnun VG (sem sjálfstæðismenn raunar studdu).

Flokksmenn sviknir

Það er engin eftirsjá af Vinstri grænum, þó ekki væri nema ef litið er til málarekstursins gegn Geir. En sjálfstæðismenn þurfa einnig í komandi sjálfsskoðun að gera upp við landsdómsmálið. Hvernig gat það gerst að flokkurinn hæfi Steingrím J. Sigfússon til æðstu metorða og gerði að forseta Alþingis, eða legðist svo lágt að sitja í ríkisstjórn undir forsæti Vinstri grænna í næstum sjö ár? Flokkurinn hefði með réttu aldrei átt að hefja samstarf með ákærusveitinni úr landsdómsmálinu — eftirgjöfin var til merkis um prinsippleysi. Við sjáum líka hvaða afleiðingar stjórnarsamstarfið hefur haft nú þegar flokkurinn hefur hlotið sína verstu útreið frá upphafi en afslátturinn af helstu stefnumálum og hugmyndafræði flokksins var slíkur að rétt er að kalla það svik við flokksmenn. Því er ekki að undra að svo stór hluti sjálfstæðismanna kysi aðra flokka — eða greiddi gamla flokknum sínum atkvæði með óbragð í munni.

Til marks um hugmyndafræðilegt öngstræti sjálfstæðismanna er þegar ég heyri suma af yngri kynslóðinni þar tala um mikilvægi „litlu frelsismálanna“ og eiga þá til að mynda við frelsi í verslun með áfengi. Undirritaður er hjartanlega sammála auknu verslunarfrelsi en alltof oft finnst mér sem menn hafi misst sjónar á því sem þá mætti kalla „stóru frelsismálin“ líkt og vernd tjáningarfrelsis og mikilvægi eignarréttarins, þar með talið að öllum þorra manna sé gert kleift að eignast eigið húsnæði. Í þessu efni talaði Miðflokkurinn um margt skýrar en frambjóðendur Sjálfstæðisflokks í nýliðinni kosningabaráttu.

Nú þegar stefnir í að sjálfstæðismenn verði utan stjórnar er fróðlegt að rifja upp að aðeins hefur það tvisvar áður hent að flokkurinn hafi hvort tveggja í senn verið utan ríkisstjórnar og meirihluta borgarstjórnar, en það var árin 1978–1982 og 2010–2013. Í kjölfar ófara flokksins 1978 voru skipaðar nokkrar nefndir og ráðist í umfangsmikla sjálfsskoðun. Eftir á að hyggja má telja að flokkurinn hafi hugmyndafræðilega gengið í endurnýjun lífdaga í kjölfarið og víst er að hann náði vopnum sínum. Sannast þar hið fornkveðna að hinn „spaki minnkar ekki / þótt hann verði var við sína villu“ líkt og Sófókles lætur Hemon komast að orði í Antígónu. Hið sama þarf að gerast nú og gert var 1978: Sjálfstæðismenn verða að hverfa til upprunans, hyggja að grunnstefnu flokksins og hlýða á rödd hins almenna flokksmanns.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
30.10.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?