fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Hrun Vinstri grænna og Katrínar á sér skýringar

Eyjan
Sunnudaginn 15. desember 2024 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlar og aðrir hafa að undanförnu fjalla um hrun Vinstri grænna og einnig tekið viðtöl við Katrínu Jakobsdóttur um ósigur hennar í forsetakosningunum og niðurlægingu Vinstri grænna sem hún stýrði í ellefu ár og var reyndar lykilmanneskja í flokknum í tvo áratugi. Þegar Steingrímur J. Sigfússon, fyrsti formaður flokksins, var búinn að missa fylgi Vinstri grænna niður í frostmark vorið 2013 vék hann fyrir Katrínu og hún náði að hífa fylgið nægilega upp fyrir kosningarnar þá um vorið til að hann héldist inni á Alþingi. Þessi breyting var skynsamleg hjá flokknum og heppnaðist. En Morgunblaðið var svo smekklegt að tala um breytinguna sem „gluggaskraut“ sem þótti á lægsta plani. Vitanlega var þar á ferðinni landsþekktur aulahúmor Davíðs Oddssonar ritstjóra blaðsins.

Orðið á götunni er að hrun flokksins núna og ósigur Katrínar í forsetakosningunum eigi sér eðlilegar skýringar. Samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn komast yfirleitt ekki óskaddaðir frá slíku samstarfi. Um það eru mörg dæmi. Fátítt er þó að flokkar hrynji algerlega eins og urðu örlög Vinstri grænna núna. Stuðningsmenn flokksins yfirgáfu hann jafnt og þétt þegar flokkurinn yfirgaf þá með því að gefa eftir flest helstu stefnumál sín, eins og til dæmis á sviði umhverfismála. Flokkarnir komust í gegnum kosningarnar árið 2021 einungis vegna þess að veiruvandinn sem þá yfirtók samfélagið gerði það að verkum að lítil stjórnmálabarátta var rekin í landinu. Allir urðu að standa saman. Þegar svo nýtt kjörtímabil hófst sauð upp úr á mörgum sviðum og samstarfsvilji og heilindi hurfu. Vegna þess hve lagin Katrín reyndist við að halda liðinu saman og halda lokinu á kraumandi pottum hélst samstarfið þó fram eftir þessu ári.

Þegar Katrín fylltist oflæti og hégómi hennar leiddi til þess að hún bauð sig fram til embættis Forseta Íslands sagði hún af sér sem forsætisráðherra og formaður VG. Við það hrundi flokkurinn og fljótlega kom í ljós að ríkisstjórnin var ekkert annað en Katrín Jakobsdóttir. Þetta tók svo nokkra mánuði að raungerast. Fylgi VG hafði dalað jafnt og þétt en flestir bjuggust þó við því að flokkurinn næði yfir það lágmark sem þarf til að koma fulltrúum á þing.

Eftir að Svandís Svavarsdóttir tók við formennsku í flokknum varð enn skýrara hve missir flokksins vegna brotthvarfs Katrínar var mikill. Óhætt er að segja að Svandís hafi gert röð mistaka sem urðu afdrifarík. Á landsfundi VG sendi hún Sjálfstæðisflokknum tóninn með svo afgerandi hætti að það hlaut að hrikta í. Þá lét hún landsfundinn samþykkja að erindi ríkisstjórnarinnar væri lokið og kjósa ætti næsta vor. Með því drap hún stjórnina en vildi samt láta hana starfa lifandi dauða til vors. Loks gerði hún mikil mistök þegar hún neitaði að taka sæti í starfsstjórn í nokkrar vikur þegar forseti Íslands óskaði eftir því. Í einhverju fýlukastinu hafnaði Svandís því. Nýr formaður Vinstri grænna skoraði því þrennu pólitískra mistaka sem varð til þess að flokkurinn átti enga möguleika í kosningunum. Hlaut einungis 2,3 prósent greiddra atkvæða sem er skelfileg útreið. Einungis 4.600 kjósendur greiddu Vinstri grænum atkvæði sitt. Þessi niðurstaða gerir það að verkum að flokkurinn fær enga ríkisstyrki og lendir á vonarvöl fjárhagslega. Flest bendir til þess að dagar VG séu taldir. Raunverulegir vinstri menn á Íslandi munu framvegis snúa sér annað. Eftir 25 ára starf undir forystu Steingríms J. og Katrínar virðist ævintýrið vera úti.

Orðið á götunni er að Katrín Jakobsdóttir hafi leikið hrikalega af sér þegar hún ákvað að fara í forsetaframboð. Vitanlega vildi hún flokki sínum allt hið besta en hún mátti vita að með brotthvarfi sínu af vettvangi stjórnmálanna gæti flokkurinn liðið undir lok sem og raungerðist. Katrín mátti vita að kjósendur myndu ekki vilja svo skýr tengsl milli flokkastjórnmála og embættis Forseta Íslands. En hún ofmat eigin styrk.

Mörgum þótti það yfirlæti og hroki hjá henni að ætlast til þess að kjósendur tækju þessum hröðu breytingum þegjandi og hljóðalaust. Enda gerðu þeir það ekki. Víst er að formenn samstarfsflokkanna í vinstri stjórn hennar, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, hétu henni fullum stuðningi og stóðu við það. Flokkshollir félagar þeirra skiluðu sér á bak við Katrínu. En mikill fjöldi kjósenda tók afstöðu gegn henni og beið átekta til að velja öflugasta frambjóðandann til að fara með sigur af hólmi í kosningunum. Sú varð raunin. Halla Tómasdóttir hlaut 34 prósent atkvæða en Katrín einungis 25 prósent. Því fór sem fór. Kosningamaskínur Sjálfstæðisflokks og Framsóknar störfuðu ötullega fyrir Katrínu. Það var eins konar framlenging á stjórnarsamstarfi þeirra í meira en 6 ár. Þetta reyndist þó árangurslaust þó að hún ræki dýrustu kosningabaráttuna sem fjársterkir aðilar hafa vonandi styrkt, væntanlega ekki síst sægreifar.

Katrín Jakobsdóttir og Davíð Oddsson eru þeir tveir fyrrum forsætisráðherrar sem hafa boðið sig fram til embættis Forseta Íslands og ekki náð kjöri. Með því rita þau bæði nöfn sín á spjöld Íslandssögunnar. Skilaboðin eru sennilega þau að kjósendur vilji ekki of mikil tengsl á milli átakastjórnmála og hins virðulega embættis forsetans.

Orðið á götunni er að þessi ferill Katrínar og Vinstri grænna sé stórmerkilegur og líklegt að lærdómur verði dreginn af honum. Katrín Jakobsdóttir var um árabil sá stjórnmálamaður sem kjósendur báru mest traust til. Svo virðist sem hún hafi fyllst hátignarkomplex, sem er hugtak sem eignað er Ragnari Jónssyni í Smára, og talið að hún gæti stigið út úr laskaðri ríkisstjórn, orðið forseti Íslands og treyst á að flokkur hennar, Vinstri græn, lifði áfram góðu lífi. Hvorugt gekk eftir. Katrín féll og Vinstri græn liðu undir lok.

Í liðinni viku kom Katrín Jakobsdóttir fram í viðtölum á RÚV og Stöð 2 sama daginn. Hver var tilgangur viðtalanna? Hún tilkynnti að hún hefði orðið sorgmædd við fall Vinstri grænna út af þingi. Varla þarf það að koma á óvart. Hver var raunverulegurtilgangur viðtalanna? Orðið á götunni er að Katrín sé ávallt með áætlun og freisti þess að sjá fram á veginn. Var hún að sækja um vinnu? Og þá hvar? Var hún að láta alla þrjá föllnu flokkana vita að hún væri enn þá til ef mætti sameina þá til átaka á vinstri vængnum næst þegar færi gefst?

Hvort Sósíalistaflokkur Íslands, Vinstri græn og Píratar eiga samleið inn í framtíðina undir forystu Katrínar Jakobsdóttur skal ósagt látið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Lífleg útgáfa hjá sagnfræðingum í Háskóla Íslands

Lífleg útgáfa hjá sagnfræðingum í Háskóla Íslands
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þórdís Kolbrún svarar gagnrýni Hannesar – „Það er ekki bæði haldið og sleppt í þessu“

Þórdís Kolbrún svarar gagnrýni Hannesar – „Það er ekki bæði haldið og sleppt í þessu“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Efins um að Valkyrjustjórnin verði að veruleika – „Eins og við séum að horfa á eitthvað leikrit“

Efins um að Valkyrjustjórnin verði að veruleika – „Eins og við séum að horfa á eitthvað leikrit“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þetta ætlar Áslaug Arna að gera í desember

Þetta ætlar Áslaug Arna að gera í desember