Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir með öllu ótækt að stjórnendur Reykjavíkurborgar stígi fram og segist vera undrandi og skilji ekkert í því að stærðarinnar vöruhús hafi verið byggt beint ofan í fjölbýlishús í Breiðholti. Hneykslisalda hefur riðið yfir eftir greint var frá því að stærðarinnar vöruhús við Álfabakka 2, reis upp við hliðina á fjölbýlishúsi við Árskóga 7. Gímaldið er aðeins 14 metra frá fjölbýlishúsinu og lokar algjörlega á útsýni og dagsbirtu hjá fjölmörgum íbúum.
Í harðorðri grein sem birtist á Vísi seint í gærkvöldi segir Sigmundur að ekki hafi verið um skipulagsslys að ræða, eins og talsmenn meirihlutans hafa reynt að verja sig með. „Slys eru ekki skipulögð. Skemman var í samræmi við stefnu borgaryfirvalda,” skrifar Sigmundur Davíð.
Hann bendir á að undrun stjórnenda borgarinnar hafi kom seint og ekki eftir ábendingar íbúa sem hafi mátt sætta sig við þögn frá borginni. Undrunin hafi látið á sér kræla þegar fjölmiðlaumfjöllun var orðin óþægileg.
Sigmundur Davíð segir í grein sinni að málið sé afleiðing af virðingarleysi borgaryfirvalda gagnvart íbúum þar sem stjórnendur telja sig vera til fyrir borgina en ekki öfugt. Ástæðan fyrir þessu slysi sé linnulaus hallarekstur borgarinnar sem hafi gert hana háða sölu byggingaréttar.
„En ekki hvar sem er. Það verður nefnilega að byggja sem mest á svo kölluðum „þéttingarreitum”, í samræmi við stefnuna um þéttingu byggðar og Borgarlínu.
Hann segist hafa varað við þessari þróun lengi.
„Áður en ég hóf þátttöku í stjórnmálum tók ég myndir sem fylgja hér að ofan til að sýna hvernig það væri orðin stefna borgarinnar að grafa út heilu lóðirnar (eða nokkrar saman) í miðbænum og byggja út að lóðamörkum (og stundum meira). Ef þetta hefði verið gert á öllum lóðum væri byggðin bara einn stór klumpur. Eftir að þéttingarstefnan færðist í aukana hefur verið byggt fyrir útsýni fólks um alla borg á svæðum sem áttu að vera græn en ekki byggingarreitir. Byggt er þétt upp að umferðargötum (eða flugvelli) þ.a. gluggar megi jafnvel ekki vera með opnanleg fög. Bílastæðum er haldið í lágmarki og eiga helst engin að vera svo þvinga megi fólk í hinum dýru bílastæðalausu íbúðum upp í Borgarlínu. Allt er þetta gert samkvæmt kreddum og án tengingar við raunveruleikann og eðli borgarinnar. Raunar líka án tengingar við mannlegt eðli,” skrifar Sigmundur Davíð.
Afleiðingarnar birtist svo eins og í framkvæmdunum við Álfabakka. Litið sé framhjá áhyggjum íbúa og ekki brugðist við fyrr en skaðinn er skeður.
„Þegar raunveruleikinn blasir við skilja þeir sem skipulögðu allt saman ekki neitt í neinu og tala um „fíaskó” sem þurfi einhvern veginn að bregðast við. Þó líklega ekki með breyttri stefnu.“
Höfundur er formaður Miðflokksins