Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og Inga Sæland formaður Flokks fólksins upplýstu fjölmiðla um stöðu stjórnarmyndunarviðræðna á milli flokkanna, nú fyrir stuttu. Þær segja stefnt að því að hefja skrif á stjórnarsáttmála eftir helgina.
Vinnuhópar á vegum flokkanna hafa verið að störfum og segir Kristrún að sú vinna hafi gengið vel og allir hópar hafi skilað af sér. Þessi vinna muni gagnast síðan vel við skrifin á stjórnarsáttmála.
Inga Sæland gerði lítið úr orðrómi um ágreining þeirra á milli og sagðist ekki eltast við bull út í bæ.
Þorgerður Katrín sagði þó samtalið þeirra á milli enn vera yfirstandandi. Enn standi út af ágreiningsmál í kjölfar loka á störfum vinnuhópanna og þau þurfi að ræða um helgina.
Þær vildu lítið gefa upp um niðurstöður viðræðnanna það sem af er en endurtóku það sem áður hefur verið greint frá að ráðuneytum verði fækkað. Væntanleg ríkisstjórn muni hins vegar taka til hendinni og ganga í öll nauðsynleg verk. Inga sagði að fjölmiðlar ættu að hvetja þær til góðra verka og sagði að ein risaákvörðun hefði þegar verið tekin en greindi ekki nánar frá því í hverju hún felst.
RÚV greinir frá því að Inga hafi sagt kallað eftir stöðugleika og lækkun skatta. Hún hafi í kjölfarið verið leiðrétt af Þorgerði sem hafi sagt lækkun vaxta í forgangi.
Kristrún sagði viðræðunar litast af versnandi stöðu ríkissjóðs og vísaði allri ábyrgð á henni til núverandi ríkisstjórnar.
Stefnt er að því að ljúka gerð stjórnarsáttmálans fyrir áramót en Þorgerður lagði áherslu á að hún gæti tekið tíma.