Viðskiptaráð Íslands birti í vikunni úttekt þar sem farið var yfir sérréttindi opinberra starfsmanna á Íslandi. Þar var fullyrt að opinberir starfsmenn njóti ýmissa starfstengdra réttinda umfram það sem þekkist í einkageiranum. Þessi sérréttindi jafngildi 19% kauphækkun miðað við einkageirann. Viðskiptaráð rakti að þessi kauphækkun fælist í ríkari veikindarétti, auknu starfsöryggi, lengra orlofi og fyrst og fremst í styttingu vinnuvikunnar en styttingin ein og sér næmi 11,1% kjarahækkun.
Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM segir úttektina ekkert annað en talnarugl og áróður. Framsetning Viðskiptaráðs sé villandi og viljandi sett fram núna til að reyna að hafa áhrif á komandi ríkisstjórn til að ná fram markmiðum Viðskiptaráðs um aukinn einkarekstur. Kolbrún birti grein á vefsíðu BHM í dag.
„Í nýbirtri úttekt Viðskiptaráðs Íslands er fullyrt að kjaratengd réttindi opinberra starfsmanna jafngildi 19% launahækkun starfsfólks í einkageiranum. Þessi framsetning er vægast sagt villandi og því nauðsynlegt að skoða hvernig staðið er að þessum samanburði Viðskiptaráðs og hvaða forsendur liggja að baki. Eins er rétt að hugleiða hvað Viðskiptaráði gengur til með ítrekuðum tilraunum sínum til að etja saman starfsfólki á almennum og opinberum vinnumarkaði, svo jaðrar við þráhyggju.“
Kolbrún rekur að Viðskiptaráð haldi því fram í úttekt sinni að meðalfjöldi vinnustunda opinberra starfsmanna sé 32,3 klukkustundir á viku. Þessu sé hent fram eins og um sé að ræða meðaltal opinberra starfsmanna í fullu starfi. Það sé ekki svo. Þarna undir falli líka þeir starfsmenn sem eru í hlutastarfi og vaktavinnu, en slíkar stöður eru algengari hjá hinu opinbera en hjá einkageiranum. Fullvinnandi hjá hinu opinbera fá að meðaltali greiddar 177 klukkustundir á mánuði. Á almenna markaðinum séu greiddar stundir að meðaltali 175,1. Þar með vinna opinberir starfsmenn fleiri vinnustundir en fólk á almennum vinnumarkaði.
„Viðskiptaráð velur hins vegar að sýna meðaltal vinnustunda fyrir alla, bæði fullvinnandi og hlutastörf. Þessi skekkja í útreikningum veldur því að vinnuvikan virðist styttri hjá opinberum starfsmönnum. Hún er hins vegar sambærileg ef einungis er borið saman starfsfólk í fullu starfi. Það er því eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Kolbrún rekur að samanburður Viðskiptaráðs sé villandi og líklega bara gerður í áróðursskyni. Ef tilgangurinn væri að hefja vitræna umræðu um launamun í samfélaginu hefði farið betur að byggja það á staðreyndum.
„Samanburður Viðskiptaráðs á launakjörum opinberra starfsmanna og starfsfólks í einkageiranum er villandi og byggir á forsendum sem skekkja myndina. Úttektin og framsetning hennar virðist því einungis gerð í áróðursskyni. Þá er rétt að spyrja um hvað snýst áróðurinn og hverjum er hann ætlaður? Það er ekki langsótt að draga þær ályktanir að skilaboðin séu ætluð stjórnmálafólki, mögulega þeim sem nú freista þess að mynda nýja ríkisstjórn, og séu liður í síendurteknu suði Viðskiptaráðs um að einkamarkaðurinn sé betur til þess fallinn að reka skóla, heilbrigðis- og velferðarþjónustu en hið opinbera.
Vilji Viðskiptaráð hins vegar vitræna umræðu um launamun í samfélaginu er ekki úr vegi að ráðleggja þeim, sem þar ráða ríkjum, að byggja hana á staðreyndum og framsetningu sem stenst skoðun. Rangfærslur eru til þess eins fallnar að villa um fyrir fólki og torvelda sanngjarna greiningu á vinnumarkaðnum. BHM hvetur til þess að umræða um vinnumarkaðsmál sé fagleg og byggð á réttum forsendum. Einungis þannig má tryggja upplýsta, sanngjarna og traustvekjandi umræðu um launakjör og vinnumarkað.“