Nú eru jólin á næsta leyti og ekki óalgengt að jólafögnuðir séu á vinnustöðum hér á landi og erlendis. Þar var þýska knattspyrnufélagið Bayern Munchen engin undantekning árið 2000.
Goðsögnin Franz Beckenbauer, sem hafði auðvitað spilað með og þjálfað þýska stórveldið, var þarna forseti félagsins en hann tók smá hliðarspor á jólagleðinni þetta kvöldið. Síðan The Upshot, sem tekur fyrir skemmtilegar sögur af íþróttafólki utan vallar, tók þetta saman.
Beckenbauer svaf nefnilega hjá ritara félagsins þetta kvöldið og ekki nóg með það. Eftir að í ljós kom að hún varð ólétt eftir hann var Beckenbauer ekkert að stressa sig of mikið á því.
„Þetta er ekki svo mikill glæpur. Guð okkar er þakklátur fyrir hvert barn sem kemur í heiminn,“ sagði hann, en þess má geta að hann var giftur á þessum tíma.
Beckenbauer féll frá snemma á þessu ári, 78 ára gamall.