Trump hefur oft sagt ESB vera óvin Bandaríkjanna og hefur beitt Evrópuríki miklum þrýstingi og því er Evrópubúum mikið í mun að hafa einhvern sem getur tjónkað við Trump.
Nýlega sátu Elon Musk, sem er í innsta hring hjá Trump, og Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, saman til borðs á hátíðarkvöldverði í New York. Þóttu þau og augnsamband þeirra mjög náið og urðu þau að vísa því á bug síðar að eitthvað rómantískt væri í gangi á milli þeirra.
Það dró ekki úr orðrómunum að Musk sagði Meloni vera „manneskju sem er enn fallegri að innan en utan“. Meloni sagði á móti að Musk „sé dýrmætur snillingur“. Musk tjáði sig síðar um kvöldstund þeirra á hátíðarkvöldverðinu og sagði: „Ég var þarna með móður minni. Það er ekkert rómantískt í gangi með Meloni forsætisráðherra.“
Vinátta Meloni og Musk hefur komið henni í forystusætið í kapphlaupinu um að verða „Trump-hvíslari“ Evrópu því Musk mun verða valdamikill í stjórn Trump.
Hlutverk „Trump-hvíslarans“ er að geta byggt brú til Trump þegar þörf krefur. Þetta verður að vera aðili sem Trump hlustar á þegar Evrópa þarf að berjast fyrir áframhaldandi stuðningi við Úkraínu og koma í veg fyrir viðskiptastríð við Bandaríkin.
Reiknað er með að enn erfiðara verði að eiga við Trump nú en á fyrra kjörtímabili hans en þá hótaði hann meðal annars að draga Bandaríkin úr NATÓ. Hann dregur einnig oft upp þá mynd af ESB að sambandið sé óvinur sem hafi það eina markmið að sækja sér bandaríska peninga.