Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, er í viðtali við Kastljós í kvöld en RÚV hefur nú birt úrdrátt úr viðtalinu.
Þar kemur fram að Katrín segist hafa upplifað sorg eftir Alþingiskosningarnar er flokkurinn hennar, Vinstri græn, féll af þingi.
„Ég upplifði bara raunverulega sorg á þessum sunnudegi,“ segir Katrín. Hún segir að örugglega kenni einhver henni um þetta. „En það eru auðveld viðbrögð að finna blóraböggul og það má kenna mér um eða Svandísi eða einhverri ályktun um, en ekkert hefur það upp á sig.“
Um stjórnarsamstarfið segir hún meðal annars:
„Það er ekkert launungarmál að það var kergja, það voru mál sem sátu föst lengi á milli flokka og ekki eingöngu hjá Sjálfstæðisflokknum svo því sé haldið til haga.“
Katrín segist hafa farið í forsetakosningarnar til að vinna en hún hafi gert sér grein fyrir því að ekkert væri gefið í þeim efnum. „Auðvitað fór ég í kosningarnar til að vinna en ég var líka mjög sátt með þann stuðning sem ég fékk sem var 25%,“ segir Katrín og bendir á að það sé meira en nokkur flokkur hlaut í liðnum Alþingiskosningum.
Hún segist hafa orðið undrandi á mörgu sem fólk lét flakka í kosningabaráttunni. „Þannig að það var ýmsilegt sagt sem var beinlínis rangt og mér þótti oft furðulega að orði kveðið hjá ýmsum.“ Hún segist ekki sjá eftir því að hafa boðið sig fram í forsetakosningum. „Ef ég gæti farið aftur í tímann þá myndi ég gera þetta eins.“
Katrín segist hafa notið þessa að vera ekki í sviðsljósinu undanfarna mánuði. „Við hjónin höfum grínast með það að við höfum ekki verið svona mikið saman í tuttugu ár eins og í þessari kosningabaráttu.“