Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var að vonum svekktur með 1-2 tap gegn Djurgarden í Sambansdeildinni í dag. Um var að ræða fimmta leik liðanna í deildarkeppninni en möguleikarnir á að fara áfram eru klárlega enn til staðar fyrir íslenska liðið.
„Þetta eru að sjálfsögðu vonbrigði. Mér fannst fyrri hálfleikur nokkuð solid en þetta voru auðvitað erfiðar aðstæður. Við gerðum illa í ákveðnum mómentum, þá á ég við föst leikatriði og þess háttar sem skipta svo miklu máli á þessu stigi. Þrjár hornspyrnur fóru til fjandans. Þetta eru smáatriðin sem skipta svo miklu máli,“ sagði Arnar við 433.is eftir leik.
Staðan eftir fyrri hálfleik var markalaus en Djurgarden kom af miklu meiri krafti inn í seinni hálfleikinn.
„Í seinni hálfleik vorum við allt of „sloppy.“ Viðvörunarbjöllurnar voru farnar að hringja löngu fyrir fyrsta markið þeirra. Ég veit ekki hvað veldur. Ég held að menn hafi gleymt að taka sér réttar stöður.“
Víkingur er með 7 stig og mætir LASK í Austurríki í lokaleik sínum. Ekki er víst hvort liðið þurfi stig þar eða ekki til að vera á meðal efstu 24 liða í deildinni og fara áfram á næsta stig keppninnar.
„Maður talar rosalega mikið um að íslenskir leikmenn eigi að læra mikið af þessum leikjum. En á endanum verður maður þreyttur á því, hvenær endar lærdómurinn? Það eru svo lítil mistök á þessu stigi sem skilja að. Möguleikarnir fara eftir því hvernig við náum að greina þennan leik og svo líka kannski eftir því hvernig fer hjá þeim í kvöld gegn Fiorentina. Ef þeir tapa eru þeir úr leik.
Mér líður ekkert allt of vel með (þessi 7 stig). Það eru búin að vera fá jafntefli í þessu móti. Það væri erfitt að fara til Austurríkis og naga neglurnar í 90 mínútur, sjá hvernig gengur. En mögulega dugar það.“
Viðtalið í heild er í spilaranum.