Ástin sveif yfir árinu 2024 og fjölmörg pör staðfestu ást sína með hjónabandi, mörg eftir margra ára samband og sambúð.
Hér má sjá nokkur pör sem sögðu já og settu upp hringa á árinu og voru til umfjöllunar í fjölmiðlum landsins.
Bjarni Snæbjörnsson, leikari og athafnastjóri með meiru og Bjarmi Fannar, vöruhönnuður og yfirflugþjónn hjá Icelandair, giftu sig 21. júní.
„Í hjörtum okkar ríkir þakklæti fyrir það að búa í landi þar sem við tveir getum gifst manneskjunni sem við elskum,“ segja Bjarni og Bjarmi sem hafa verið saman í nokkur ár.
Fanney Ingvarsdóttir, markaðsfulltrúi Bioeffect og fyrrverandi fegurðardrottning, og Teitur Reynisson, viðskiptafræðingur í Landsbankanum, giftu sig 17. ágúst í Dómkirkjunni í Reykjavík. Veislan var haldin í Gamla bíói og stýrðu Katla Þorgeirsdóttir og Fannar Sveinsson veislunni.
Hjónin kynntust árið 2016 og eiga saman tvö börn.
„Að eilífu þín, að eilífu minn, að eilífu við,“ skrifaði Fanney á Instagram.
View this post on Instagram
Nadine Guðrún Yaghi, forstöðumaður samskipta og þjónustu hjá flugfélaginu Play, og Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, giftu sig í Siglufjarðarkirkju 15. júní og gaf séra Skúli S. Ólafsson gaf hjónin saman. Eftir athöfnina var marserað með lúðrasveit niður á Kaffi Rauðku þar sem veislan fór fram.
Hjónin byrjuðu saman í upphafi árs 2022 og eiga þau von á sínu öðru barni saman, fyrir eiga þau son og Nadine á son frá fyrra sambandi. Aðspurð um af hverju þau giftu sig, sagði Nadine við Smartland:
„Með því staðfesta hjónin að þau séu saman í þessu alla tíð sama hvað á dynur. Svo er bara svo asnalegt að tala um kærastann sinn. Nú get ég loksins talað um eiginmanninn minn.“
Barbara Björnsdóttir, héraðsdómari og Arnar Wedholm Gunnarsson, framleiðandi giftu sig 28. júní á Hotel Villa Cariola sem er nálægt Gardavatni á ítalíu. Pink Iceland aðstoðaði við skipulagið og sá einn eigenda, Eva María Þórarinsdóttir Lange, um að túlka, en ítalskur fulltrúi sýslumanns sá um að gefa hjónin saman.
Poppstjarnan Páll Óskar Hjálmtýsson og Edgar Antonio Lucena Angarita giftu sig 27. mars.
„Takk, Edgar Antonio Lucena Angarita, ástin í lífi mínu og núna maðurinn minn. Allir sem þekkja mig segja það sama: þau hafa aldrei séð mig svona hamingjusaman í lífinu. Ég ætla að vera besti eiginmaður í heimi, og akkurat þegar þú heldur að ég geti ekki orðið betri fyrir þig, þá mun ég halda áfram að koma þér á óvart, bæta mig meira og verða bara betri. Cada día es un Aventura! Ég elska þig. Þinn, Palli.“
View this post on Instagram
María Thelma Smáradóttir leikkona og Steinar Thors viðskiptastjóri hjá Straumi giftu sig 12. október í Hallgrímskirkju og var veislan haldin á Grand Hótel þar sem Margrét Rán og Páll Óskar ásamt tveimur dönsurum héldu uppi stuðinu.
Kristín Þóra Haraldsdóttir leikkona og Teitur Skúlason lögfræðingur giftu sig að Borg á Mýrum laugardaginn 24. ágúst. Séra Guðni Már Harðarson gaf hjónin saman og Hallgrímur Ólafsson, leikari og tónlistarmaður, sá um tónlistina.
Klara Rún Ragnarsdóttir verkefnastjóri hjá Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Birgir Már Arnórsson verkefnastjóri hjá Íslenskum aðalverktökum hf. giftu sig 5. janúar hjá sýslumanni. Hjónin fóru svo í Melabúðina þar sem Aldís Pálsdóttir ljósmyndari tók skemmtilegar og öðruvísi myndir af hjónunum innan um mat- og hreinlætisvörur verslunarinnar.
„Klara Rún Ragnarsdóttir og Birgir Már Arnórsson gengu í hnapphelduna um daginn og óskuðu eftir að myndir væru m.a. teknar af þeim í Melabúðinni, „svona öðruvísi hjónamyndir“ segir í færslu Melabúðarinnar.
Sigurjón Ernir Sturluson og Simona Vareikaité, hlauparar og eigendur UltraForm, giftu sig 6. apríl í Innri-Hólmskirkju í Hvalfjarðarsveit.
Hjónin kynntust í ræktinni fyrir nokkrum árum síðan og eiga eina dóttur.
View this post on Instagram
Rakel Björk Björnsdóttir, leikkona og tónlistarkona, og Garðar Borgþórsson, tónlistarmaður giftu sig hjá sýslumanni 5. júlí.
„Yndislegur dagur með nánustu vinum og ættingjum. Byrjuðum hjá sýslumanninum kl. 11:30 þar sem lögfræðingurinn hélt um stund að ég ætlaði að giftast pabba mínum. Kast! Þetta var stórkostleg upplifun þarna í Kópavoginum. Við erum með margar góðar sögur….en þetta var alveg í okkar anda.Garðpartý, grill, söngur og sprell hófst um kl. 13. Síðan var ferðinni heitið út að borða í miðbæ Reykjavíkur með góðum vinum. Við brúðhjón gistum á hóteli og borðuðum morgunmat í sumarblíðunni. Einfalt, passlegt, fyndið og fullkomið.“
View this post on Instagram
Þóra Jóna Jónatansdóttir og Erlingur Valgarðsson, myndlistarmaður, giftu sig 17. ágúst í Hannesarholti. Hjónin hafa verið par í 22 ár.
„Við ákváðum bara að slá til og láta gefa okkur saman í Hljóðbergi í Hannesarholti. Það er í raun aldrei of seint að gifta sig. Við vildum hafa látlausa athöfn en mikla gleði og gaman, sem varð raunin. Börnin okkar héldu utan um þetta með okkur og Helgi Björns mætti og tók uppáhaldslögin okkar og hleypti fjörinu upp, það var dansað fram á rauða nótt,“ segir Erlingur í viðtali við Smartland.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fyrrum atvinnukylfingur og Thomas Bojanowski giftu sig 16. ágúst í Fríkirkjunni í Reykjavík. Veislan var haldin í Iðnó.
„Takk öll fyrir að gera daginn okkar einstakan!! Við erum svo heppin að vera umkringd svona ótrúlegu fólki. Brúðkaup er eitt af fáum viðburðum í lífinu þar sem allt fólkið sem þú elskar kemur saman á einum stað og það var súrrealískt að allir hafi safnast saman á Íslandi! Takk takk takk!!“
View this post on Instagram
Kristrún Auður Viðarsdóttir fjárfestir og Árni Oddur Þórðarson, viðskiptamaður og fyrrverandi forstjóri Marel, giftu sig í Dómkirkjunni 14. september. Séra Sveinn Valgarðsson prestur gaf saman og Bubbi Morthens söng í athöfninni. Veislan var haldin í Marshall-húsinu. Hjónin hafa verið saman í tvo ár.
Kristrún átti 50 ára afmæli sama dag og bauð til veislu á heimili Árna við Sólvallagötu, gestum var síðan skellt í ratleik sem endaði í Dómkirkjunni.
Rósa Signý Gísladóttir, doktor í sálfræðilegum vísindum og vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu, og Bjarki Bergmann Gunnlaugsson fótboltamaður, giftu sig 16. nóvember. Hjónin hafa verið saman í 20 ár.
Ragnar Ísleifur Bragason athafnastjóri hjá Siðmennt og leikskáld gaf hjónin saman og fór athöfnin og veislan fram í Marshall-húsinu.