„Ef málið væri ekki svona alvarlegt þá ætti þessi frétt um að Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði ætli að endurskoða kjarasamning við Virðingu heima í áramótaskaupinu.“
Þetta segir formaður Starfsgreinasambandsins, Vilhjálmur Birgisson, í færslu á Facebook. Tilefni skrifanna er tilkynning SVEIT, Samtaka félaga á veitingamarkaði, um að félagið ætli að endurskoða kjarasamning við stéttarfélagið Virðingu eftir harða gagnrýni og boðaðar aðgerðir Eflingar.
Efling hefur undanfarna viku staðið í harðri baráttu eftir að nýtt stéttarfélag, Virðing, opinberaði tilvist sína með því að gera kjarasamning við SVEIT þar sem launafólk í hótel- og veitingarekstri er svipt réttindum og látið taka á sig verri kjör en Efling hafði samið um fyrir þeirra hönd.
„Enda er þetta gervistéttarfélag stofnað af forsvarsmönnum Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði,“ segir Vilhjálmur en bent hefur verið á að forsvarsmenn Virðingar hafi tengsl við ýmist SVEIT eða aðra aðila í veitingarekstri. Því séu atvinnurekendur í raun að gera kjarasamning við sig sjálfa og kjörin því alfarið á þeirra forsendum.
Efling hafði sent fyrirtækum í SVEIT orðsendingu og boðað harðar aðgerðir ef fyrirtækin legðust ekki gegn kjarasamningnum við Virðingu. Hafa mörg félög brugðist við með því að segja sig úr SVEIT.
Vilhjálmur segir að auðvitað hafi SVEIT nú áttað sig á þeim lögbrotum sem félagið hafi ástundað með því að gera samning við sjálft sig.
„Ég trúi ekki að alvöru fyrirtæki á veitingamarkaði hafi samvisku í að kenna sig við Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði eftir þessa ólöglegu aðför að réttindum verkafólks sem starfar í þessum geira.
Þessi gjaldfelling á launakjörum og réttindum starfsfólks á veitingamarkaði er ein grófasta aðför verkafólks um langt áratugaskeið og morgunljóst að hvorki Starfsgreinasamband Íslands né Efling munu láta þessa aðför átölulaust.
Ég er „ögn“ hissa hversu lítið Samtök atvinnulífsins hafa látið hafa eftir sér yfir þessum ólöglega gervikjarasamningi enda er verið að skekkja samkeppni hjá fyrirtækjum innan SA sem eru með löglega kjarasamninga við SGS og Eflingu fyrir umrædd störf. “
Vilhjálmur minnir á með hvaða hætti kjör verkafólks eru dregin niður í téðum samningi: