Skarphéðinn Guðmundsson hefur látið af störfum sem dagskrárstjóri RÚV. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Skarphéðinn sendi vinum og samstarfsfólki fyrr í dag.
Þar kvaddi hann vinnustaðinn með virktum, sagðist eiga eftir að sakna samstarfsfólksins á RÚV en tími væri kominn á ný ævintýri. Fram kemur að hann muni sinna starfinu fram að áramótum.
Skarphéðinn, sem er sagnfræðingur að mennt, hefur starfað sem dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins frá árinu 2012. Áður starfaði hann sem dagskrárstjóri Stöðvar 2 frá árinu 2007 og upplýsingafulltrúi 365 miðla frá árinu 2005. Þá starfaði hann um árabil á menningardeild Morgunblaðsins, sem blaðamaður og gagnrýnandi.