Velgengnin kom á óvart – „Fyllast allir okkar vasar af peningum þarna um stundarsakir“
Varla er til sá Íslendingur sem ekki hefur séð, eða allavega heyrt um hina goðsagnakenndu kvikmynd Stuðmanna Með Allt á hreinu sem sló öll aðsóknarmet hér á landi snemma á 9 áratugnum. Lögin og frasarnir úr myndinni hafa síðan þá fest sig í sessi í hugum landsmanna. Það var þó ekki ljóst frá byrjun að myndin ætti eftir að slá svo rækilega í gegn.
„Hún byrjaði ekkert voða vel,“ segir Egill Ólafsson söngvari Stuðmanna í samtali við sjónvarpsþáttinn Popp- og rokksaga Íslands á RÚV en hann fór með hlutverk Stinna í myndinni. Segir hann að menn hafi verið við það að gefast upp og taka myndina úr sýningu þegar aðsóknin tók skyndilegan kipp. „Aðsóknin var ekki mikil fyrstu tvo mánuðina, en svo allt í einu bara gerist það. Við vorum svona á mörkunum að taka hana út úr Háskólabíói og þá allt í einu bara uppselt, uppselt, uppselt,“ segir hann.
Hann segir að ákveðið „költ“ hafi myndast í kringum sýningarnar á myndinni og einstakt andrúmsloft skapast á meðal áhorfenda. „Þá er það að gerast að það koma á hana skólakrakkar og þau koma aftur og aftur. Og menn koma saman í hópum að sjá hana og stemmningin er gífurleg. Menn eru farnir að kunna hluta úr henni og syngja með í bíóinu.“
Valgeir Guðjónsson sem lék hinn eftirminnilega karakter Lars í myndinni segir að hin skyndilega velgengi hafi komið flatt upp á þá sem stóðu að myndinni. „Þetta verður til þess að við það einhvern veginn svona fyllast allir okkar vasar af peningum þarna um stundarsakir og ég, í einhverju bjartsýniskasti, segi náttúrulega bara segi upp minni daglaunavinnu. Og hef eiginlega aldrei unnið ærlegt handtak síðan.“
Þá segir Egill að þó svo að Stuðmenn hafi verið afar afkastamiklir í gegnum tíðina og skilið eftir sig ótal eftirminnileg lög þá sé það ætíð kvikmyndin sem fólk muni eftir. „Við lifðum af þessu næstu misseri, næstu ár. Gáfum út fullt af plötum en ég vil segja það að þær eru allar yfirskyggðar af þessari mynd.“