Mexíkósk kona, búsett á Íslandi, birti nýlega á samfélagsmiðlum fjölda ljósmynda úr fórum föður síns sem var skiptinemi á Íslandi fyrri um hálfri öld síðan. Vildi hún vita hvaða fólk væri um að ræða á myndunum en á þeim voru meðal annars margar af þekktustu fegurðardrottningum og fyrirsætum landsins.
Konan, Laura López, greinir frá því að faðir sinn, José Luis López Ayala, hafi komið til Íslands árið 1974, þá 24 ára gamall skiptinemi.
„Hann varð ástfanginn af landi og þjóð og ég ólst upp við sögur af Íslandi,“ segir hún. Hún flutti sjálf til Íslands fyrir sex árum, þá 26 ára, lærði tungumálið og er hér enn. „Pabbi hefur ekki komið til Íslands í fjörutíu ár en sendi mér nýlega þessar gullfallegu filmumyndir frá íslandsdvölinni. Kannast einhver við fallega unga fólkið á myndunum? Ég veit þau gerðu dvöl pabba míns ógleymanlega,“ spyr hún.
José var skiptinemi á vegum Nemendaskipta þjóðkirkjunnar og vann einnig fyrir Módelsamtökin við auglýsingateiknun. Hann sýndi einnig málverk á málverkasýningum hér á landi eins og kom fram í blaðaumfjöllun árið 1980.
Á ljósmyndunum sem hann sendi má sjá margar af þekktustu fyrirsætum og fegurðardrottningum áttunda áratugarins. Meðal annars Henný Hermannsdóttur, Kristjönu „Jönu“ Geirsdóttur, Elísabetu Guðmundsdóttur og Þuríði Sigurðardóttur söngkonu og sjónvarpsþulu.