fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Óvinnufær vegna myglu en fær ekki áheyrn í Hæstarétti

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 11. desember 2024 14:30

Mikið mygluvandamál hefur verið í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur en kona sem vann þar glímir við veikindi vegna myglunnar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona sem varð fyrir heilsutjóni vegna vinnu sinnar í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem upp kom mygla, fór fram á að Hæstiréttur myndi taka fyrir mál hennar gegn Orkuveitunni. Konan tapaði málinu fyrir bæði héraðsdómi og Landsrétti og hefur nú beðið ósigur í þriðja sinn en Hæstiréttur synjaði beiðni hennar um áfrýjunarleyfi.

Konan hafði krafist skaðabóta frá Orkuveitunni á þeim grundvelli að hún hafi orðið fyrir heilsutjóni vegna myglunnar á árunum 2014-2017.

Í ákvörðun Hæstaréttar segir að Landsréttur hafi staðfest niðurstöðu héraðsdóms um að sýkna Orkuveituna af kröfu konunnar. Landsréttur hafi staðfest að leggja bæri til grundvallar fyrirliggjandi matsgerð um að konan hefði orðið fyrir varanlegum heilsubresti við vinnu sína í húsnæði Orkuveitunnar vegna áhrifa frá myglu og að rétt væri að miða við að það hefði gerst áður en hún var flutt til í húsnæðinu í september 2015.

Landsréttur hafi ekki fallist á þá málsástæðu konunnar að efni væru til að gera ríkari kröfur til Orkuveitunnar en leiddu af almennum reglum skaðabótaréttar um sakarmat, sönnun og sönnunarbyrði. Um þá niðurstöðu hafi rétturinn vísað til fyrirliggjandi matsgerðar dómkvaddra matsmanna um þá þekkingu sem legið hafi fyrir um möguleg áhrif myglu á heilsu á þeim tíma er atvik málsins áttu sér stað.

Þá hafi Orkuveitan ekki verið látin bera hallann af sönnunarskorti um að mögulega hefði mátt greina tilvist myglu í húsnæðinu fyrr, eftir atvikum með öðrum eða víðtækari ráðstöfunum en gripið var til. Um það hafi meðal annars verið horft til þess að ekki yrði ráðið af gögnum málsins að nein ný sjáanleg ytri ummerki um raka eða myglu hefðu komið fram á umræddum stað í húsnæðinu í kjölfar skoðunar sem fór fram í febrúar 2013, en eins og áður segir byggðist krafa konunnar á því að heilsutjón hennar hefði orðið á árunum 2014-2017.

Misvísandi

Í beiðni konunnar um leyfi til að áfrýja málinu til Hæstaréttar kemur fram að mikilvægt sé að rétturinn taki afstöðu til misvísandi dóma Landsréttar um skaðleg heilsufarsleg áhrif af rakaskemmdum og myglu. Dómur um skyldu vinnuveitanda til að fylgjast með og koma í veg fyrir rakaskemmdir og myglu og hvernig honum beri að bregðast við, komi slíkt í ljós, hafi verulegt almennt gildi og mikilvægt sé að Hæstiréttur fjalli sérstaklega um það. Þá vísaði konan til þess að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar.

Hún hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni. Ástand hennar sé svo slæmt að hún geti ekki unnið og suma daga ekki tekið þátt í daglegum athöfnum. Að lokum vísaði konan til þess að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur að efni til en allur vafi hafi verið túlkaður henni í óhag andstætt því sem gert hafi verið í dómi Landsréttar í sambærilegu máli.

Hæstiréttur tekur hins vegar ekki undir þetta og segir að af gögnum málsins megi ekki ráða að það hafi verulegt almennt gildi eða varði mikilvæga hagsmuni konunnar í skilningi laga um meðferð einkamála. Hæstiréttur tekur heldur ekki undir það að málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið ábótavant eða að dómur þess síðarnefnda hafi verið bersýnilega rangur.

Hæstiréttur mun því ekki taka mál konunnar fyrir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Talaði Trump af sér?

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Talaði Trump af sér?

Talaði Trump af sér?
Fréttir
Í gær

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“
Fréttir
Í gær

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“
Fréttir
Í gær

Öskrin í konunni reyndust á „heldur jákvæðari nótum“ en óttast var

Öskrin í konunni reyndust á „heldur jákvæðari nótum“ en óttast var
Fréttir
Í gær

Zelenskyy segir að hægt sé að senda erlendar hersveitir til Úkraínu áður en af NATÓ-aðild verður

Zelenskyy segir að hægt sé að senda erlendar hersveitir til Úkraínu áður en af NATÓ-aðild verður