Tónlistargagnrýnandinn Jónas Sen gefur hátíðartónleikum Bíretar í Silfurbergi í Hörpu síðastliðið sunnudagskvöld slaka dóma. Segir hann söngstíl Bíetar vera einkennilegan. Þetta kemur fram í dómi á Vísir.is is.
„Söngstíllinn var undarlegur, það var nánast eins og Bríet opnaði aldrei almennilega munninn þegar hún söng. Samhljóðar voru linir og loðnir og stundum var líkt og söngkonan syngi í gegnum nefið. Útkoman var sú að maður skildi varla nokkuð sem hún söng. Fyrir bragðið fór inntak laganna – sem voru fjölmörg – fyrir ofan garð og neðan.“
Jónas, sem gefur tónleikunum tvær og hálfa stjörnu af fimm mögulegum, segir að lögin sem Bríet flutti hafi verið keimlík og lítil fjölbreytni í útsetningum. Hann hrósar þó gestum Bríetar á tónleikunum, sem hann segir hafa verið með allt á hreinu, en þetta voru Högni Egilsson, Ásgeir Trausti, Valdimar og Birnir.
Jónas segir að hvítklæddur barnakór sem söng með Bríeti í nokkrum lögum hafi virkað bældur og söngurinn of lágstilltur.
Jónas segir að heildarútkoman hafi ekki verið sérstök og stemningin ekki heldur.
„Áheyrendur klöppuðu yfirleitt bara pent á eftir hverju lagi og húrrahróp hér og þar voru fyrst og fremst kurteisleg. Enginn stóð upp og dansaði. Manni leið eins og á virðulegum kammertónleikum.“
Segir hann tónleikana í heild hafa verið rislitla.