Í þættinum var meðal annars rætt um Kviss, spurningakeppni Björns Braga á Stöð 2. Þar keppti Hjálmar í haust fyrir hönd Fylkis og með honum í liði var Albert Brynjar Ingason, fyrrum knattspyrnumaður, sparkspekingur og stjórnandi hlaðvarpsins Gula Spjaldið.
Þeir félagar mættu þar liði Þróttar með Þorvald Davíð Kristjánsson og Vigdísi Hafliðadóttur innanborðs, en þurftu að sætta sig við tap.
„Djöfull hefði verið gaman að komast áfram í þessum þætti,“ sagði Hjálmar í Chess After Dark.
„Þú áttir ekki breik,“ skaut þáttastjórnandinn Birkir Karl Sigurðsson þá inn í.
„Ég átti breik, sá sem var með mér átti ekki breik,“ svaraði Hjálmar og átti þar auðvitað við Albert.
„Albert er góður vinur minn en þetta var kannski ekki hans sterkasta svið,“ sagði Birkir þá.
Björn Bragi tók þá til máls en hann fékk eftirminnileg skilaboð eftir að þátturinn fór í loftið.
„Ég fékk skilaboð frá fellow-Árbæingi: „Talar Albert ekki íslensku?“ rifjaði Björn Bragi upp og uppskar mikinn hlátur viðstaddra.