BHM og BSRB taka undir gagngrýni Eflingar, Eflingar-Iðju og Alþýðusambands Íslands ásamt öðrum stéttarfélögum innan þeirra vébanda, varðandi gervistéttarfélagið „Virðingu“. Þetta kemur fram í stuðningsyfirlýsingu þar sem rakið er að atvinnurekendur í veitingarekstri, Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) hafi stofnað stéttarfélag fyrir starfsfólk á veitingamarkaði. Slík ráðstöfun gangi gegn grundvallarreglum á vinnumarkaði. Meginreglan sé að launafólk stofni stéttarfélög sín, ekki að atvinnurekendur geri það sjálfir.
BHM og BSRB rekja að þegar eru í gildi kjarasamningar um störf í veitingahúsum. Þar sé að finna mörg ákvæði um réttindi sem hafa áunnist með áratugalangri baráttu launafólks. Það sé því ámælisvert að stéttarfélag fyrirtækja á veitingamarkaði, Virðing, hafi samið slík réttindi burt með „einu pennastriki til hagsbóta fyrir atvinnurekendur“. Virðing hafi meðal annars samið um verri launakjör, lakari orlofsrétt og uppsagnarrétt og fleira.
Félagagjald í Virðingu sé sambærilegt á við félagsgjald í önnur stéttarfélög. Engu að síður virðist félagsfólk Virðingar ekki ávinna sér sambærileg réttindi í sjúkrasjóði eða rétt til fræðslustyrkja eða annarra styrkja.
„Það er forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks í eiginhagsmunaskyni. Slíkt hefur ekki bara neikvæð áhrif á réttindi launafólks heldur rýrir einnig stöðu atvinnurekenda sem vilja standa heiðarlega að rekstri fyrirtækja sinna. Starfsfólk á veitingahúsum er að stórum hluta ungt fólk og fólk af erlendum uppruna, sem mikilvægt er að eigi málssvara í öflugu stéttarfélagi sem hefur burði til að standa vörð um réttindi þess.“