Ólafur Ágúst Hraundal, sem hlaut dóm í svokölluðu saltdreifaramáli, gagnrýnir harðlega fyrirkomulag Verndar. Hann segir leigukostnað íþyngjandi fyrir fanga og spyr hvort að Vernd sé einkarekið fangelsi dulbúið sem áfangaheimili.
„Vernd hefur verið hluti af íslensku samfélagi í meira en 60 ár. Í upphafi var áfangaheimilið hugsað sem leið fyrir fyrrverandi fanga til að aðlagast samfélaginu á ný, en í dag er spurningin hvort Vernd sé ekki orðin meira lík einkareknu fangelsi?“ segir Ólafur í aðsendri grein á DV í dag.
Gagnrýnir hann Fangelsismálastofnun fyrir að bjóða aðeins upp á eitt fyrirkomulag hvað varðar rafrænt eftirlit. „Hlutverk Verndar hefur þróast á þann hátt að fangar sem vilja nýta sér rafrænt eftirlit þurfa að vera vistaðir þar og greiða leigu fyrir vistina. Hvernig stendur á því að Fangelsismálastofnun getur gert þá kröfu að fangi borgi fyrir afplánun sína á Vernd og það sé eini kosturinn til að fangi komist á rafrænt eftirlit?“
Nefnir Ólafur að í upphafi, árið 1960, hafi félagasamtökin Vernd haft ákveðinn tilgang að norrænni fyrirmynd. Það er að styðja einstaklinga að lokinni afplánun, útvega þeim húsnæði, vinnu og sálfræðilega aðstoð. Að efla samhygð og skilning í samfélaginu á högum fanga og þeirra fjölskyldum.
„Fangar fá því miður ekki málefnalega meðferð þar sem tekið er tillit til aðstæðna hvers og eins,“ segir Ólafur. „Það er gríðarleg mismunun á milli fanga þegar kemur að búsetu þeirra á Vernd. Fangar sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu hafa betri möguleika á að viðhalda tengslum við fjölskyldu og samfélag sitt. Fangar sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins eru svo gott sem sviptir þeim möguleika að umgangast sína nánustu á meðan þeir dvelja á Vernd. Þetta er klár mismunun.“
Nefnir Ólafur þrjú ímynduð dæmi.
Fangi A er í takmörkuðu sambandi við fjölskyldu sína eða engu. Hann eigi í engin hús að venda og eigi erfitt með að fóta sig í lífinu, hann vanti vinnu og húsnæði til búsetu. Vernd henti honum fullkomlega til að koma undir sig fótunum.
Fangi B er búsettur fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Eina leiðin fyrir hann til að vera í sambandi við fjölskyldu sína er í gegnum síma eða tölvu. Hann geti ekki tekið þátt í daglegu lífi fjölskyldu sinnar, eða tengst því samfélagi sem hann ætlar að snúa aftur til. Hann sé í alveg sömu stöðu og þegar hann var í fangelsi þegar komi að samverustund með fjölskyldu sinni og því samfélagi sem hann ætli að búa í.
Fangi C er búsettur á höfuðborgarsvæðinu, er í góðum tengslum við fjölskyldu sína, getur tekið takmarkaðan þátt í daglegu lífi þeirra og á auðvelt með að halda tengslum við sitt samfélag. Þessi fangi eig fjölskyldu og rekur heimili með öllu tilheyrandi, hann eigi í fullu fangi með að greiða niður sakarkostnað og þær skuldir er hafa hlaðist upp í afplánun. Vernd hamli daglegum tengsl hans í lífi fjölskyldunnar og þá sérstaklega einni mikilvægustu stund dagsins, „úlfatímanum.“
Ólafur nefnir að til að komast í rafrænt eftirlit þurfi fangi að klára skyldubundna dvöl á Vernd, sama hvaðan af landinu hann kemur. En sú vist kostar 100 þúsund krónur á mánuði. Flest herbergin séu tveggja manna.
„Fyrir þá sem eiga fjölskyldu, reka heimili og eru jafnvel að greiða niður uppsafnaðan sakarkostnað er þetta mjög þungbær fjárhagslega byrði,“ segir Ólafur. „Þetta er klárlega ekki réttlát meðferð á skjólstæðingum og sýnir hversu langt Vernd hefur fjarlægst upphaflegan tilgang sinn.“
Spyr hann hvers vegna fangar þurfi að greiða fyrir vistun sína, það hljómi eins og ákveðin tegund þrælahalds. Í dag líti fangar á Vernd sem opið fangelsi en ekki áfangaheimili eins og Vernd telji sig vera. Þeir séu ekki aðeins sviptir frelsinu heldur skyldaðir til að taka þátt í sjálfboðavinnu hafi þeim ekki tekist að útvega sér atvinnu í dvölinni. Þeir séu skyldaðir til að greiða fulla leigu þrátt fyrir að hafa engar tekjur af sjálfboðavinnunni.