„Þeir hafa verið í fréttum í fjögur ár þessir hundar en ég hafði kynni af þeim árið 2022, þegar þeir drápu köttinn minn og kött fósturdóttur minnar á sama degi. Það var líka í desember, rétt fyrir jól, eins og núna,“ segir Davíð Jónsson, íbúi í Langholtshverfi. Davíð vill að tveir hundar af tegundinni Weimaraner verði teknir af eigendum sínum og settir á gott heimili, eigendurna, sem eru tvær rússneskar mæðgur, vill hann helst út úr hverfinu. Hundarnir eiga heimili sitt í húsi við Hrísateig.
„Þessir hundar drápu köttinn minn en samt hef ég ekkert illt um þá að segja, þeir eru bara illa upp aldri, þetta er eigendunum að kenna, hundarnir endurspegla eigendurnar,“ segir Davíð.
Mikið uppnám var meðal íbúa í Langholtshverfi í gærkvöld er hundarnir gengu lausir og er staðfest að þeir hafi drepið tvo ketti í gærkvöld. Hundarnir voru síðan teknir í vörslu Dýraþjónustu Reykjavíkur, en ekki er vitað um hvað verður um þá núna.
Davíð segir að hundarnir séu grindhoraðir og illa hirtir. T.d. séu þeir með um 3 cm langar klær. Þeir hafa árum saman valdið skelfingu í hverfinu með kattadrápum og árásum á fólk. Davíð greinir frá því þeir hafi ráðist á stúlkubarn og móðir stúlkunnar staðið á milli og komið í veg fyrir að þeir slösuðu barnið. Eldri maður hafi síðan verið blóðugur eftir þá er þeir hlupu hann niður.
Varðandi holdafar hundanna er rétt að hafa í huga að þessi tegund er að jafnaði holdgrönn. Þó má spyrja sig hvort þessir hundar séu óeðlilega horaðr. Hér að neðan er síðan mynd nöglum annars þeirra:
Um er að ræða veiðihundategund en Davíð telur að þessir tilteknu hundar hafi aldrei verið notaðir til veiða.
Davíð undrast að eigendurnir hafi fengið að hafa hundana áfram eftir öll þau ískyggilegu atvik sem orðið hafa vegna þeirra á undanförnum árum. Þess má geta að umræður í íbúahópi Langholtshverfis á Facebook um framferði hundanna í gærkvöld stóðu yfir til kl. 4 í nótt og fólki var illa brugðið.
„Þegar ég frétti af þessu í gærkvöld smalaði ég saman köttunum mínum í panik og náði að koma þeim öllum þremur inn í hús,“ segir Davíð. Hann er langþreyttur á ástandinu vegna drápshundanna sem hafa verið margsinnis tilkynntir til lögreglu og MAST.
„Einhver er ekki að vinna vinnuna sína,“ segir hann.
DV hefur fengið ábending um að hundarnir séu ekki af tegundinni Weimaraner heldur séu ungverskir Viesla.