Morðið vakti mikla athygli og náðist á eftirlitsmyndavél, en á henni sést hvernig grímuklæddur morðinginn bíður eftir Brian og skýtur hann í bakið með skammbyssu með hljóðdeyfi.
UnitedHealthCare er stærsti söluaðili sjúkratrygginga í Bandaríkjunum og þótti blómstra með Thompson sem leiðtoga. Sjúkratryggingakerfið í Bandaríkjunum, sem er að mestu í höndum einkaaðila á borð við UnitedHealtCare, er verulega umdeilt. Tryggingar eru rándýrar og jafnvel þeir sem telja sig vel tryggða lenda í því að fá neitun frá tryggingafélögum sínum þegar á þarf að halda.
Luigi virðist hafa borið raunverulegt hatur í brjósti í garð Brians og í umfjöllun Mail Online er frekara ljósi varpað á Luigi Mangione og sögu hans.
Hann er sagður hafa „misst vitið“ eftir að hafa gengist undir sársaukafulla aðgerð á baki eftir að hann slasaðist illa á brimbretti. Hann er sagður hafa glímt við króníska verki eftir aðgerðina og leitað ýmissa leiða til að minnka sársaukann, og til dæmis notað ofskynjunarlyf í þeim tilgangi.
CNN hefur eftir fyrrverandi herbergisfélaga Mangione, R.J. Martin, að síðast hafi hann frétt af Mangione þegar hann sagðist vera á leið til Hawaii til að freista þess að ná fyrri styrk. Slysið hafi verið mikið áfall fyrir hann og rifjaði Martin upp að Mangione hafi sent honum röntgenmyndir af bakinu eftir aðgerðina sem hann gekkst undir. „Þetta var hrikalegt, það voru stórar skrúfur út um allt í bakinu á honum.“
New York Post segir frá því að aðstandendur Mangione hafi haft miklar áhyggjur af honum og hann hafi lítið sem ekkert látið í sér heyra undanfarnar vikur og mánuði. Varð það til þess að fjölskylda hans tilkynnti til lögreglu að hans væri saknað þann 18. nóvember síðastliðinn.
Fjölskylda hans sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem fram kemur að henni sé mjög brugðið vegna frétta af handtöku hans. „Við biðjum fyrir aðstandendum Brian Thompson og biðjum fólk um að biðja fyrir öllum sem eiga um sárt að binda vegna málsins.“
Mangione var ákærður fyrir morð skömmu eftir handtökuna í gær og virðist lögregla viss í sinni sök um að hann sé maðurinn sem hún hefur leitað að síðustu daga.
Í fréttum bandarískra fjölmiðla kemur fram að í fórum hans í gær hafi fundist yfirlýsing þar sem hann tíundar ástæður morðsins. Er hann sagður benda á að UnitedHealthcare sé moldríkt fyrirtæki og metið á 515 milljarða Bandaríkjadala. Hefur það verið sett í samhengi við harða gagnrýni sem UnitedHealtcare hefur fengið á sig að undanförnu en félagið hefur til dæmis verið sakað um að notfæra sér algrím eða gervigreind til að neita alvarlega veikum einstaklingum um meðferð.
Mangione er sem fyrr segir 26 ára gamall og er hann sagður hafa verið góður nemandi, efnilegur íþróttamaður og heilsteyptur einstaklingur fyrir slysið. Hann var í glímuliði Gilman-skólans í Baltimore árið 2016, þar sem skólagjöldin eru nokkrar milljónir króna á ári, og þá lauk hann námi í Pennsylvaníuháskóla sem er í hópi svokallaðra Ivy League-skóla í Bandaríkjunum. Sem fyrr segir virðist hann hafa dregið sig verulega í hlé síðustu mánuði og er meðal annars vitnað til færslna vina hans á samfélagsmiðlinum X í umfjöllun Mail Online.
„Hey, er allt í lagi með þig? Það hefur enginn heyrt í þér í nokkra mánuði og fjölskyldan þín er víst að leita að þér,“ skrifaði einn af vinum hans til hans þann 30. október síðastliðinn.
Mangione er í haldi lögreglu og gæti hann átt lífstíðarfangelsi yfir höfði sér verði hann fundinn sekur um morðið.