Í Kópavogi var tilkynnt um umferðarslys þar sem bifreið hafði verið ekið utan í vegrið. Ökumaðurinn hafði yfirgefið bifreiðina í kjölfarið og látið sig hverfa, en lögregla var við störf á vettvangi þegar ökumaðurinn kom til baka. Hann var handtekinn á vettvangi, grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og var hann vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.
Í hverfi 113 var tilkynnt um umferðarslys þar sem bifhjóli og jepplingi var ekið saman. Ökumaður bifhjólsins hlaut minniháttar meiðsli. Á Kjalarnesi var svo tilkynnt um eld í bifreið og var hún alelda þegar slökkvilið kom á vettvang.
Í Árbæ var svo tilkynnt um tvo einstaklinga sem höfðu komið sér fyrir í geymslu húsnæðis í hverfinu og höfðu þeir kveikt eld til að ylja sér. Var einstaklingunum vísað út án vandræða. Í sama hverfi voru svo tveir handteknir eftir að átök brutust út á milli þeirra í heimahúsi. Þeir voru vistaðir í fangaklefa og er málið í rannsókn.
Loks barst tilkynning um öskur kvenmanns koma frá íbúð í umdæmi lögreglustöðvar 4. Lögregla sinnti útkallinu en öskrin reyndust vera „á heldur jákvæðari nótum“ en óttast var um í fyrstu að því er segir í skeyti lögreglu.