Ný bandarísk rannsókn beindist að þessu en rúmlega 10.000 manns tóku þátt í henni og var fylgst með heilsufari þess í 13 ár.
Niðurstaðan var að það getur verið mjög góð hugmynd að drekka kaffi samhliða því sem setið er.
B.T. hefur eftir Kjeld Hermansen, prófessor og einum helsta sérfræðingi Dana í rannsóknum á áhrifum kaffis á líkamann, að um litla rannsókn sé að ræða en niðurstaðan sé athyglisverð því hann viti ekki til að þessi þáttur hafi verið rannsakaður áður.
Samkvæmt rannsókninni, þá eru dánarlíkur þeirra, sem sitja í meira en sex klukkustundir á dag og drekka ekki kaffi, 58% meiri en dánarlíkur þeirra sem sitja skemur en sex klukkustundir og drekka kaffi.
Hermansen benti á að frekari rannsókna sé þörf á þessu sviði áður en hægt sé að draga þá ályktun að niðurstaða rannsóknarinnar sé rétt.
„Miðað við niðurstöður rannsóknarinnar, virðist sem það sé hægt að vinna gegn áhrifum kyrrsetu með því að drekka kaffi en þar er þörf á meiri vitneskju um þetta,“ sagði hann.
Hann sagði það styrkja rannsóknina að mikil vinna hafi verið lögð í að fjarlægja ýmsa þætti úr henni. Til dæmis hafi verið tekið tillit til ofþyngdar, tekna, reykingar og hvort fólk var með krabbamein eða aðra sjúkdóma.