Þetta kom fram fyrir dómi í Englandi á mánudaginn en réttarhöld yfir Saadi standa nú yfir.
The Guardian segir að þegar Saadi var að undirbúa morðið hafi hann spurt kennara sína svo margra spurninga um hvernig lögreglan hefur upp á grunuðum að einn kennaranna hafi spurt hann hvort hann væri að undirbúa morð.
Þegar lögreglan handtók hann á heimili hans í Lundúnum fannst fjöldi hnífa og öxi. Hann er ákærður fyrir að hafa orðið íþróttakennaranum Amie Gray, 34 ára, að bana og að hafa reynt að myrða vinkonu hennar, Leanne Miles.
Saadi, sem er tvítugur, sagði lögreglunni að hann væri heillaður af alvöru glæpum og hefði verið í Bournemouth þegar ráðist var á konurnar. Hann þvertók þó fyrir að hafa komið nærri árásunum á þær.
Hann hefur haldið fast í það fyrir dómi að hann hafi ekki komið nálægt morðinu og árásinni á Miles.
Saksóknari sagði fyrir dómi að Gray og Miles hafi kveikt varðeld á ströndinni í Durley Chine föstudaginn 24. maí. Þær hafi setið við eldinn og átt góða stund saman. Síðan hafi Saadi gengið að þeim með hníf í höndinni. Hann hafi síðan stungið þær báðar margoft og elt þær þegar þær reyndu að flýja. Hann hafi síðan skilað þær eftir blæðandi á ströndinni og ætlað þeim að blæða út.
„Það virðist sem hinn ákærði hafi viljað vita hvernig það væri að verða manneskju að bana. Kannski vildi hann vita hvernig það væri að hræða konu. Kannski hélt hann að þetta myndi láta honum líða eins og hann væri öflugri, gera hann áhugaverðan í augum annarra,“ sagði saksóknarinn einnig.