Í lok febrúar árið 2023 kærði hestasjónvarpsstöðin Alendis ehf. fyrrverandi framkvæmdastjóra sinn, Ragnar Braga Sveinsson, til embættis héraðssaksóknara fyrir fjárdrátt, fjársvik og brot gegn refsiákvæðum um einkahlutafélög. Ragnari var sagt upp störfum hjá félaginu í ágústmánuði árið 2023.
Samkvæmt heimildum DV lá málið lengi óhreyft hjá héraðssaksóknara en hefur verið í fulltri rannsókn að undanförnu. DV fjallaði um þetta mál í apríl árið 2023 en þá hafði Ragnar stefnt félaginu og krafið það um tæpar sjö milljónir króna fyrir vangoldin laun í uppsagnarfresti, orlof, endugreiðslu á lánum til fyrirtækisins, árangurstengdar bónusgreiðslur og miskabætur.
Er málarekstur Ragnars á hendur var komin á fyrirtökustig þá felldi hann málið niður. Það breytti engu um það að kæran á hendur honum er til rannsóknar hjá héraðssaksóknara. Kæran er ítarleg og í henni eru reifaðar mjög alvarlegar ásakanir, meðal annars um þjófnað á verkefnum. Á meðan Ragnar var framkvæmdastjóri Alendis stofnaði hann fyrirtækið Aðdrátt. Segir í kærunni að hann hafi látið færa rafræna greiðslugátt yfir til Aðdráttar og hafi í sjö skipti dregið sér fyrir hönd Aðdráttar rúmlega 30 milljónir króna. Hann hafi síðan greitt Alendis til baka tæplega 24 milljónir en haldið eftir rúmlega 6,5 milljónum.
Í annan stað er Ragnar sakaður um að hafa samið um verkefni fyrir hönd Aðdráttar við aðila sem töldu sig vera að semja við Alendis og þannig sölsað undir sig verðmæt verkefni á sviði sjónvarpsefnis um hestaíþróttir. Nemur þessi meinti verkefnastuldur samtals yfir 100 milljónum króna, að mati kærenda.
Alendis sakar Ragnar um að hafa dregið sé rúmlega 4,3 milljónir króna af fjármunum Alendis og notað í eigin þágu. Meðal útgjalda sem falla undir þetta er flugferð Ragnars með fjórum vinum sínum til London fyrir 230 þúsund krónur. Þar lét Ragnar félagið ennfremur greiða fyrir sig hótelherbergi fyrir rúmlega 38 þúsund krónur.
Þá er hann sakaður um að hafa látið Alendis kaupa fyrir sig flug og gistingu innanlands fyrir rúmlega 90 þúsund krónur.
Ennfremur er hann sakaður um að hafa látið Alendis kaupa fyrir sig tvo farsíma af dýrustu gerð og athygli vekur reikningur fyrir parket og lagningu þess upp á rúmlega 540 þúsund krónur. Ekkert slíkt parket sé á starfsstöð Alendis og má leiða líkur að því að parketið hafi verið lagt á heimili Ragnars.
Hann er einnig sakaður um að hafa látið fyrirtækið greiða fyrir sig veggjaklæðningu, innimálningu, skáp, vask og ýmislegt fleira sem aldrei nýttist á starfsstöð Alendis, þar á meðal þurrkara og uppþvottavél.
Ragnar er ennfremur sakaður um að hafa reynt að fá Hugverkastofu til að skrá nafn Alendis sem hans persónulegu eign. Hann er ennfremur sakaður um að hafa lagt fjárhag Alendis í rúst þann tíma sem hann var framkvæmdastjóri félagsins og hafa gert meðeigendum og stjórn litla grein fyrir stöðu mála í rekstrinum.
Auk Ragnars eru þrír samstarfsmenn hans kærðir fyrir meinta hlutdeild í meintum brotum hans. Alendis krefst refsingar yfir hinum kærðu og áskilur sér að gera einkaréttarlegar kröfur á hendur þeim.