Viðbjóðslegar kjaftasögur – Hótað ofbeldi – „Ég tek honum eins og hann er“
„Ég er bæði að gjalda fyrir það sem hann hefur gert og líka það sem er ekki víst að hann hafi gert. Fólk má hafa í huga að hver og einn er saklaus uns sekt sannast,“ segir Sara Lind Annþórsdóttir sem í gegnum tíðina hefur þurft að sitja undir miklum aðdróttunum og fordómum frá fólki. Hún kveðst vera orðin nánast ónæm fyrir kjaftasögum sem dynji á henni nánast daglega, ókunnugir kalla á eftir henni niðri í bæ og senda henni skilaboð á Facebook þar sem innihaldið er ekki fallegt. Hún er sögð vera útúrdópuð morðingjadóttir sem gangi um og berji fólk. Ástæðan er faðir hennar.
Sara Lind er dóttir Annþórs Kristjáns Karlssonar sem hefur ósjaldan verið á milli tannanna á fólki síðastliðin ár vegna ofbeldis og fíkniefnaglæpa og hefur hann meðal annars fengið viðurnefnið „Handrukkari Íslands.“ Seinna í vikunni verður dæmt í máli Annþórs og Barkar Birgissonar sem ákærðir hafa verið fyrir að hafa orðið Sigurði Hólm að bana. Tæplega fjögur ár eru liðin frá því að Sigurður fannst látinn í klefa sínum. Hefur mikið verið fjallað um málið í fjölmiðlum síðustu mánuði.
Þegar Sara var yngri vissi hún ekki alltaf að pabbi hennar væri þekktur glæpamaður. Hún ólst upp hjá móður sinni í Hafnarfirði. „Ég man fyrst eftir því að ég var 9 ára og var að hoppa á trampólíni með bestu vinkonu minni. Allt í einu segir hún : „Hvernig finnst þér að pabbi þinn er að fara í fangelsi? Mamma var að segja mér að hann væri að fara í fangelsi af því að hann var berja einhvern.“ Ég vissi ekkert um hvað hún var að tala, bíddu, var pabbi minn að fara í fangelsi? Ég kom heim hágrátandi og mamma hringdi í foreldra vinkonunnar sem höfðu þá verið að ræða um pabba fyrir framan hana.“
Í grunnskóla mátti Sara þola fleiri athugasemdir frá skólafélögunum sem höfðu heyrt talað heima hjá sér um „pabba Söru sem væri hættulegur glæpamaður í fangelsi.“ Mamma hennar lagði sig fram við að Sara myndi ekki sjá og heyra neikvæðan fréttaflutning af pabba sínum. „Til dæmis ef ég var hjá einhverjum og fréttirnar voru að koma í sjónvarpinu þá hringdi mamma þangað og bað um að annað hvort væri slökkt á sjónvarpinu eða ég send heim.“
Sara segir að mesta eineltið hafi átt sér stað upp úr sjötta bekk. „Ég man að einu sinni kom einhver með Séð og Heyrt í skólann þar sem var verið að fjalla um pabba og auðvitað vissu allir að þetta var pabbi minn. Foreldrar voru líka að banna krökkunum sínum að gista hjá mér, jafnvel þó pabbi væri ekki þar heldur bara ég og systkini mín. Skólinn lagði til að ég myndi breyta eftirnafninu mínu og notast við nafnið hennar mömmu en ég tók það ekki í mál.“
Eftir grunnskólann fór Sara úr Hafnarfirðinum. Hún flúði allt umtalið og baknagið. Hún flakkaði á milli nokkurra skóla en slúðrið og kjaftasögurnar voru alveg jafn mikið til staðar í Reykjavík. „Ég var um tíma í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Ég varð fyrir því að stelpa réðst á mig á árshátíð og mín viðbrögð voru að kýla hana í varnarskyni. Ég var tekin til skólastjórans sem sagði: „Sara mín, þú verður nú að passa mannorðið þitt betur en aðrir, þú ert Annþórsdóttir.“ Síðan gerðist það að pabbi var gerður að einhvers konar viðfangsefni í tíma í afbrotafræði. Það átti að stúdera það sem hann hafði gert af sér og skrifa ritgerðir. Þá gat ég þetta ekki og hætti.“
Kjaftasögurnar og fordómarnir héldu áfram að malla næstu árin, og gera enn. Sara hefur fengið að heyra ótrúlegustu hluti; sumar sögurnar eru svo lygilegar að það er nánast fyndið. Hún er þekkt sem „Annþórsdóttir.“ Hún segir að þegar starfsfólk hjá til að mynda bönkum og Félagsmálastofnun hafi komist að því hvers dóttir hún er þá hafi allt viðmót þeirra breyst um leið.
„Þegar fólk er farið að mynda sér skoðanir á mér eingöngu útfrá því að ég sé Annþórsdóttir þá finnst mér það ekki í lagi. Fólk gerir alltaf ráð fyrir að af því ég er Annþórsdóttir þá sé ég algjör sori.“
Hún hefur ekki tölu yfir allar sögurnar. Þær gætu eflaust fyllt bók. Hún segir að þær hafi orðið enn fleiri og svæsnari síðast þegar pabbi hennar var handtekinn. „Ég hef heyrt sögur utan úr bæ að ég hafi verið útúrdópuð, að fólk sé hrætt við mig af því að ég sé alltaf að hóta öllum og berja alla. Fólk hefur hringt í pabba og logið að ég sé að reykja gras. Einu sinni kom ég til til Grindavíkur um sjómannhelgi og það var gerð fíkniefnaleit í bílnum mínum út af einhverri nafnlausri ábendingu og auðvitað var þetta bara lygi. Sömu helgi var ég í bílalúgu að fá mér að borða þegar fullorðin kona reif mig á hárinu út um gluggann á bílnum mínum. Ég hef líka heyrt að ég sé að keyra skósveina pabba míns um allan bæ með fíkniefni, hvað svo sem það þýðir.“
„Ég var á Þjóðhátíð, um það leyti sem það hafði verið í fréttum að pabbi væri grunaður um morð og stelpa hótaði að berja mig. Fjölskylda kom og sagði við mig að pabbi hefði drepið frænda þeirra.“
Fyrir nokkrum mánuðum sat ég uppi í bíl hjá vini mínum og bílstjórinn þar hótaði að brjóta á mér fæturna ásamt fleiri hlutum. Ég vissi ekkert hver þetta var og ég lamaðist bara af hræðslu. Síðan kom í ljós að hann tengdist pabba á einhvern hátt,“ segir hún og bætir við að eftir að pabbi hennar var ákærður fyrir morð hafi hún einnig fengið viðurnefnið „morðingjadóttir“ og var það kallað á eftir henni í hvívetna. „Skilaboðin sem ég fengið á Facebook eru líka viðbjóðsleg. Það er náttúrulega bara einn Annþór til í heiminum þannig að fólk fattar strax að ég er dóttir hans þegar það sér nafnið mitt.“
„Ég tek þetta allt rosalega nærri mér. Ég fer ekki að gráta, ekki lengur, en ég er þannig gerð að ég þarf alltaf að standa upp fyrir mig og mína. Ég er alltaf að verja fólkið í kringum mig, og þá auðvitað helst pabba.“
Sara segir að hún hafi þó gott stuðningsnet á bak við sig. „Ég er svo heppin að ég rosalega margar góðar vinkonur sem standa þétt á bak við mig. Það er ótrúlegt hvað þær hafa endalaust þurft að taka hanskann fyrir mig í gegnum tíðina. Þegar fólk spyr þær hvort ég sé sé í neyslu eða rugli eða svona hinsegin þá hlæja þær bara. Þær vita alveg hvernig ég er.“
„Og ég veit að pabbi harmar að ég þurfi að sitja undir þessu öllu. Honum finnst það hræðilegt. Þegar mér var hótað að láta brjóta á mér fæturna sat hann í einangrun og vissi ekki einu sinni af því.“
Sara segist upplifa það þannig að stelpur séu hræddar við hana. Henni finnst líka eins og strákar þori ekki að reyna við hana af ótta við föður hennar; þeir séu hræddir við að pabbi hennar muni lumbra á þeim. Hún óskar þess að fólk muni ekki búa til fyrirfram ákveðna ímynd af henni.
„Ég er 21 árs, var að ljúka snyrtifræðinámi og var að kaupa mér mína fyrstu íbúð. Ég hef aldrei svo mikið sem tekið smók af sígarettu. Ég hef aldrei og ég mun aldrei snerta fíkniefni, enda held ég að þá fyrst myndi pabbi brjálast,“ segir hún og minnist á langa fyrirlestra um skaðsemi fíkniefna sem hún hefur fengið frá pabba sínum.
„Mig langar svo að fólk viti að ég er góð manneskja, þó ég segi sjálf frá, ég hef alltaf, alveg frá því ég var lítil lagt mig fram við að hjálpa þeim sem minna mega sín. Ég er týpan sem sér að einhverjum er kalt niðri í bæ og býð viðkomandi far. Þeir sem þekkja mig vita hvernig ég er enda kemur það fólki alltaf jafn mikið á óvart þegar það kynnist mér og sér að ég er ekki útúrdópuð allar helgar og berjandi fólk út um allt. Þá segir það hluti eins og: „Vá, ég vissi ekki að þú værir svona, það voru allir búnir að segja að þú værir svo hættuleg!“
Sara segist ekki vera sú eina úr fjölskyldunni sem þurfi að sitja undir fordæmingu fólks. „Mamma og pabbi voru náttúrulega kornung þegar þau byrjuðu saman, þau voru bara 14 ára. Í gegnum tíðina, þegar mamma hefur kynnst öðrum mönnum þá hefur fólk spurt hana hvort pabbi minn sé búin að gefa viðkomandi leyfi, hvort hann ætli ekki núna að berja gaurinn? Eins og mamma sé einhver eign manns sem hún var með fyrir löngu síðan.“
„Það er eins með núverandi konuna hans pabba. Hún er yndisleg, heilbrigð og ósköp venjuleg kona,. Þegar hún byrjaði með pabba fyrir einhverjum sjö eða átta árum sagði önnur kona við hana: „Mig grunaði hvort sem er að þú værir ónýtt spítthóra sem dópar upp börnin sín“ segir Sara og er augljóslega mikið niðri fyrir. „Hver segir svona? Þetta sagði hún í alvöru, fullorðin kona. Eins hef ég sjálf verið spurð að því hvort pabbi sé með einhverri konu og þegar ég svara játandi þá segir fólk: „Nú, er hún þá ekki bara eitthvað snargeðveik?“
Einhverjir kunna að spyrja sig hvort Sara sé að réttlæta gjörðir föður síns. Væri ekki rétt að hugsa um fórnarlömbin í málunum sem hann snerta?
„Allt sem pabbi minn hefur gert, það snertir alltaf fólk sem hefur verið að gera það sama, bara við minna fólk. Hann fer ekki bara og ræðst á einhvern út af engu, eins og hann gerði áður fyrr. Hann fer út í Bónus og ber pokana fyrir gamla konu. Seinast þegar hann var ekki í fangelsinu fór hann og keypti úlpu handa rónum niðrí í bæ af því að það var svo kalt úti. Hann hleypir fólki fram fyrir í röðum og það er ekki eins og hann sé með stæla og leiðindi við ókunnugt fólk niðri í bæ. Þú þarft að gera eitthvað virkilega slæmt á hans hlut og vera mjög ósanngjarn,“ segir Sara og bætir við:
„Hann er með rosalega mikla réttlætiskennd en þessi siðblinda hans kemur fram þegar eitthvað er gert á hlut þeirra sem hann er annt um. Þeir sem hafa lent í útistöðum við hann eru ekki endilega saklaust fólk. Þú elskar foreldra þína og börn og systkini, alveg sama hvað.“
„Ég vil líka benda á það að fólk hefur miklu fleiri góðar sögur af pabba að segja heldur en slæmar. Þessar sögur fá bara aldrei að heyrast. Ég hef fengið skilaboð frá fólki sem segir að pabbi hafi bjargað lífi þeirra, komið að bílslysum og hjálpað fólki. Ég sá eina konu skrifa um það að pabbi hefði reynst henni vel á tímabili þegar enginn annar gerði það.“
Sara segist oft vera spurð hvernig það sé að eiga pabba sem sé dæmdur ofbeldisglæpamaður.
„Ég sé hann sem pabba, ekki sem glæpamann. Ég þekki ekki annað en að pabbi minn sé svona og ég tek honum eins og hann er. Sambandið okkar er afskaplega gott og ég tala við pabba eins og ég tala við bestu vinkonur mínar.“
„Nýlega hringdi pabbi í mig til þess eins að segja: „Ég hef engan tíma en mig langaði bara að segja að ég elska þig og góða nótt.“ Hann sagði við mig um daginn að ef hann ætti eina ósk þá væri það að eiga hús og að það væri íbúð í húsinu sem ég byggi í, og að fjölskyldan kæmi alltaf saman í mat á sunnudögum. Þar myndu allir vera velkomnir. Þetta var svo einlægt og hann var svo mikið að meina þetta.“
„Ég gæti óskað mér betri pabba og myndi ekki vilja breyta honum á neinn hátt því að hann er góður pabbi þó svo að hann eigi sína sögu og sé fangi. Ég ræð ekki hvaða ákvarðanir hann tekur í lífinu eða hans afleiðingum.“