fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Óheilindamaðurinn Bjarni Ben

Eyjan
Mánudaginn 9. desember 2024 06:00

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Benediktsson og nokkrir aðrir innstu koppar í búri Sjálfstæðisflokksins, Jón Gunnarsson o.fl., hafa verið nátengdir Kristjáni Loftssyni í Hval. Hafa þeir stutt hann og hans hvalveiðar – sem fyrir öllum sem til þekkja eru villimannlegt dýraníð – með ráði og dáð, enda er sagt að D hafi fengið góðan fjárstuðning fyrir.

Í hópi stuðningsmanna eru greinilega líka Þórdís Kolbrún og Áslaug Arna. Háþróuð, lifandi spendýr sprengd og tætt, limlest til dauða, ekkert mál fyrir sjálfsumglaðar Sjálfstæðiskonur. Kvenlegt tilfinninganæmi þar á lágu stigi. Þær, einkum Þórdís Kolbrún, reyna svo að beita rökum fyrir stuðningi sínum við dýraníðið, sem fáir skilja, sennilega ekki einu sinni þær sjálfar.

Við þetta bætist að ættmenni Bjarna hafa verið tengd Hval, verið hluthafar og/eða hagsmunaaðilar þar, t.a.m. var föðurbróðir Bjarna, Einar Sveinsson, stjórnarformaður Hvals.

Forkastanleg misnotkun valds

Flestir hefðu talið að samband Bjarna við Hval væri svo náið að hann – sem stjórnmála- og valdamaður – væri ekki hæfur til að fara með málefni félagsins, hvað þá að veita þeim harðlega umdeilt og krítískt veiðileyfi.

Allra sízt gæti slíkt gerzt í starfsstjórn þar sem stjórnarflokkarnir hans, D og B, voru að enda við að tapa 10 þingsætum í kosningum, og hafa nú aðeins 19 þingsæti af 63 á bak við sig. Höfðu glatað öllu trausti og standa í raun uppi algjörlega umboðslausir.

Við bætist, að flokkarnir sem unnu þingkosningarnar, S, C og FF, með 36 þingsætum, munu væntanlega mynda nýja ríkisstjórn fljótlega, eru þar með verðandi valdhafar og hafa allir lýst yfir andstöðu við hvalveiðar.

Það bætist svo við, að starfshópur, sem var skipaður af Katrínu Jakobsdóttur, hefur það verkefni að skoða og gera heildstæða úttekt á hvalveiðum, lagaumhverfi þeirra, bæði með tilliti til veiðanna (sem er frá 1949) og velferðar dýranna, mun skila niðurstöðum í febrúar nk.

Hér skal líka rifjað upp, að síðasta skoðanakönnun Maskínu sýnir að 51% þjóðarinnar er andvígt hvalveiðum en aðeins 29% hlynnt. Skyldi Bjarna varða eitthvað um skoðanir og vilja fólksins í landinu?

Allir menn með lágmarks sómakennd, eða grundvallar ábyrgðartilfinningu, allir ábyrgir og heiðarlegir menn, hefðu því látið leyfisumsókn Hvals bíða afgreiðslu þar til ný og réttkjörin ríkisstjórn hefði tekið við og/eða niðurstaða hefði fengizt frá starfshópnum um stöðu og framtíð hvalveiða.

Fyrir veiðarnar sjálfar – ef leyfi hefði þá yfir höfuð verið veitt af réttum valdhöfum – hefði þetta engu máli skipt þar sem undirbúningur þarf ekki að hefjast fyrr en í marz/apríl, en veiðarnar hafa venjulega hafizt seint í júní.

Undirritaður treystir því að ný ríkisstjórn muni draga til baka þessa leyfisveitingu, sem annars vegar stenzt stjórnarfarslega illa eða ekki, og hins vegar er vondur þefur klíkuskapar og spillingar af.

Dýraníð

Þann 8. maí í fyrra birti MAST skelfilega skýrslu um hvalveiðar sumarið 2022, kolsvarta skýrslu sem sýndi að lífið hafði verið murkað úr 41% dýranna, með fólskulegum- og skelfilegum hætti, stórfellt og hryllilegt dýraníð á háþróuðum spendýrum framið, en hvalir eru sambærilegir við fíla meðal landdýra að allri gerð, skyni, tilfinningum og lífsháttum.

Fór um alla góða menn, sem skoðuðu þessa skýrslu. Grétu sumir, en þó greinilega ekki Bjarni Ben. Um þessa skýrslu varðaði hann greinilega lítið, hvað þá um hryllilegar limlestingar og kvalræði háþróaðra dýra.

Ekki hef ég séð hversu margar hvalkýr voru drepnar, en sumar þeirra hafa verið með kálf í kviði og aðrar með lifandi kálf sér við hlið sem hefur veslast upp og soltið í hel við dráp móður.

Skýrsla MAST for svo formlega til Fagráðs um velferð dýra 22. maí, og kom niðurstaða frá Fagráði 16. júní:

„Niðurstaða ráðsins var sú, að sú veiðiaðferð, sem beitt er við veiðar stórhvela, samrýmist ekki ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra.“ Var dýraníðið þannig staðfest.

Gaf ráðið jafnframt til kynna að það telji að ekki sé hægt að bæta svo úr, með núverandi skipum, tólum og veiðiaðferðum, að veiðar geti samræmst þessum lögum.

Í gamla daga, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var og hét, var sannur Sjálfstæðisflokkur, víðsýnn, frjálslyndur, umburðarlyndur og mannlegur, stétt-með-stétt var eitt helzta kjörorðið, stóð ég með Sjálfstæðisflokknum.

Nú er hins vegar svo komið að ég hef fengið megnustu óbeit á flokknum, stefnu hans og framgöngu, mest vegna Bjarna Benediktssonar yngri, sem fyrir mér er spilltasti og siðlausasti – ósvífnasti – stjórnmálamaður landsins. Hreinn þrjótur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu