Jamie Carragher, goðsögn Liverpool, er með ráð fyrir Trent Alexander-Arnold sem spilar með liðinu í dag.
Carragher hvetur Trent til að skrifa undir nýjan samning á Anfield en hann verður frjáls ferða sinna næsta sumar og má ræða við önnur félög í janúar.
Real Madrid er að horfa til enska landsliðsmannsins og gæti mögulega boðið í leikmanninn í janúar en sú upphæð væri ekki nálægt 90 milljónum punda.
Carragher telur að Trent eigi að skrifa undir nýjan samning með kaupákvæði sem gerir Real kleift að kaupa hann næsta sumar og þar með myndi bakvörðurinn hjálpa uppeldisfélaginu.
,,Trent á að vera elskaður sama hvað gerist en hann fær meiri virðingu ef hann fer í sumarglugganum,“ sagði Carragher.
,,Strákarnir frá Liverpool fá öðruvísi meðferð en stjörnur erlendis. Það er svo einfalt.“
,,Trent verður harðlega gagnrýndur ef hann fer á frjálsri sölu því verðmiðinn á honum er um 90 milljónir. Ef ég get gefið honum eitt ráð þá er það að skrifa undir samning með sanngjörnu kaupákvæði.“
,,Ef Real sýnir honum áhuga í framtíðinni þá gæti Liverpool grætt á sölunni og Trent verður talinn besti hægri bakvörður í sögu Liverpool!“