fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Tilfærsla á rekstri Fríhafnarinnar í uppnámi

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 7. desember 2024 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýlega tilkynnti Isavia að í kjölfar útboðs hefði verið ákveðið að fela þýska fyrirtækinu Heinemann að taka að sér rekstur Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Myndi þá þýska fyrirtækið taka við rekstrinum af dótturfélagi Isavia, Fríhöfninni ehf. Heinemann átti að taka við rekstrinum í mars næstkomandi og samningurinn að vera til átta ára en nú er ferlið komið í ákveðið uppnám þar sem útboðið hefur verið kært til Kærunefndar útboðsmála.

Það eru Víkurfréttir sem greina frá þessu og vitna í umfjöllun FF7 sem sérhæfir sig í fréttum af málefnum sem tengjast ferðaþjónustu.

Í tilkynningu Isavia 20. nóvember síðastliðinn, um að Heinemann hefði orðið hlutskarpast í útboðinu, var tekið fram að gengið yrði til samninga við fyrirtækið að tveimur vikum liðnum, sem væri sá tími sem þeir aðilar sem biðu lægri hlut í útboðinu hefðu til að gera athugasemdir við niðurstöðu þess.

Þar sem ljóst er að einhver þessara aðila, sem í þessu tilfelli eru þrír, nýtti sér þennan rétt sinn verður því bið á að Isavia ljúki samningum við Heinemann.

Í frétt Víkurfrétta kemur fram að Isavia hafi veitt þau svör að málið sé einfaldlega í ferli hjá nefndinni. Enn fremur kemur fram og þá aftur vitnað í FF7 að Fríhöfnin hafi keypt inn vörur af íslenskum birgjum fyrir um sex milljarða króna. Í fréttinni segir einnig að mjög stór hluti tekna þessara birgja Fríhafnarinnar komi frá sölu varnings til félagsins eða frá 30 til 50 prósent. Heinemann kaupi hins vegar almennt inn vörur í gegnum vörulager sinn í Þýskalandi. Þýska fyrirtækið rekur fríhafnarverslanir á öðrum alþjóðaflugvöllum, meðal annars Kastrup og Gardemoen.

Að vera á íslenskum flugvelli

Í tilkynningu Isavia í síðasta mánuði, þegar greint var frá niðurstöðum útboðsins á rekstri Fríhafnarinnar, var hins vegar haft eftir Guðmundi Daða Rúnarssyni, framkvæmdastjóra viðskipta og þróunar á Keflavíkurflugvelli, að í útboðsferlinu hafi verið lögð mikil áhersla á að gestir á flugvellinum finni fyrir því og upplifi það hjá nýjum rekstraraðila að þeir séu á flugvelli á Íslandi þegar þeir fari um fríhafnarverslanirnar í Leifsstöð. Einnig er haft eftir Guðmundi Daða að í útboðinu hafi meðal annars komið fram að ein leið til þess væri að leggja mikla áherslu á íslenskar vörur í fríhafnarverslununum.

Það virðist því ekki hafa verið beint skilyrði af hálfu Isavia að sá aðili sem samið yrði við um rekstur Fríhafnarinnar myndi leggja áherslu á sölu á íslenskum vörum. Það er hins vegar vandséð hvaða önnur leið væri fær til að viðskiptavinir Fríhafnarinnar myndu upplifa það hjá hinum nýja rekstraraðila að þeir væru sannarlega staddir á íslenskum flugvelli.

Áhyggjur

Ljóst er að meðal íslenskra söluaðila eru miklar áhyggjur af því að Fríhöfnin muni beina innkaupum sínum frá Íslandi en Sigmar Vilhjálmsson hefur verið meðal þeirra athafnamanna sem lýst hafa áhyggjum sínum af því hvað verður selt í Fríhöfninni þegar nýr rekstraraðili tekur við:

„Íslenskir áfengis- og sælgætisframleiðendur hafa hingað til notið Fríhafnarinnar sem sölupall fyrir vörur sínar og glæsilega kynningu fyrir sig og landið þegar 2,3 milljónir manns rölta þar í gegn, tvisvar. En auðvitað, þegar erlendur hæstbjóðandi tekur yfir, verður þeim örugglega alveg sama hvort áfengið, handverkið og súkkulaðið sé frá Íslandi eða einhverjum öðrum afskekktum stað.“

Simmi Vill spyr hvort þjóðin viti þetta um Fríhöfnina?

Framtíð starfsfólks

Víkurfréttir fjalla einnig í sinni frétt um framtíð þess starfsfólks sem nú starfar hjá Fríhöfninni og áhyggjur af mögulegum uppsögnum þegar nýr rekstraraðili tekur við. Samkvæmt fréttinni fengust þau svör hjá Isavia að réttindi og skyldur núverandi starfsmanna færðust yfir til hins nýja rekstraraðila og að engar uppsagnir yrðu við breytinguna.

Þegar DV leitaði svara hjá Isavia, í janúar á þessu ári þegar tilkynnt var að rekstur Fríhafnarinnar yrði boðinn út, um hvort ráðist yrði í uppsagnir í kjölfar útboðsins var vísað til laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og að þau myndu gilda þegar nýr rekstraraðili tæki við.

Eins og DV fjallaði um í janúar þá kemur fram í þeim lögum að framseljanda eða framsalshafa, í þessu tilfelli Isavia og Heinemann, sé óheimilt að segja starfsmanni upp störfum vegna aðilaskipta að fyrirtæki eða hluta þess bæði fyrir og eftir aðilaskiptin nema efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður séu fyrir hendi sem hafi í för með sér breytingar á starfsmannahaldi fyrirtækis.

Það er því ekki hægt að útiloka alfarið að til uppsagna komi þegar rekstur Fríhafnarinnar verður framseldur, miðað við þessi ákvæði laganna.

Ekki hægt að útiloka uppsagnir vegna fyrirhugaðs útboðs á rekstri Fríhafnarinnar

Uppnámið

Ljóst er að með því að útboðið hafi verið kært er þessi breyting á rekstri Fríhafnarinnar komin í ákveðið uppnám.

Eins og áður segir átti Heinemann að taka við rekstrinum í mars en í lögum um Opinber innkaup segir að hafi ákvörðun um val tilboðs verið kærð innan tilskilins tíma sé gerð samnings óheimil þar til kærunefnd útboðsmála hafi endanlega leyst úr kærunni. Sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar vegna kæru taki gildi þegar kaupanda megi vera kunnugt um kæruna.

Þar sem Isavia er alfarið í eigu íslenska ríksins hefur útboðið væntanlega þess vegna verið kært til nefndarinnar.

Það þarf þó ekki að vera að uppnámið verði mikið þar sem kveðið er á um í lögunum að nefndin eigi að úrskurða um kærur eins fljótt og hægt er og ekki seinna en einum mánuði eftir að henni hafa borist athugasemdir kæranda við athugasemdir varnaraðila, ef því er að skipta. Í lögunum kemur þó fram að ef málið varðar EES-samninginn geti nefndin óskað eftir ráðgefandi áliti frá EFTA-dómstólnum. Það sem er um að ræða útboð sem fleiri alþjóðleg fyrirtæki en Heinemann tóku þátt í er ekki óhugsandi að það gerist.

Því er vel mögulegt að meðferð málsins tefjist fram yfir þann tíma í mars sem að Heinemann var ætlað að taka við rekstri Fríhafnarinnar og því yrði væntanlega einhver töf á þeirri tilfærslu. Það sem getur einnig mögulega tafið málið er að skipunartími nefndarinnar rennur út í maí næstkomandi og þá þarf að endurnýja skipun núverandi nefndarmanna eða skipa nýja.

Hvað hins vegar gert verður ef svo fer að nefndin úrskurði útboðið ólöglegt er óvíst.

Hvað gerist í mars með Fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli virðist því óljóst á þessari stundu.

Uppfært

Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar var fullyrt að gengið hefði verið frá samningum milli Isavia og Heinemann en hið rétta er að síðarnefnda félagið varð hlutskarpast í útboði þess fyrrnefnda en bið verður á að hægt verði að ljúka samningum um að þýska fyrirtækið taki við rekstri Fríhafnarinnar, vegna þeirrar kæru sem nú er til meðferðar hjá Kærunefnd útboðsmála. Upphaf fréttarinnar hefur því verið leiðrétt og beðist er velvirðingar á þessum mistökum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Talaði Trump af sér?

Talaði Trump af sér?
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Pólski forsætisráðherrann segir að friðarviðræður hefjist hugsanlega í vetur

Pólski forsætisráðherrann segir að friðarviðræður hefjist hugsanlega í vetur
Fréttir
Í gær

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“
Fréttir
Í gær

Selenskíj varpar ljósi á það hversu margir úkraínskir hermenn hafa fallið í stríðinu

Selenskíj varpar ljósi á það hversu margir úkraínskir hermenn hafa fallið í stríðinu
Fréttir
Í gær

Zelenskyy segir að hægt sé að senda erlendar hersveitir til Úkraínu áður en af NATÓ-aðild verður

Zelenskyy segir að hægt sé að senda erlendar hersveitir til Úkraínu áður en af NATÓ-aðild verður
Fréttir
Í gær

Assad er kominn til Moskvu og heldur dapurri spegilmynd fyrir framan Pútín

Assad er kominn til Moskvu og heldur dapurri spegilmynd fyrir framan Pútín