fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Eyjan

Þórdís Kolbrún svarar gagnrýni Hannesar – „Það er ekki bæði haldið og sleppt í þessu“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 6. desember 2024 21:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra er töluvert hófstillrari í svari sínu, en Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands í gagnrýni sinni á Þórdísi. 

Sjá einnig: Hannes gagnrýnir Þórdísi Kolbrúnu harðlega: „Ég veit ekki á hvaða ferðalagi hún er“

Sagðist Hannes hreinlega ekki vita hvert Þórdís stefnir og tiltók nokkur dæmi máli sínu til stuðnings. Segir hann að utanríkisstefna Íslands eigi að vera einföld: Selja fisk og tryggja varnir.

Þórdís svarar Hannesi í löngu máli á Facebook-síðu sinni. Segist hún ekki heldur vita á hvaða ferðalagi hann er, en segist hafa átt ágæt samskipti við hann, finnist gaman að spjalla við hann um alþjóðamál, stjórnmál og útlönd enda vel lesinn, forvitinn og lífsglaður.

Svarar hún síðan gagnrýni Hannesar hverri fyrir sig.

Segist ekki hafa ein tjáð sig

„Hann spyr hvers vegna við ein Norðurlanda lokuðum sendiráði okkar í Moskvu. Hið rétta er að við vorum eina bandalagsríkið sem enga ákvörðun hafði tekið um diplómatísk samskipti okkar við Rússland, ólíkt öllum hinum. Hins vegar hafði ákvörðun okkar aðrar afleiðingar en hjá þeim enda vorum við einungis með tvo diplómata úti og þrjá staðráðna starfsmenn. Þau hafa flest hver minnkað umsvif sín miklu meira hlutfallslega en við. Rökin fyrir því að halda úti sendiráði eru til að efla viðskipti, pólitísk og menningarleg tengsl og þjónusta við borgara. Viðskiptin eru nánast engin vegna allsherjar innrásar Rússlands í sjálfstætt og fullvalda ríki, pólitísk samskiptin mjög takmörkuð og menningarleg samskipti sömuleiðis. Þá búa sárafáir Íslendingar þar í landi og fleiri í S. Pétursborg en í Moskvu. Hér á Íslandi voru hins vegar á þriðja tug rússneskra diplómata og starfsmanna og má leiða hugann að því hvað sá mannskapur aðhafðist á Íslandi. Ekki voru þau að sinna viðskiptatengslum, pólitískum né menningarlegum. Framganga gagnvart okkar fólki voru þannig að öryggi þeirra var stefnt í tvísýnu. Þannig taldi ég rétt að aðhafast og stend með ákvörðuninni. Við hins vegar slitum ekki stjórnmálasambandi, lögðum eingöngu niður starfsemina tímabundið, en lokuðum ekki og getum því hafið starfsemi að nýju ef og þegar aðstæður breytast. Þangað til má nýta skattfé almennings í aðra gagnlegri hluti.“

Sagði Þórdís okkur að sjálfsögðu virða ákvarðanir Alþjóðasakamáladómstólsins í Haag og gera kröfu um að aðrir geri það líka, en Hannes gagnrýndi ummæli Þórdísar um handtökuskipun á hendur Netanjahú. „Það er rangt að enginn hafi tjáð sig með sambærilegum hætti og ég gerði en það gerðu allir norrænu kollegar mínir ásamt fjölda annarra Evrópulanda. (Líka Sviss).“

Sammála Hannesi um áherslur varðandi Bandaríkin

Þórdís segist hjartanlega sammála Hannesi um áherslur hvað varðar samskipti við Bandaríkin. „Við tökum sannarlega stöðu við hlið Bandaríkjanna enda hafa samskipti okkar ekki verið eins náin og þau eru nú í mjög langan tíma. Það er líka hárrétt að Ísland frelsar ekki heiminn. En Ísland á sem fullvalda og sjálfstætt ríki að taka stöðu sína alvarlega og vera traustur og ábyrgur bandamaður. Við erum ekki hlutlaus eins og Svisslendingar. Það er ekki bæði haldið og sleppt í þessu. Mér þykir vænt um að vitnað sé í Bjarna Benediktsson eldri, okkar framsýnasta leiðtoga sem tók mikilvægustu ákvarðanir fyrir ungt lýðveldi á örlagatímum í Evrópu. Þegar við lesum ræður hans og áherslur frá þeim tíma, ríma þær við áherslur mínar í utanríkismálum, þá sérstaklega öryggis- og varnarmálum,“ segir Þórdís og tekur nokkur dæmi, sem lesa má hér fyrir neðan. Botnar hún með að augljóslega sé kominn tími á að þau Hannes hittist og ræði málin.

„Að öllu þessu virtu er ljóst að við Hannes þurfum að drífa í öðrum kaffibolla og ræða alþjóðamálin, íslensk stjórnmál og fegurð landa og lífsins.“

Dæmi Þórdísar úr ræðum Bjarna Benediktssonar eldri:

Bjarni Benediktsson: Alþingistíðindi 1949: „Þau samtök, sem nú er stofnað til, eru einmitt þau frjálsu samtök lýðræðisþjóðanna, sem allir Íslendingar utan kommúnistaflokksins fram að þessu hafa sagst þrá, bæði til þess að sýna, hvorum megin við stæðum í baráttunni fyrir frelsi og mannréttindum, og til að auka öryggi Íslands. Auðvitað eru sumir, sem segja, að okkur komi barátta annarra ekkert við. Okkur sé nóg að hugsa um sjálfa okkur. Ég skal ekki fara langt út í þá sálma. En hver er sá Íslendingur, utan kommúnistaflokksins, sem óskar þess, að öfl einræðis, kúgunar og miðaldarmyrkurs verði ráðandi í heiminum? Ef svo hryllilega færi, yrði lítið úr íslenskum anda, úr allri arfleið Íslendinga, jafnvel úr tilveru sjálfrar þjóðarinnar ekki síður en menningu og lífi baltnesku þjóðanna og annarra þeirra, sem búa fyrir austan járntjald. Íslendingar eiga jafnt og aðrar þjóðir allt undir því, að öfl frelsis, menningar, framfara og friðar verði ofan á í heiminum.“

Alþingistíðindi 1953: „Hvort sem okkur þykir betur eða verr, eru örlög okkar nátengd þjóðunum, sem umhverfis okkur búa. Baráttan, sem nú er háð í heiminum, er annars eðlis en venjuleg stórveldaátök. Sameiginleg trú á frelsi og mannréttindi tengir okkur við okkar voldugu nágranna. Ef ofbeldið eyðir þessum hugsjónum, er það ekki síður hættulegt fyrir okkur en hina aflmeiri. Það væri þess vegna alger fásinna að láta svo sem baráttan milli frelsis og kúgunar, lýðræðis og áþjánar, komi okkur ekki við.“

Íslensk-ameríska félagið, ræða 1955: „Við Íslendingar þurfum ekki að leita annað en til okkar eigin sögu til að sannfærast um, að í frelsinu býr sá máttur, sem drýgstur verður þjóðunum til farsældar. …En þjóðirnar og aðstæður þeirra eru ólíkar. Svo hefur skipast, að tvö öflugustu stórveldi jarðar hafa valist til forystu hvert gegn öðru í þessari baráttu. Þess vegna segja sumir, að okkur smáþjóðunum komi baráttan ekki við. Auðvitað blandast margt óskýkt í þessa viðureign eins og í önnur viðskipti mannanna, en skilsmunurinn er þó svo skýr, að engum óblinduðum manni ætti að vera vorkunn á að sjá, að hér er um það að tefla, sem varðar heill og hamingju hvers og eins. Hlutleysi hugans í þeirri baráttu er því sama og uppgjöf viljans til gæfu og hamingju.“

„Íslendingum er síst minnkun, þó að þeir taki þátt í bandalagi til að tryggja varnir lands síns, á meðan stærstu stórveldi heims telja sér slíka þátttöku lífsnauðsyn. Lærdómur sögunnar eru og þeir, að ef vesturveldin hefðu á árunum 1918 og 1939 haft slíkt samstarf og á komst 1949, þá mundi seinni heimsstyrjöldin aldrei hafa skollið á. Íslendingar þurfa ekki síður en aðrir á friði að halda, og þeim ber ekki síður en öðrum að gera sitt til að svo megi verða.“ (Kafli úr ræðu á 17. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 20. apríl 1967 – Morgunblaðið 22. apríl 1967)

„Ákvarðanir annarra geta haft úrslitaáhrif fyrir okkar eigin ákvörðun. Á sama veg verðum við að skilja, að okkar eigin ákvörðun getur haft mikla þýðingu fyrir aðra. Umfram allt verðum við að muna, að sá, sem æskir frelsis, verður að sýna með gerðum sínum, að hann eigi frelsið skilið.“ (Kafli úr ræðu á ráðstefnu um varnarmál 2. júlí 1966 – Morgunblaðið, 10. júlí 1966)

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland: „Við munum marka okkar spor í sandinn strax á þessu fyrsta ári“

Inga Sæland: „Við munum marka okkar spor í sandinn strax á þessu fyrsta ári“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Steingerður Þorgilsdóttir skrifar: Gæðakerfi byggja oft á einföldum tékklistum

Steingerður Þorgilsdóttir skrifar: Gæðakerfi byggja oft á einföldum tékklistum
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Jón stefnir ekki á formannsframboð – Ósáttur við Þórdísi Kolbrúnu og sakar hana um vanvirðingu

Jón stefnir ekki á formannsframboð – Ósáttur við Þórdísi Kolbrúnu og sakar hana um vanvirðingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Leitið ekki langt yfir skammt, Moggamenn!

Svarthöfði skrifar: Leitið ekki langt yfir skammt, Moggamenn!
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hreinsanir halda áfram hjá Sýn – Yfir­maður aug­lýsinga­mála stígur til hliðar

Hreinsanir halda áfram hjá Sýn – Yfir­maður aug­lýsinga­mála stígur til hliðar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingmaður Miðflokksins er Íslandsmeistari í bekkpressu

Þingmaður Miðflokksins er Íslandsmeistari í bekkpressu