fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Pressan

Sakamál: Var framið réttarmorð á Rebeccu eða er hún besti lygari í heimi?

Pressan
Sunnudaginn 8. desember 2024 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þú ert annaðhvort fórnarlamb gífurlega óréttlátrar málsmeðferðar réttarkerfisins og lífstíðarfangelsi þitt ólýsanlega ranglátt, eða þú ert kaldrifjaður morðingi og besti lygari sem ég hef nokkurn tíma hitt um ævina. Og ég skal vera hreinskilinn við þig, ég veit ekki hvort það er,“ sagði sjónvarpsmaðurinn Piers Morgan í lok viðtals síns við Rebeccu Fenton, árið 2017. Rebecca situr af sér lífstíðardóm fyrir að hafa orðið eiginmanni sínum að bana árið 2008 en hún var ekki handtekin og ákærð vegna morðsins fyrr en sex árum síðar.

Verjandi Rebeccu segist telja að hún sé saklaus og hafi verið ranglega dæmd. Í viðtalinu við Piers lýsir Rebecca því fjálglega hve heitt hún elskaði eiginmann sinn Larry Fenton, hvað hjónaband þeirra hafi verið hamingjusamt og að hún hafi nákvæmlega ekki haft neina ástæðu til að vilja hann feigan.

Sagan gerist í Clearwater í Florída. Þar kynntust Rebecca og Larry í líkamsræktarstöð þegar bæði þurftu að nota sama líkamsræktartækið. Þau náðu ótrúlega fljótt saman og Rebecca lýsir kynnum þeirra sem nánast ást við fyrstu sýn.

Larry var ekki bara myndarlegur heldur moldríkur en hann hafði efnast sem lyfjasölumaður í hæsta klassa. Hann gat boðið Rebeccu upp á þægilegan lífsstíl, hún þurfti ekki að neita sér um nokkurn skapaðan hlut og hún naut þessa ljúfa lífs út í ystu æsar.

Dag einn í febrúar kom Rebecca að manni sínu liggjandi á gólfinu í húsi þeirra, í blóðpolli. Hún hafði verið við líkamsæfingar úti í bílskúr og þegar hún kom aftur inn í hús blasti þessi sjón við henni. Allt var á rúi og stúi í húsinu og virtist árásarmaðurinn hafa látið greipar sópa eða leitað ákaft að einhverju. Rebecca hringdi í neyðarlínuna. Larry Fenton var látinn þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang og hafði hann verið skotinn til bana.

Er lögregla ræddi við Rebeccu var fyrst litið á hana sem syrgjandi ekkju en smám saman fylltust lögreglumenn tortryggni í garð hennar. Það þótti sérkennilegt að Rebecca skyldi hlaupa út á götu eftir að hún kom að manni sínum og hringja í neyðarlínuna þar, í stað þess að reyna að koma manni sínum með hjálpar en hann var að hennar sögn með lífsmarki er hún kom að honum. Í annan stað þótti einnig sérkennilegt að Rebecca skyldi hafa farið upp á aðra hæð í húsinu eftir að hún kom að Larry látnum, en hún sagðist hafa gert það og séð þá að allt var á rúi og stúi.

Er nokkrir dagar voru liðnir af rannsókninni kom í ljós að morðvopnið var skammbyssa í eigu hjónanna. Byssan fannst síðan í bíl Rebeccu og var þar í litlum plastpoka.

En þó að ekkjan liti svona grunsamlega út var hún ekki ákærð og málið lá óhreyft hjá lögreglu næstu sex árin.

Handtekin sex árum síðar

Í sex ár lá málið í bunka af óleystum sakamálum lögreglunnar í Florida, þegar iðinn rannsóknarlögreglumaður hóf rannsókn þess að nýju. Lögreglumaðurinn, Mike Hasty, áleit að óreiða í húsi hjónanna hefði verið sviðsett enda höfðu engin verðmæti verið tekin.

Það sem réð þó úrslitum um örlög Rebeccu var vitnisburður tveggja vitna. Maður að nafni Alfred Nolen gaf sig fram en hann var fyrrverandi kærasti Rebeccu. Höfðu þau átt í sambandi eftir dauða Larry. Alfred hélt því fram að Rebecca hefði einu sinni haldið hnífi að hálsi hans og hótað að drepa hann eins og hún hefði drepið Larry.

Enn verri fyrir Rebeccu var þó framburður móður hennar. Sú kona, Karen, greindi lögreglu frá því að á meðan Rebecca var gift Larry hafi hún átt í ástarsambandi við mann sem hún kynntist í AA-samtökunum, en þangað leitaði Rebecca er hún missti um tíma stjórn á áfengisneyslu sinni. Karen segist aðspurð telja að Rebecca hafi myrt Larry.

Eitt var ónefnt í rannsókninni, í ljós kom að Larry hafði látið Rebeccu undirrita kaupmála, en samkvæmt honum myndi hún aðeins fá ríflega 20.000 dollara í sinn hlut ef þau hjónin myndu skilja. Hins vegar myndi hún fá um eina milljón dollara ef Larry myndi deyja.

Rebecca var fyrir dómi fundin sek um morð á eiginmanni sínum, Larry Fenton, og dæmd í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn.

Engin bein sönnunargögn

Það vekur athygli að við rannsókn málsins var engum beinum sönnunargögnum til að dreifa, engum réttarmeinafræðilegum sönnunargögnum, t.d. lífsýnum. Ljóst er hins vegar að sterk óbein sönnunargögn koma við sögu sem varpa grun á Rebeccu.

Í viðtali við Piers Morgan bendir Rebecca á að engin réttarmeinafræðileg sönnunargögn hafi fundist, fyrir svo utan það að hún hafi ekki haft neina ástæðu til að myrða eiginmann sinn. Þau hafi verið hamingjusöm og ástfangin, fyrir svo utan að fjárhagsleg staða hennar hafi verið verri án hans en í hjónabandi með honum.

Piers Morgan segir að Rebecca sé sannfærandi í viðtalinu en engu að síður bendi allt til þess að hún sé sek.

Rebecca hefur á undanförnum árum unnið að því að fá málið sitt tekið upp að nýju en án árangurs. Margir trúa þó á sakleysi hennar. Viðtal hennar við Piers Morgan er í spilaranum hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Tik-Tok-maðurinn dæmdur

Tik-Tok-maðurinn dæmdur
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Benjamin Netanyahu í vitnastúkunni í eigin spillingarmáli – „Ég hef beðið þessarar stundar í átta ár“

Benjamin Netanyahu í vitnastúkunni í eigin spillingarmáli – „Ég hef beðið þessarar stundar í átta ár“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Lét mömmu sína hringja í þingmenn svo hann geti orðið varnarmálaráðherra – „Hann hljóp heim og klagaði í mömmu“

Lét mömmu sína hringja í þingmenn svo hann geti orðið varnarmálaráðherra – „Hann hljóp heim og klagaði í mömmu“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar
Pressan
Fyrir 5 dögum

Vinna í kappi við tímann við að bjarga þúsundum úr sýrlensku neðanjarðarfangelsi

Vinna í kappi við tímann við að bjarga þúsundum úr sýrlensku neðanjarðarfangelsi